Handrit á heimsmælikvarða

 

Þriðja og síðasta rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða á haustmisseri verður haldið fimmtudaginn 13. nóvember kl. 20 í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3. Þá flytur Davíð Ólafsson sagnfræðingur erindi "Handrit á heimsmælikvarða".

 

Davíð lýsir erindi sínu á þennan hátt:

Menningarsaga Íslendinga á síðari öldum býr yfir mörgum áhugaverðum þverstæðum. Ein er sú að þrátt fyrir staðgóða vitneskju um almenna útbreiðslu læsis frá og með miðri 18. öld og landlægann áhuga á fornsögum og kveðskap höfðu Íslendingar allajafna mjög takmarkaðann aðgang að prentuðu veraldlegu lesefni fram á síðustu áratugi 19. aldar. Þess í stað var vinsælu lesefni, s.s. Íslendingasögum, riddarasögum, rímum og hverskyns kveðskap, miðlað í uppskriftum frá manni til manns, og kynslóð til kynslóðar. Gjarnan hefur verið litið á slíka handritamiðlun síðari alda sem arf frá miðöldum og tákn um menningarlega stöðnun.

Í erindi sínu fjallar Davíð Ólafsson sagnfræðingur um íslenska handritamenningu síðari alda, einkum 19. aldar, í samhengi við nýlegar rannsóknir á stöðu handritaðrar miðlunar í Evrópu, Norður Ameríku og Asíu á tímum prentvæðingar og samspili þessara tveggja miðla, prents og handritunar. Þessar rannsóknir benda til að handritamenning hafi víðast hvar gegnt mikilvægu hlutverki í bóklegri menningu árnýaldar og tilkoma prentverks á 15. og 16. öld hafi fráleitt leyst handritun af hólmi sem farvegur sköpunar, tjáningar og miðlunar texta. 

Um leið og spurningamerki eru sett við hugmyndir um sérstöðu íslenskrar bókmenningar að þessu leiti er vikið að því sem Íslensk handrit síðari alda og menningarsögulegar rannsóknir á framleiðslu, dreifingu og neyslu þeirra hafa fram að færa við ört vaxandi alþjóðlegt rannsóknarsvið.  

Allir velkomnir.