Guðjón Friðriksson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Börn Í Reykjavík

 Guðjón Friðriks­son, Krist­ín Ómars­dótt­ir og Rán Flygenring og hlutu Íslensku bók­mennta­verðlaun­in 2024 úr hendi Höllu Tóm­as­dótt­ur for­seta Íslands, er þau voru af­hent við hátíðlega at­höfn á Bessa­stöðum í 36. sinn. Við sama tæki­færi voru Íslensku glæpa­sagna­verðlaun­in – Blóðdrop­inn 2024, af­hent í 19. sinn og þau hlaut Stefán Máni.

Krist­ín hlaut verðlaun­in í flokki skáld­verka fyr­ir skáld­sög­una Móðurást: Draumþing sem Mál og menn­ing gef­ur út; Rán í flokki barna- og ung­menna­bóka fyr­ir mynda­bók­ina Tjörn­in sem Ang­ú­stúra gef­ur út og Guðjón í flokki fræðibóka og rita al­menns efn­is fyr­ir bók­ina Börn í Reykja­vík sem Mál og menn­ing ­gef­ur út. Stefán Máni var verðlaunaður fyr­ir glæpa­sög­una Dauðinn einn var vitni sem Sög­ur út­gáfa gef­ur út.

Íslensku bók­mennta­verðlaun­un­um var komið á fót árið 1989 í til­efni af 100 ára af­mæli Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­enda (Fíbút). Fyrsta árið var verðlaun­un­um ekki skipt í flokka en til­nefnd­ar alls tíu bæk­ur. Árið eft­ir var til­hög­un verðlaun­anna breytt þannig að til­nefnd­ar bæk­ur skipt­ust í tvo flokka, fag­ur­bæk­ur ann­ars veg­ar og fræðibæk­ur og rit al­menns efn­is hins veg­ar. Þannig héld­ust verðlaun­in óbreytt til 2013 að við bæt­ist flokk­ur barna- og ung­menna­bóka. Árið 2020 var flokki fag­ur­bóka, eða fag­ur­bók­mennta eins og einnig var notað, breytt í flokk skáld­verka. Árið 2022 tók Fíbút að sér fram­kvæmd og fjár­mögn­un Íslensku glæpa­sagna­verðlaun­anna – Blóðdrop­ans og fer veit­ing þeirra og til­nefn­ing­ar fram sam­hliða Íslensku bók­mennta­verðlaun­un­um. Verðlaun­in nema einni millj­ón króna ­fyr­ir hvert verðlauna­verk­anna fjög­urra og eru kostuð af Fíbút.

Blængur nefnist verðlaunagripur Íslensku bókmenntaverðlaunanna úr bronsi sem Matthías Rúnar …

Blæng­ur nefn­ist verðlauna­grip­ur Íslensku bók­mennta­verðlaun­anna úr bronsi sem Matth­ías Rún­ar Sig­urðsson hannaði. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Nýr verðlauna­grip­ur, Blæng­ur, blás­vart­ur hrafn steypt­ur í kop­ar, eft­ir mynd­list­ar­mann­inn Matth­ías Rún­ar Sig­urðsson, var af­hent­ur verðlauna­höf­um Íslensku bók­mennta­verðlaun­anna í annað sinn í ár. Fjög­urra manna loka­dóm­nefnd valdi vinn­ings­verk­in úr hópi 20 bóka sem til­nefnd­ar voru til verðlaun­anna í des­em­ber á síðasta ári þegar fimm bæk­ur voru til­nefnd­ar í hverj­um flokki. Loka­dóm­nefnd skipuðu þau Björn Teits­son, Krist­ín Ásta Ólafs­dótt­ir, Unn­ar Geir Unn­ars­son, Viðar Eggerts­son ásamt Krist­ínu Ingu Viðars­dótt­ur, for­seta­skipuðum for­manni nefnd­ar­inn­ar.

