ENGLISH

DEUTSCH


Markmið Hagþenkis er að gæta hagsmuna og réttar
félagsmanna og bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita
og kennslugagna og annars sem félagsmenn vinna að.

 

FÉLAGSAÐILD
» Hagþenkir  » Lög félagsins

Lög Hagþenkis - félags höfunda fræðirita og kennslugagna

 

1. gr.

Félagið heitir Hagþenkir - félag höfunda fræðirita og kennslugagna. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Markmið félagsins er að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna og bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita og kennslugagna. Að markmiðinu skal m.a. vinna með því að

  • afla upplýsinga og veita leiðbeiningar sem félagsmönnum mega að gagni koma.
  • annast samninga sem félagsfundir ákveða að gerðir skuli fyrir félagsmenn sameiginlega og vera aðili að rétthafasamtökum sem máli skipta í því sambandi
  • úthluta því fé sem greitt er til félagsins samkvæmt slíkum samningum í samræmi við reglur sem samþykktar eru á félagsfundi
  • vinna að því að lög, reglugerðir og reglur sem í gildi eru á hverjum tíma þjóni sem best markmiðum félagsins og vinna að sem víðtækastri viðurkenningu á gildi þess að starfsskilyrði höfunda fræðirita og kennslugagna séu sem best.
3. gr.

Félagar geta orðið höfundar útgefinna fræðirita og kennslugagna og skylds efnis sem veita félaginu umboð til að annast fyrir sína hönd samninga í samræmi við 2. grein. Umsóknir um aðild skulu sendar stjórn félagsins, sem kannar rétt umsækjenda til aðildar að félaginu og ákveður hvort umsókn verður hafnað eða hún samþykkt. Ákvörðun stjórnar skal tilkynnt umsækjanda bréflega innan 4 vikna frá því umsókn berst.

4. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn í mars eða apríl. Boðað skal bréflega til hans með minnst 14 daga fyrirvara. Eftirtaldir liðir skulu ætíð vera á dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar og reikningar. - Kjör stjórnar fulltrúaráðs og endurskoðenda. - Ákvörðun félagsgjalds fyrir næsta reiknings-ár.- Önnur mál.- Aðalfundur telst löglegur, ef löglega er til hans boðað.

5. gr.

Framboð til stjórnar skulu berast skrifstofu félagsins með sjö daga fyrirvara. Stjórnina skipa fimm menn kosnir á aðalfundi. Formaður skal kosinn sérstaklega. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

6. gr.

Fulltrúaráð skipa stjórn og fimm aðrir félagsmenn kosnir á aðalfundi og skulu þeir vera varamenn í stjórn. Skulu þeir kvaddir til stjórnarfunda til skiptis eftir því sem þörf krefur. Skal stefnt að því að fulltrúaráðið skipi höfundar sem starfa á ólíkum vettvangi. Ráðið tekur þátt í mótun stefnu í starfi félagsins og tekur ákvarðanir um þau mál sem stjórn eða félagsfundir vísa til þess. Formaður félagsins er jafnframt formaður fulltrúaráðs.

7. gr.

Allar meiri háttar ákvarðanir skal bera undir félagsfund, þ.á m. samninga og ráðstöfun fjármuna, sbr. 2. gr. Tillögur stjórnar og fulltrúaráðs í því efni skal kynna í fundarboði. Til almennra félagsfunda skal boðað með dagskrá.

8. gr.

Reikningsár félagsins skal vera frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.

9. gr.

Félagar, sem skulda tvö árgjöld, skulu fá sérstaka aðvörun áður en reikningar eru gerðir upp fyrir aðalfund og missa síðan réttindi sín í félaginu og skulu strikaðir af félagaskrá hafi þeir ekki gert skil fyrir fundinn. Félagar sem hafa náð 70 ára aldri skulu undanþegnir greiðslu félagsgjalda.

10. gr.

Lögum þessum er aðeins heimilt að breyta á aðalfundi, enda séu lagabreytingar sérstakur liður á auglýstri dagskrá hans. Heimilt er félagsmönnum að gera tillögur um lagabreytingar og skulu þær þá berast stjórn a.m.k. einum mánuði fyrir aðalfund. Lagabreyting tekur því aðeins gildi, að hún hljóti atkvæði 2/3 hluta fundarmanna á aðalfundi.
Þórunnartúni 2, annarri hæð.  —  Skrifstofa nr. 7  —  105 Reykjavík  —  Sími: 551 95 99  —  hagthenkir[hja]hagthenkir.is
Umsjón