Ljósritun

Ljósritun til einkanota

Heimilt er að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu. Það felur í sér fyrir utan að gera eintök til eigin nota má einnig gera eintök fyrir fjölskyldu og vini, þannig er t.d. leyfilegt að ljósrita söngtexta fyrir veislur. Enginn má þó gera eða láta gera fleiri en þrjú slík eintök til notkunar í atvinnu sinni. Kennari má t.d. ljósrita ljóð til að lesa upp fyrir bekkinn sinn en hann má ekki dreifa ljósritum af sama ljóði.

Ljósritun í skólum og stofnunum

Ljósritun sem gerð er vegna starfa á vegum skóla, fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka, telst ekki til einkanota og því þarf annað hvort leyfi einstakra höfunda til ljósritunar eða samning við FJÖLÍS (Fjölís er hagsmunafélag samtaka sem koma fram fyrir hönd rétthafa að verkum sem njóta höfundaréttar og nýtt eru með ljósritun eða annarri hliðstæðri eftirgerð rita). Samkvæmt samningum FJÖLÍS má aðeins ljósrita til viðbótar og fyllingar öðru efni. Aðeins má ljósrita stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta, þó aldrei meira en 30 bls. (A4) . Aðeins má ljósrita til bráðabirgðaafnota. Aðeins má ljósrita með tækjum sem til eru innan stofnunar Í hvert sinn sem ljósritað er þarf að koma fram á ljósritinu hver sé höfundur verksins og útgefandi, útgáfuár og útgáfustaðu.

Sjá nánar á heimasíðu FJÖLÍS, fjolis.is