Nám­inu lýk­ur aldrei

Hólm­fríður Matth­ías­dótt­ir út­gef­andi Krist­ín­ar Ómars­dótt­ur flutti ávarp fyr­ir henn­ar hönd á Bessa­stöðum í gær­kvöldi en Krist­ín var fjar­stödd vegna veik­inda. Í ávarpi sínu þakkaði Krist­ín les­ur­um bók­ar sinn­ar, sam­starfs­fólki, vin­um, systr­um og frænd­fólki. „Ég þakka líka fyrsta tungu­mála­kenn­ara lífs míns, fyrsta móður­máls­kenn­ar­an­um, mömmu minni Hrafn­hildi Odd­nýju. Það var ótrú­lega skemmti­legt að læra að tala hjá henni. Nám­inu lýk­ur aldrei. Ég legg við eyru, nem það mál sem hún ólst upp við, amma mín og langamma; tungu­mál kyn­slóðanna.“

Þá talaði hún um drauma í anda bók­ar­inn­ar Móðurást: Draumþing en beindi síðan sjón­um út fyr­ir land­stein­ana. „Þjóðarmorð er framið á Gaza. Til­skip­un ný­kjör­ins Banda­ríkja­for­seta um að kyn­in verði eft­ir­leiðis tvö skelf­ir mig. Um brott­flutn­inga inn­flytj­enda skelf­ur mig. Hvernig maður­inn tal­ar ein­sog fast­eigna­sali en ekki for­seti um Gaza-strönd. Í hug­ar­heimi hans njóta aðeins út­vald­ir mann­rétt­inda og frels­is,“ sagði hún og hvatti nýja rík­is­stjórn að standa með friði og gegn stríði.

Kristín Ómarsdóttir

Krist­ín Ómars­dótt­ir mbl.is/​Krist­ín Heiða

Í um­sögn loka­dóm­nefnd­ar um bók Krist­ín­ar seg­ir: „Móðurást: Draumþing, skálduð ævi­saga lang­ömmu Krist­ín­ar, er fal­lega stíluð saga liðinna kyn­slóða á of­an­verðri nítj­ándu öld. Fram­setn­ing­in er brota­kennd og ljóðræn og sýn­ir ný­stár­lega nálg­un við rit­un sögu­legr­ar skáld­sögu. Höf­undi tekst listi­lega að skapa sögu­svið sem er í senn fram­andi og kunn­ug­legt, ein­angrað og opið og veita inn­sýn í brot­hætt sál­ar­líf ung­lings­stúlku sem stend­ur á þrösk­uldi full­orðins­ára og nýrra kennda, bund­in af öll­um þeim vænt­ing­um og tak­mörk­un­um sem sam­fé­lag henn­ar býr henni. Jóns­messu­nótt­in, sem ramm­ar frá­sögn­ina inn, legg­ur yfir hana blæ töfra og ann­ar­leika sem sam­ræm­ist einkar vel hálf­sögðum sög­um og því sem ligg­ur á milli lína.“

Í sam­tali við Morg­un­blaðið seg­ir Krist­ín verðlaun­in hafa komið á óvart en að hún hafi þó haft trú á verk­inu. Spurð hvort hún sé ánægð fyr­ir hönd sögu­per­sónu sinn­ar Odd­nýj­ar seg­ir hún að það sé ekki spurn­ing. Þá nefn­ir hún að verðlaun sem þessi hafi áhrif í bók­mennta­brans­an­um og geti þess vegna komið sér vel. „Verðlauna­féð ætla ég að nota til að koma mér með fyrstu skip­um til Par­ís­ar og skrifa og kaupa mér gler­augu,“ seg­ir hún.

Var þetta í fimmta sinn sem Krist­ín er til­nefnd til Íslensku bók­mennta­verðlaun­anna en í fyrsta sinn sem hún hlýt­ur þau. Hún seg­ist ekki geta svarað því hvort þetta sé besta bók­in henn­ar til þessa. „Öll verk­in mín hafa sína eig­in sögu. Eng­in bók fer eins út í heim­inn. Og ég er auðvitað mjög ánægð með viðbrögð les­enda.“

