Lög um bókmenntir, samþykkt á Alþingi 20. desember 2012

Lög   um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira, nr. 91/2007 (Miðstöð íslenskra bókmennta) og hlutu lögin nafnið: Lög um bókmenntir. Sjá nánar. 

 

 

 

                                                                                           Lög

um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira, nr. 91/2007 (Miðstöð íslenskra bókmennta).

 

________

 

1. gr.

    Í stað II. kafla (2. og 3. gr.) í lögunum kemur nýr kafli, Miðstöð íslenskra bókmennta og bókmenntasjóður, með fimm nýjum greinum, 2.–6. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytast númer annarra greina samkvæmt því:

    a. (2. gr.)

Miðstöð íslenskra bókmennta.

    Viðfangsefni Miðstöðvar íslenskra bókmennta eru að:
    a.     styrkja útgáfu íslenskra ritverka og útgáfu erlendra bókmennta á íslenskri tungu með fjárframlögum úr bókmenntasjóði, sbr. 4. gr.,
    b.     kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að útbreiðslu þeirra og
    c.     efla bókmenningu á Íslandi.

    b. (3. gr.)

Stjórn.

    Ráðherra skipar fimm manna stjórn fyrir Miðstöð íslenskra bókmennta til þriggja ára í senn. Rithöfundasamband Íslands tilnefnir tvo fulltrúa, Félag íslenskra bókaútgefenda tilnefnir einn fulltrúa, Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna tilnefnir einn fulltrúa og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Varaformaður skal skipaður úr hópi stjórnarmanna. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn miðstöðvarinnar lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta ákveður árlega skiptingu ráðstöfunarfjár á fjárlögum á milli viðfangsefna hennar, sbr. 2. gr., og úthlutar úr bókmenntasjóði. Hún gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi miðstöðvarinnar og bókmenntasjóðs, sbr. 4. gr., til þriggja ára. Hún veitir einnig umsögn um erindi sem ráðuneytið vísar til hennar og getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum um bókmenntamálefni til ráðuneytisins.
    Ráðherra felur stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast þjónustu í nafni miðstöðvarinnar.
    Þóknun til stjórnarmanna og annar kostnaður við störf stjórnarinnar greiðist af fjárveitingu Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

    c. (4. gr.)

Bókmenntasjóður.

    Bókmenntasjóður starfar á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Hlutverk hans er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu. Hlutverk sitt rækir sjóðurinn með því að styrkja:
    a.     útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka,
    b.     útgáfu vandaðra rita sem eru til þess fallin að efla íslenska menningu,
    c.     útgáfu vandaðra erlendra bókmennta á íslenskri tungu.

    d. (5. gr.)

Úthlutun.

    Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta tekur ákvörðun um veitingu styrkja úr bókmenntasjóði. Við mat á umsóknum er stjórninni heimilt að leita umsagnar fagaðila.
    Ákvarðanir um úthlutun úr bókmenntasjóði verða ekki kærðar til æðra stjórnvalds.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi bókmenntasjóðs.

    e. (6. gr.)

Kostnaður.

    Tekjur Miðstöðvar íslenskra bókmennta og bókmenntasjóðs eru árlegt framlag í fjárlögum og annað sjálfsaflafé. Fjárveitingar, sbr. 2. gr., skulu sérgreindar í fjárlögum hverju sinni.

2. gr.

    Í stað orðanna „4. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: 7. gr.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal skipa fimm manna samráðsnefnd. Félag íslenskra bókaútgefenda og Námsgagnastofnun tilnefna einn fulltrúa hvort. Ráðherra skipar þrjá fulltrúa án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður samráðsnefndarinnar. Skipun samráðsnefndarinnar gildir til 1. september 2013.
    Samráðsnefndin skal skila ráðherra skýrslu þar sem fjallað verði um framtíðarsýn og starfsumhverfi íslenskrar bókaútgáfu, miðlun og bókmenningu, kennsluefni og fagefni fyrir skóla og fyrirtæki, svo og almenna bókaútgáfu. Nefndinni verði m.a. falið að leggja fram tillögur og marka skýra stefnu um aukna rafbókavæðingu á Íslandi, stafrænan aðgang almennings að höfundarréttarvörðu efni, kerfisbundin innkaup bókasafna, greiðslur fyrir aðgengi almennings að prentuðum og rafrænum bókum, eflingu námsgagnaútgáfu og hvernig megi auka aðgengi nemenda að innlendum námsbókum. Ráðherra verði heimilt að fela samráðsnefndinni frekari verkefni ef þörf er á.

4. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um bókmenntir.

5. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2013.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara tekur Miðstöð íslenskra bókmennta við eignum og skuldbindingum bókmenntasjóðs svo og óafgreiddum styrkloforðum. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir á fjárlögum fyrir árið 2012 fyrir bókmenntasjóð.
    Við gildistöku laga þessara flytjast starfsmenn bókmenntasjóðs til skrifstofu Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Fer um réttindi og skyldur starfsmanna eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.

_____________

Samþykkt á Alþingi 20. desember 2012.