Ragnar Stefánsson, Arndís Þórarinsdóttir og Pedro Gunnlaugur Garcia eru handhafar Íslensku bókmenntaverðlaunin 2022. Skúli Sigurðsson hlaut Íslensku glæpsasagnaverðlaunin Blóðdropann. Forseti Íslands afhenti bókmenntaverðlaunin og Blóðdropann við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 24. janúar. Þetta er í fyrsta sinn sem Blóðdropinn er veittur samhliða Íslensku bókmenntaverðlaununum.
Ragnar Stefánsson. Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta. Útgefandi: Skrudda
Umsögn lokadómnefndar: Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta geymir afrakstur ævilangrar glímu við rannsóknir sem hafa beinst að því hvernig spá megi fyrir um jarðskjálfta. Hér eru dregnar saman niðurstöður alþjóðlegrar þekkingarleitar sem skilaði loks þeim árangri að hægt var að spá fyrir um stóran skjálfta á Suðurlandi. Sagan á bak við þennan heimsögulega árangur er sögð með aðgengilegum hætti, vel skrifuðum texta, upplýsandi kortum og skýringarmyndum, án þess að slakað sé á fræðilegum kröfum; uppgötvunarferlinu er haldið til haga og þess gætt að sýna öllum sem að því hafa komið örlæti. Hér getur hvert mannsbarn séð hvernig vísindaleg þekking verður til – á sviði sem varðar almenning miklu – og því er verkið líklegt til að laða ungt fólk að vísi.
Arndís Þórarinsdóttir. Kollhnís. Útgefandi: Forlagið
Umsögn lokadómnefndar: Kollhnís segir frá því hvernig ungur drengur upplifir umhverfi sitt og fjölskylduaðstæður sem hann ræður illa við eftir að litli bróðir hans greinist með einhverfu. Sagan er skrifuð af miklu stílöryggi og tekur á erfiðum málum með hæfilegri glettni sem gerir það bæði bærilegt og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig sýn fullorðinna afhjúpar þá mynd sem drengurinn gerir sér af þeim sem hann dáist að og tengist vináttu- og tilfinningaböndum – í krafti einlægni sinnar. Samtöl eru sannfærandi og styðja vel við hvernig snúið er upp á ranghugmyndir um fullkomnun og velgengni annarra — sem kallast á við þá viðleitni að feta hina beinu lífsins braut að skilgreindum markmiðum með sviðsettri sjálfsmynd á samfélagsmiðlum.
Sjá aðrar tilnefningar: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/01/24/ometanleg_vidurkenning/?fbclid=IwAR3LKFswgs6R9FPj7oFw4UpDQRrpvE17LJKum06n2GL-odjpYuDmIZQEN6A