Per­sónu­leg­asta bók­in

„Ég er inni­lega hrærð og þakk­lát og smá ringluð yfir því að hljóta þenn­an hrafn, fyr­ir ein­mitt þessa bók. Þessi saga stend­ur mér mjög nærri. Ég er him­in­lif­andi yfir því að standa hér og fá tæki­færi til að þakka fyr­ir mig,“ sagði Rán þegar hún veitti verðlaun­un­um viðtöku. Í fram­hald­inu til­einkaði hún vin­um verðlaun­in. „Af því að án vina er ekki neitt, án vina væri eng­in bók í heim­in­um til, alla­vega alls eng­ar góðar bæk­ur.“

Rán Flygenring

Rán Flygenring mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Í um­sögn loka­dóm­nefnd­ar um bók Rán­ar seg­ir: „Tjörn­in er marglaga saga um undra­ver­öld mitt í hvers­degi barna sem finna uppþornaða tjörn í garðinum sín­um, sem síðan fyll­ist lífi. Bók­in hent­ar börn­um á öll­um aldri jafnt sem full­orðnum og er enda­laus upp­spretta sam­tala og nýrra upp­götv­ana, al­veg eins og sjálf tjörn­in. Komið er inn á marg­vís­leg viðfangs­efni, svo sem vináttu, eign­ar­rétt, stjórn, sam­vinnu og jafn­vel auðlinda­nýt­ingu, en allt und­ir for­merkj­um æv­in­týr­is­ins og leiks­ins. Ímynd­un­ar­aflið ræður för í fjör­leg­um mynd­um og vinna þær og text­inn vel sam­an auk þess sem ein­stak­ur mynd­heim­ur Rán­ar bæt­ir miklu við texta sög­unn­ar. Tjörn­in er fal­legt og skemmti­legt verk sem les­and­inn get­ur sökkt sér í og sag­an dýpk­ar með hverj­um lestri.“ Í sam­tali við Morg­un­blaðið seg­ir Rán viður­kenn­ing­una hafa komið sér á óvart. „Tjörn­in er á viss­an hátt ein per­sónu­leg­asta bók­in mín og því þykir mér sér­stak­lega vænt um að hún hljóti þessa viður­kenn­ingu,“ seg­ir Rán og tek­ur fram að hún hafi ekki gert sér nein­ar vænt­ing­ar um að les­end­ur myndu heill­ast, eins og raun­in varð, af sögu um tjörn í garði. Eins og áður hef­ur komið fram á menn­ing­arsíðum Morg­un­blaðsins seld­ist Tjörn­in upp löngu fyr­ir jól og keyptu fjöl­marg­ir áritað gjafa­bréf fyr­ir bók­inni þegar hún kæmi úr end­ur­prent­un.

Þegar Rán er spurð hvaða þýðingu verðlaun­in hafi fyr­ir sig svar­ar hún: „Þetta er hvatn­ing til þess að halda áfram að gera það sem ég er að gera. Það sem mér þykir einna vænst um er að fá svona djúp­an lest­ur á verk­in mín og mér finnst dýr­mætt að finna að bæk­ur mín­ar nái til les­enda á öll­um aldri,“ seg­ir Rán. 

Spurð hvort hún telji að verðlaun­in geti hjálpað Tjörn­inni á er­lendri grundu svar­ar Rán því líka ját­andi. ­„Íslensku bók­mennta­verðlaun­in eru jú mik­ill gæðastimp­ill, og það hjálp­ar auðvitað,“ seg­ir Rán og tek­ur fram að nú þegar sé búið að semja um út­gáfu Tjarn­ar­inn­ar í bæði Eistlandi og Þýskalandi. 

Vand­ar ávallt til verka

„Börn eru jafn ólík og full­orðið fólk, hvert með sinn per­sónu­leika og sína sögu. Eitt er þó víst að öll börn eiga það sam­eig­in­legt að vilja lyfta sér á kreik hvort sem þeim tekst það eða ekki. Um það fjall­ar bók­in,“ sagði Guðjón þegar hann veitti verðlaun­un­um viðtöku. Hann vakti líka máls á því að börn voru lengi vel svo að segja rétt­laus í laga­leg­um skiln­ingi en unnið hafi verið að því á síðustu ára­tug­um að auka rétt­indi þeirra. „Og þá ­verður manni hugsað til barna úti í ver­öld­inni þessa daga sem lifa við hung­ur, þau jafn­vel drep­in unn­vörp­um í hræðileg­um stríðum eða þeim rænt. Þessi börn fá ekki tæki­færi til að lyfta sér á kreik eins og flest ís­lensk börn. Við meg­um ekki loka aug­un­um fyr­ir því,“ sagði hann.

