Kristín Svava Tómasdóttir hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis 2018

""   Viðurkenning Hagþenkis var veitt 6. mars í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn, og  hana hlaut Kristín Svava Tómasdóttir fyrir ritið, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, sem  Sögufélag gaf út.

 

                                                          
 Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins sagði um ritið: Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni. Viðurkenninguna veitti  formaður Hagþenkis Jón Yngi Jóhannsson, sem felst hún í árituðu skjali og 1.250.000 kr. Tónlist fluttu Tómas R. Einarsson og Sigríður Thorlacius, meðal annars við ljóð Kristínar Svövu.
 
Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt Viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað félagsmönnum til tveggja ára í senn, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða rit og höfundur hlýtur Viðurkenninguna. Í Viðurkenningarráðinu fyrir útgáfuárið 2018 sátu: Auður Styrkársdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Henry Alexander Henrysson og Svanhildur Kr. Sverrisdóttir.

Þakkarræða Kristínar Svövu Tómasdóttur. 

 

Ég dreg mörkin við bletti í lakinu, ég dreg mörkin við drenginn með tárið. Ég skrifaði þetta ljóð fyrir fjórum árum eða svo, innblásin af athugasemd ókunnugrar konu á internetinu. Umræðan snerist um rasisma og það hvort tiltekið skammaryrði væri neikvætt eða merkingarlega hlutlaust, sem var sú skoðun sem þessi kona hélt fram, en svo bætti hún við: „Ég dreg mörkin við…“ og nefndi svo annað skammaryrði um svart fólk. Ég gat ekki hætt að hugsa um þessa athugasemd; hún var svo algjörlega tilviljunarkennd, en fyrir konunni sem setti hana fram var munurinn á þessum tveimur skammaryrðum munurinn á réttu og röngu, skynsemi og rökleysu. Að draga mörkin er að greina á milli góðs og ills, hins ásættanlega og óásættanlega, þess sem skyldi láta afskiptalaust og þess sem ætti að vera bannað eða fordæmt eða falið eða ekki til. Að draga mörkin er að setja fram yfirlýsingu um eigið gildismat, um eigin persónu, en úr þessari yfirlýsingu má auðvitað líka lesa ýmislegt um gildismat samfélagsins.

Að skilgreina klám snýst um að draga mörkin. Bandaríski bókmenntafræðingurinn Walter Kendrick skrifaði að saga kláms á 20. öld hefði verið „yfirþyrmandi og vonlaus viðleitni við að sortera verðmætin frá ruslinu“. Ruslið – það var það sem lenti í klámflokknum. Eitt af því sem er svo heillandi við klámhugtakið og sögu þess er hversu sveigjanlegt það er, en þó alltaf svo neikvætt. Stund klámsins lýkur á orðunum „það eina sem fólk virtist almennt vera sammála um var að klám væri vont“; ég fór fram og til baka með þessi lokaorð, fannst þau ekki alveg nógu fjörleg, en á endanum var ekkert sem lýsti efni bókarinnar betur. Að draga mörkin milli kláms og ekkikláms er að draga mörkin milli fegurðar og ljótleika, smekks og smekkleysis, ástar og ofbeldis, hreinleika og sóðaskapar, fágunar og grófleika. Það er hátt í áratugur síðan ég fór fyrst að hugsa um sögu kláms en fyrir mér er þetta forsmáða og gildishlaðna fyrirbæri ennþá algjörlega ómótstæðilegt sagnfræðilegt viðfangsefni.

Og að skrifa þessa bók, það hefur líka styrkt mig í ástinni á sagnfræðinni sjálfri, þessu stórkostlega fagi sem er ekkert hverfult óviðkomandi, frá hinu smæsta til hins stærsta; sem snýst að svo miklu leyti um texta, að lesa í það sem býr í orðunum og það sem býr á bak við þau, að reyna að varpa nýju ljósi á aðalatriði og aukaatriði, slíta þau í sundur og tengja þau saman, að skoða fólk og það sem fólk segir og það sem það segir ekki – og búa til nýjan texta, sem er ekki bara tilraun til að skilja söguna heldur einnig hluti af þessari sömu sögu.

Stund klámsins er byggð á meistararitgerðinni minni í sagnfræði, og þótt liðið sé á fimmta ár frá því ég útskrifaðist frá Háskóla Íslands líður mér dálítið eins og bókin sé sveinsstykkið mitt sem sagnfræðingur, endapunkturinn á löngu og ánægjulegu þjálfunartímabili. Á því tímabili naut ég stuðnings og leiðsagnar margra, frá skjalavörðum og safnafólki til vina og vandamanna, og ekki síður allra minna frábæru sögu- og sagnfræðikennara sem eiga ekki minnstan þátt í því að ég skuli standa hér í dag. Alveg frá því í grunnskóla hef ég setið í tímum hjá herskara metnaðarfullra sagnfræðinga, fólki sem miðlaði þekkingu sinni á sögunni og faginu af ástríðu og gleði, vakti áhuga á og virðingu fyrir greininni, leiðbeindi og gagnrýndi en treysti nemendum sínum jafnframt til að standa á eigin fótum. Hér verður að nefna sérstaklega Ragnheiði Kristjánsdóttur, sem leiðbeindi mér við skrif meistararitgerðarinnar, átti hugmyndina að því að koma henni út á bók og kom mér í samband við Sögufélag – þar sem margir góðir kennarar voru líka innanbúðar – og þar sem allir lögðust á eitt við að gera bókina sem best úr garði, bæði að inntaki og útliti. Um leið og ég þakka viðurkenningaráði Hagþenkis fyrir þennan mikla heiður langar mig að tileinka viðurkenninguna öllum sögukennurunum mínum, með innilegu þakklæti fyrir uppeldið.