Þóknanir vegna fræðslu- og heimildamynda og annars fræðilegs efnis í ljósvakamiðlumn

Þóknanir til rétthafa á fræðslu- og heimildarmyndum og annars fræðilegs efnis í ljósvakamiðlum.

Hagþenkir annast greiðslu þóknana til höfunda handrita heimildamynda og annars fræðilegs efnis og fræðsluefnis sem útvarpað er til almennings. Höfundar slíks efnis geta sótt um þóknun til Hagþenkis án tillits til aðildar að félaginu.
 
Stjórn Hagþenkis auglýsir eftir umsóknum í apríl ár hvert. Stjórnin afgreiðir umsóknir. Sæki félagar í stjórn um þóknanir skal þeim óheimilt að taka þátt í afgreiðslunni.
 
Réttur til greiðslu er bundinn því að viðkomandi verki hafi verið útvarpað, hafi verið gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði er hann sjálfur kýs eða hafi verið gefið út á hljóðriti eða myndriti.
Rétturinn nær til fræðilegs efnis, heimildamynda, fræðsluþátta og annars þess efnis sem fellur undir starfssvið félagsins og sem Innheimtumiðstöð gjalda, IHM, fær greitt fyrir frá ríkisvaldinu skv. 11. gr. höfundalaga.

[Til grundvallar ákvörðun þóknunar skal stjórn hafa eftirfarandi reiknireglu: Hver mínúta af sýndri heimildamynd eða fræðslumynd margfaldast með fimm; hver mínúta af útvarps- eða hlaðvarpsþætti margfaldast með tveimur. Heildarupphæð þóknana skal síðan deilt milli umsækjenda í samræmi við heildarmínútufjölda. Um úthlutanir vegna annarrar miðlunar fræðilegs efnis fer samkvæmt ákvörðun stjórnar.]

Séu fleiri en einn höfundur að sama verki, skiptist réttur til úthlutunar eftir samkomulagi þeirra. Ef samkomulag næst ekki um skiptingu fer um hana samkvæmt ákvörðun stjórnar.

Auglýst er ár hvert eftir umsóknum handritshöfunda, sem eru rétthafar á fræðslu- og heimildarmyndum og þáttum, um þóknanir sem Hagþenkir greiðir í framhaldi af gerðardómi um skiptingu tekna Innheimtumiðstöðvar gjalda af myndböndum og myndbandstækjum. Stjórn Hagþenkis metur umsóknir og ákvarðar úthlutun eftir því sem samþykkt var á aðalfundi.