Guðjón Friðriksson

Guðjón Friðriks­son mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Í um­sögn loka­dóm­nefnd­ar um bók Guðjóns seg­ir: „Börn í Reykja­vík er yf­ir­grips­mikið og fróðlegt verk um sögu barna í höfuðborg­inni allt frá þétt­býl­is­mynd­un til dags­ins í dag. Stíll­inn er leik­andi létt­ur og skrifað er af nær­færni og næmni um mál­efni barna og fjöl­skyldna, aðbúnað þeirra og um­hverfi og text­inn dýpkaður með per­sónu­leg­um sög­um. Höf­und­ur dreg­ur einnig fram dag­legt líf barna á tíma­bil­inu – leik­ina, skemmt­an­irn­ar, skóla­mál og skyld­urn­ar – og teng­ir þetta við þróun og breyt­ing­ar í borg­ar­sam­fé­lag­inu sem var að mót­ast. Sá fjöldi mynda sem prýðir bók­ina eyk­ur heim­ild­ar­gildi henn­ar til muna og með þeim og lif­andi frá­sagn­ar­stíln­um tekst Guðjóni að vekja sög­una til lífs og draga upp skýra mynd af þróun sam­fé­lags­ins og áhrif­um henn­ar á börn­in. Börn í Reykja­vík er tíma­móta­verk sem er lík­legt til að ná til breiðs les­enda­hóps og auka skiln­ing á stöðu og veru­leika barna í nútíð og þátíð.“

Í sam­tali við Morg­un­blaðið seg­ir Guðjón: „Ég er af­skap­lega þakk­lát­ur fyr­ir að fá þessi verðlaun og finnst það mik­ill heiður. Ég var bú­inn að fá góðar viðtök­ur svo ég gerði ráð fyr­ir að þetta gæti al­veg eins gerst.“

Guðjón hef­ur hlotið Íslensku bók­mennta­verðlaun­in þris­var áður, fyr­ir Bær­inn vakn­ar 1870-1940 árið 1991, fyr­ir Ein­ar Bene­dikts­son árið 1997 og fyr­ir Jón Sig­urðsson, ævi­saga II árið 2003, og hef­ur þar með hlotið verðlaun­in oft­ast allra. „Mér finnst það merki­legt og er fyrst og fremst ánægður með það, ég get ekki verið annað,“ seg­ir Guðjón.

Alltaf gott að fá klapp á bakið

„Ég tek við þess­um verðlaun­um fyr­ir hönd Harðar Gríms­son­ar lög­reglu­manns. Hann á þau al­veg skuld­laust. Ég er bú­inn að skrifa og gefa út bæk­ur í tæp 30 ár. Titl­arn­ir eru fleiri en 30 tals­ins, bæk­ur fyr­ir full­orðna, börn og ung­linga. Saga okk­ar Harðar spann­ar 16 ár af ­þess­um 30, og eru bæk­urn­ar um hann orðnar 12. Staðan í dag er þannig að Hörður Gríms­son er bæði fræg­ari og vin­sælli en höf­und­ur bók­anna um hann. Sem er bara hið besta mál en Hörður mætti al­veg taka að sér kynn­ing­ar og upp­lestra og fara í viðtöl og þannig – og jafn­vel taka við verðlaun­um eins og þess­um. En hann er stikk­frír og al­veg sátt­ur við það hlut­skipti, blessaður. Hann hef­ur þó sagst ætla að hugsa um mig í ell­inni,“ sagði Stefán Máni þegar hann veitti verðlaun­un­um viðtöku.

