Ný lestrarkönnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta leiðir í ljós að þjóðin les eða hlustar að meðaltali á 2,4 bækur á mánuði og ver til þess 30 til 60 mínútum á dag. Helsta breyting á lestrarvenjum er verulega aukin notkun hljóðbóka. Einnig vekur athygli að sá hópur sem hefur lesið lítið sem ekkert fer stækkandi.
Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn – Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands gera könnun á bóklestri Íslendinga. Þetta er sjöunda árið sem sambærileg könnun er lögð fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað. Spurningar sem lagðar voru fyrir svarendur eru neðst í fréttinni.
Mikil aukning á notkun hljóðbóka
- Gífurleg aukning orðið á notkun hljóðbóka frá árinu 2018, en þá hlustuðu 11% þjóðarinnar vikulega eða oftar, sem nú er komið í 27% en það telst vera 145% aukning. Á sama tímabili hefur vikulegur lestur hefðbundinna bóka minnkað um 17%, eða úr 36% árið 2018 niður í 30% árið 2023.
- Notkun hljóðbóka er algengust hjá aldurshópnum 35-54 ára. Sjá nánar á heimasíðu MÍB: https://rsi.is/notkun-hljodboka-aukist-mikid-en-lestur-boka-dregist-saman/