Greinargerð Viðurkenningarráðsins flutt af Kristínu Svövu Tómasdóttur.
Kæru gestir
Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, veitir nú í 29. sinn viðurkenningu fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“. Fyrir hönd viðurkenningarráðsins 2015 hefur mér verið falið að uppljóstra um það hvaða verk hlýtur viðurkenninguna að þessu sinni og segja nokkur orð um starf og val ráðsins og verðlaunabókina.
Með mér í viðurkenningarráðinu sátu þau Baldur Sigurðsson málfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur, Þorbjörn Broddason félagsfræðingur og Þórunn Blöndal íslenskufræðingur, en Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis sá til þess að allt færi rétt fram. Ráðið hittist vikulega frá því í október og fram á nýja árið og skoðaði og ræddi fjölda bóka. Eftir áramót var valið þrengt niður í tíu bækur sem hlutu tilnefningu til viðurkenningar Hagþenkis og voru tilnefningarnar tilkynntar í byrjun febrúar, en rökstuðninginn fyrir vali hverrar bókar má finna á heimasíðu Hagþenkis.
Eftirfarandi tíu bækur voru tilnefndar:
Landnám og landnámsfólk. Saga af bæ og blóti eftir Bjarna F. Einarsson.
Íslenskir sláttuhættir eftir Bjarna Guðmundsson.
Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason.
Passíusálmarnir eftir Hallgrím Pétursson, en umsjónarmaður útgáfunnar var Mörður Árnason.
Lífsþróttur, næringarfræði fróðleiksfúsra eftir Ólaf Gunnar Sæmundsson.
Stríðsárin 1938–1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson.
Rof. Frásagnir kvenna af fóstureyðingum í ritstjórn Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunnar Rögnvaldsdóttur.
Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 eftir Smára Geirsson.
Ég skapa — þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar eftir Soffíu Auði Birgisdóttur.
Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur.
Þegar tilnefningarnar höfðu verið gerðar heyrinkunnar var kominn tími til þess að velja verðlaunabókina. Valið var erfitt, bæði vegna þess hve mörg vönduð og merkileg rit voru í pottinum og eins vegna þess hve ólík þau voru. Að endingu varð þó fyrir valinu verk sem ráðið var sammála um að væri verðugur handhafi viðurkenningar Hagþenkis 2015 – en það er bókin Stríðsárin 1938-1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson, sem fjallar um ár síðari heimsstyrjaldarinnar á Íslandi.
Styrjaldarárin hafa orðið mörgum rannsóknarefni; áður hafa fræðimenn á borð við Þór Whitehead, Herdísi Helgadóttur, Friðþór Eydal og fleiri gert þeim skil í frábærum bókum. Það er heldur ekki undarlegt að þetta tímabil skuli draga svo mjög að sér athygli manna. Það er vart hægt að ofmeta mikilvægi síðari heimsstyrjaldarinnar í íslenskri sögu. Í viðskipta- og hagsögu, stjórnmálasögu, félagssögu, kvenna- og kynjasögu, menningarsögu, byggðasögu – frá öllum þessum sjónarhornum og fleirum til var síðari heimsstyrjöldin boðberi mikilla breytinga. Hún hefur verið talin marka innreið neyslusamfélagsins á Íslandi, borgarsamfélagsins, nútímasamfélagsins.
Og það er frá öllum þessum sjónarhornum – og fleirum til – sem styrjaldarárin eru skoðuð í þessari stóru bók, sem dregur upp breiða og fjölbreytta mynd af þessum umbrotatíma í íslensku þjóðfélagi. Í örstuttum eftirmála líkir höfundur aðferð sinni við myndvef; myndbrotum og sögubrotum er raðað saman í margslungna heildarmynd. Auk þess að gera grein fyrir hinum stærri dráttum í framvindu styrjaldarinnar, hernaði og stjórnmálum, dregur höfundurinn fram með aðstoð samtímaheimilda og síðari tíma endurminninga vitnisburð þeirra sem lifðu þessa tíma, raddir kvenna og karla, frá Íslandi og utan að, af jaðrinum og úr hringiðu atburðanna. Með því verður heildarmyndin ekki aðeins margbreytileg heldur einnig áhrifarík og persónuleg.
Bókin er skrifuð af sannfæringu fyrir því að þekking á fortíðinni skipti máli fyrir samtímann. Höfundur hlífir ekki lesendum sínum við ljótari og óþægilegri hliðunum á framferði Íslendinga í stríðinu. Aftur og aftur erum við minnt á það sem við viljum stundum helst gleyma, að hugmyndafræði nasisma, fasisma, útlendingahaturs og kynþáttahyggju hafði áhrif á hugarfar og gjörðir Íslendinga ekki síður en annarra og birtist jafnt í opinberri umræðu sem og aðgerðum stjórnvalda, þar á meðal í þeirri stefnu að vísa landflótta gyðingum og öðrum flóttamönnum úr landi, oftar en ekki út í opinn dauðann. Höfundur leggur sig fram um að greina frá sögum þeirra flóttamanna sem sóttu um hæli hér á landi á stríðsárunum, bæði þeim sem fengu að setjast að en einnig þeim sem voru sendir í burtu og afdrifum þeirra. Það er oftar en ekki óhugnanlegur lestur, ekki aðeins vegna þess að við vitum hvað beið þeirra sem urðu að hverfa aftur til yfirráðasvæða nasista í Evrópu heldur einnig vegna þess hve þessi orð eru kunnugleg í dag: „Umsókn um hæli hafnað“.
Einn helsti styrkur bókarinnar liggur í markvissu samspili hins stóra og smáa, erlenda og innlenda, einstaklinga og samfélaga, atburðarásar og tíðaranda. Ljósmyndirnar fá að njóta sín til fulls í öllum sínum blæbrigðum við hlið textans og segja sínar sjálfstæðu sögur. Þetta er enginn stefnulaus samtíningur; bak við myndina sem hér er púslað saman er styrk stjórn og skýr höfundarsýn.
Fyrir hönd viðurkenningaráðs Hagþenkis óska ég Páli hjartanlega til hamingju með bókina og með verðlaunin.