Greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis

Góðir gestir,

Ég heiti Sigurður Snorrason og tala hér fyir munn valnefndar Hagþenkis, en í henni sitja auk mín Ársæll Már Arnarson, Halldóra Jónsdóttir, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir og Unnur Þóra Jökulsdóttir. Að þessu sinni fék valnefndin 70 bækur til skoðunar. Við héldum alls 13 fundi þar sem hverju sinnni var fjallað um nokkrar bækur. Tíu bækur vor síðan tilnefndar sem mögulegir verðlaunahafar og kynntar af höfundum hinn 24. febrúar s.l. Úr þessum stafla valdi ráðið eina bók.

Verðlaun Hagþenkis fyrir árið 2023 hlýtur Ólafur Gestur Arnalds, prófessor emeritus við Landbúnaðarháskóla Íslands, fyrir rit sitt Mold ert þú – jarðvegur og íslensk náttúra.

Þó svo skilja megi heiti bókarinnar, Mold ert þú, sem orðaleik og skírskotun til orða sem höfð eru yfir kistu látinna í jarðarförum, má telja víst að Ólafur hafi hér hugsað sér víðari merkingu, merkingu sem felur í sér að moldin er undirstaða lífs okkar. Það er einmitt þessi grundvallar staðreynd sem segja má að hafi einkennt störf Ólafs í gegnum árin.  Auk fræðistarfa og kennslu hefur hann verið óþreytandi við að benda á mikilvægi þess að við hugum að þýðingu moldarinnar í allri okkar umgengni um landið og náttúruna. Í þessu sambandi má t.d. benda á ritið, Að lesa og lækna landið – bók um ástand lands og vistheimt, sem Ólafur gaf út ásamt konu sinn Ásu L. Aradóttur vistfræðingi. Þá má minna á að Ólafur hlaut norrænu umhverfisverðlaunin árið 1998 fyrir verkefnið Jarðvegsvernd.

Mold ert þú er sannkallað stórvirki á sviði íslenskrar náttúru- og umhverfisfræði. Bókin nýtist vel sem  kennslubók í jarðvegsfræði og aðgengilegt ítarefni fyrir almenning.  Miklivægi hennar er þó ekki síður fólgið í greinargóðri umfjöllun um mold sem dýrmæta en viðkvæma undirstöðu vistkerfa á landi sem allt mannkyn byggir afkomu sína á. Í bókinni er því lýst hvernig ósjálfbær nýting  ógnar helstu landvistkerfum jarðar. Þarna er einnig að finna greiningar á þeim ferlum sem valda hnignun lands og vistkerfa og sagt frá leiðum til að sporna við þessari þróun.

Mold ert þú skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hlutinn tekur til helstu þátta almennrar jarðvegsfræði. Þetta efni mun nýtast vel fyrir nemendur á náttúru- og umhverfisfræðum í framhaldsskólum og háskólum landsins. Annar hlutinn er helgaður hinum sérstæða íslenska jarðvegi sem einkennist að stórum hluta af svokallaðri eldfjallajörð. Auk þess að lýsa samsetningu og efnafræði íslensku moldarinnar er þarna að finna texta um hlutverk hennar við að miðla nauðsynlegum næringarefnum til  lífvera. Í þriðja hluta er fjallað um ýmsa ytri þætti sem móta  jarðveg og gróðurlendi. Þarna er m.a. fjallað um áhrif frosts, rofs af völdum vatns og vinda og áfok sands og ryks, svo og hvernig landnýting tengist þessum þáttum. Í síðustu fimm köflunum er fjallað um hnignun og hrun vistkerfa á landi, bæði á heimsvísu og á Íslandi. Helstu ferlum hnignunar og margvíslegum aðferðum til að meta ástand lands er lýst . Þá rekur Ólafur, og það tæpitungulaust,  hvernig ýmsir þættir í skipulagi, stjórnsýslu og lögum þjóða eiga þátt í hnignun landgæða og koma í veg fyrir að brugðist sé við með skilvirkum hætti.  Heill kafli er helgaður umfjöllun um tengsl moldar og landnýtingar við hringrás kolefnis og hlýnun jarðar. Að síðustu er skyggnst til framtíðar og hugað að varðveislu moldar og landgæða og endurheimt vistkerfa á landi.  

 Í bókinni er fjöldi ljósmynda og mikið magn tölulegra upplýsinga í töflum og línuritum. Þar er einnig fjöldi skýringarmynda sem Fífa Jónsdóttir teknaði en að auki annaðist hún umbrot bókarinnar. Ólafur leggur mikla áherslu á að kynna fræðirit og greinar þar sem finna má ítarlegri umfjöllun um tiltekin efni og birtir tilvitnanaskrá aftan við hvern kafla. Þá ber að geta þess að líkt og gerist nú til dags með kennslubækur í vísindum verður bókin aðgengileg á heimasíðu.