Góðir gestir,
Fyrir hönd viðurkenningarráðs Hagþenkis vil ég segja nokkur orð. Auk mín, sem heiti Halldóra Jónsdóttir, sátu í nefndinni þau Kristján Leósson, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, Unnur Þóra Jökulsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Að venju bárust fleiri tugir bóka til skoðunar og við sátum á fjölmörgum fundum þar sem teknar voru fyrir nokkrar bækur í senn. Í upphafi ársins 2025 var svo komið að því að velja þær tíu bækur sem tilnefndar yrðu sem mögulegir verðlaunahafar. Allar bækurnar tíu eru framúrskarandi, hver á sinn hátt, en eftir miklar og frjóar umræður komumst við að sameiginlegri niðurstöðu.
Viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2024 hlýtur Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fyrir bók sína Strá fyrir straumi – ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871.
Strá fyrir straumi er viðamikið verk um heila ævi konu, að stórum hluta með orðum hennar sjálfrar, í krafti þeirra fjölmörgu bréfa sem hún skrifar til Páls bróður síns á yfir 50 ára tímabili. Slíkar heimildir um líf kvenna er ekki víða að finna þegar um 19. öldina er að ræða enda var staður kvenna fjarri hringiðu heimsins, völdum og áhrifum. Bréf annarra ættmenna til Páls hafa varðveist og nýtir höfundur þau gögn einnig. Höfundur rekur æviferil Sigríðar en veitir jafnframt áhugaverða innsýn í íslenskt samfélag og hversdagslíf fólks á nítjándu öld.
Bókin skiptist í sjö kafla sem bera titil eftir þemanu en eru einnig kenndir við bæina sem Sigríður býr á á hverjum tíma. Við fylgjum henni frá æskuslóðunum austur á landi sem hún yfirgefur tvítug, dveljum með henni í biskupstofunni í Laugarnesi þar sem hún kemst í kynni við stærri heim þótt hún sé þar bara þjónustustúlka. Þar fáum við að fylgjast með örlaganornunum spinna sinn vef hjá íslenskri hástétt, þar sem ungur menntamaður hryggbrýtur biskupsdóttur og leggur ást á söguhetjuna. Hamingja í Reykholti er heitið á kaflanum um líf presthjónanna ungu sem endar sviplega með veikindum og fráfalli eiginmannsins og ekkjan verður Bóndinn og húsfreyjan í Síðumúla. Síðustu kaflarnir fjalla um líf Sigríðar á Suðurlandi, þar sem hún verður prestsfrú í Flóanum og við kveðjum hana austur í Fljótshlíð.
Með vandaðri úrvinnslu á fyrirliggjandi heimildum og yfirgripsmikilli þekkingu á aðstæðum á Íslandi þess tíma hefur höfundur skapað heildstætt og áhugavert ritverk sem varpar nýju ljósi á 19. öldina og veitir einstaka innsýn í kjör kvenna.
Fyrir hönd viðurkenningarráðs Hagþenkis vil ég óska Erlu Huldu til hamingju með viðurkenninguna.