Stefán Máni með Herði Grímssyni

Stefán Máni með Herði Gríms­syni mbl.is/​Karítas

Í um­sögn loka­dóm­nefnd­ar um bók Stef­áns Mána seg­ir: „Hér er á ferðinni há­spennuæv­in­týri þar sem lög­regl­an tekst á við yf­ir­vof­andi ógn sem steðjar að lífi íbúa Reykja­vík­ur í kappi við tím­ann. At­b­urðarás­in er hröð og spenn­andi og nær niðurtaln­ing­in sem sag­an hverf­ist um sterk­um tök­um á les­and­an­um. Um leið held­ur höf­und­ur áfram að þróa lit­ríka per­sónu og innri tog­streitu hins breyska lög­reglu­manns Harðar Gríms­son­ar á sann­fær­andi hátt. Per­sónu­lýs­ing­ar eru lif­andi og marg­hliða og and­rúms­loft ótta og hryll­ings hratt og ör­ugg­lega byggt upp, en um leið er gætt að húm­or og fínni blæ­brigðum mann­lífs­ins. Text­inn er mynd­rík­ur og sögu­sviðið og at­b­urðarás­in teikn­ast ljós­lif­andi upp í huga les­anda.“

Aðspurður hvort viður­kenn­ing­in hafi komið sér á óvart svar­ar Stefán Máni bæði og. „Ef ég á að vera al­veg heiðarleg­ur þá finnst mér að bók­in eigi þetta al­veg skilið og ekki síður Hörður, því hann er rosa­lega vin­sæll. En ég hef samt aldrei gert ráð fyr­ir neinu í þau skipti sem ég hef verið til­nefnd­ur.“ Þetta er í fjórða sinn sem Stefán Máni hlýt­ur Blóðdrop­ann, en hann hlaut hann fyr­ir Skipið 2007, því næst fyr­ir Húsið 2013, fyr­ir Grimmd 2014 og nú í ár fyr­ir Dauðinn einn var vitni. Fyr­ir utan Skipið fjalla all­ar verðlauna­bæk­ur hans um rann­sókn­ar­lög­reglu­mann­inn Hörð Gríms­son.

„Það er afar ánægju­legt að fá aft­ur verðlaun fyr­ir bók um Hörð eft­ir tíu ára eyðimerk­ur­göngu,“ seg­ir Stefán Máni kím­inn. „En að öllu gamni slepptu þá má auðvitað velta því fyr­ir sér hvers vegna glæpa­sög­ur séu sér verðlauna­flokk­ur, en ekki bara hluti af flokki skáld­verka. Því með þessu móti er í raun verið að segja að glæpa­saga geti aldrei verið áhuga­verðasta eða besta skáld­verk árs­ins. Ég myndi vilja sjá glæpa­sögu vinna Íslensku bók­mennta­verðlaun­in sem skáld­verk árs­ins. Enda er góð glæpa­saga bara góð bók og góðar bók­mennt­ir.“

Spurður hvaða þýðingu viður­kenn­ing­in hafi fyr­ir hann seg­ir Stefán Máni alltaf gott að fá klapp á bakið. „Innifalið í þess­ari viður­kenn­ingu er að bók­in verður fram­lag Íslands til Gler­lyk­ils­ins, sem eru samn­or­ræn glæpa­sagna­verðlaun,“ seg­ir Stefán Máni og tek­ur fram að hann geri sér von­ir um að samn­ing­ar ná­ist við út­gef­anda í Dan­mörku, Nor­egi eða Svíþjóð um út­gáfu nýj­ustu bók­ar­inn­ar á ein­hverju skandi­nav­íu­tungu­mál­anna. „Því að öðrum kosti er í reynd ekki hægt að leggja bók­ina fram, enda kost­ar a.m.k. um hálfa aðra millj­ón að láta þýða hana, og það fæst ekki styrk­ur til þeirr­ar vinnu og ég vil ekki þurfa að borga með mér,“ seg­ir Stefán Máni og rifjar upp að í þau fyrri skipti sem bæk­ur hans hafa verið vald­ar sem fram­lag Íslands til Gler­lyk­ils­ins hafi í reynd ekki verið hægt að leggja bæk­urn­ar fram sök­um hás þýðing­ar­kostnaðar. „Ég geri mér hins veg­ar von­ir um að það verði hægt í ár.“