Hagræn umsvif skapandi greina í ísl. atvinnulífi

 

 Að frumkvæði Samráðsvettvangs skapandi greina ákváðu fimm ráðuneyti og Íslandsstofa að fjármagna kortlagningu á hagrænum umsvifum skapandi greina í íslensku atvinnulífi. Allir sem starfa í skapandi greinum á Íslandi eru hvattir til að fjölmenna á stuttan kynningarfund þar sem tölulegar niðurstöður kortlagningarinnar verða opinberaðar. Niðurstaðan leiðir í ljós að skapandi greinar eru ein af megin stoðum íslensks atvinnulífs. Við sem störfum innan þeirra höfum lengi skynjað það afl sem býr með okkur en nú liggja helstu niðurstöður fyrir og verða þær kynntar miðvikudaginn 1. des. kl 11:00 í Bíó Paradís við Hverfisgötu.

 

Í kynningunni á niðurstöðum mun meðal annars koma fram að:

  • Skapandi greinar eru einn af burðarásum íslensks atvinnulífs
  • Stærð greinanna, velta og umfang er verulegt
  • Velta skapandi greina hefur haldist stöðugri en annarra atvinnugreina, þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu
  • Framlög úr opinberum sjóðum eru grunnstoð lista á Íslandi
  • Skapandi greinar gefa af sér gríðarlega mikil afleidd verðmæti og leiða af sér fjölda starfa í öðrum atvinnugreinum t.d. verslun og þjónustu

 

Gestgjafar á fundinum verða ráðuneytin fimm sem standa að fjármögnun verkefnisins ásamt Íslandsstofu. Mennta- og menningarmálaráðherra og iðnaðarráðherra munu ávarpa fundinn. Fundurinn er liður í að vinna að viðurkenningu og skilgreiningu á skapandi greinum sem atvinnuvegi sem kveður að. Það væri gaman að sjá sem flest andlit úr hinum skapandi geira meðal gesta, látið því boðið berast sem víðast segir í fréttatilkynningu frá Bókmenntasjóði.