Greinargerð viðurkenningarráðs v. veitingar viðurkenningar Hagþenkis 2010

Þórður Helgason, Hrefna Róbertsdóttir, Kristín Unnsteinsdóttir, Geir Svansson og Jóhann Óli

""Ágætu gestir

Ég hygg að við getum öll orðið sammála um að þessi stund okkar er hátíðastund. Komið er að lokum á löngu ferli mikillar en afar ánægjulegrar vinnu og vangaveltna þar sem fjöldi rita hefur verið veginn og metinn. Nú er komið að því að veita viðurkenningu Hagþenkis fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“ fyrir árið 2010. Viðurkenning þessi hefur unnið sér sess sem ein virtasta viðurkenning sem höfundum býðst. Veðlaunaféð er nú kr. 1.000.000

Viðurkenningarráð er skipað fimm félagsmönnum Hagþenkis af ólíkum fræðasviðum og í síðasta mánuði voru tíu verk tilnefnd til viðurkenningarinnar. Þau eru:

 

 

 

Grunað vængjatak – Um skáldskap Stefáns Harðar Grímssonar eftir Eystein Þorvaldsson

Gunnar Thoroddsen – Ævisaga eftir Guðna Th. Jóhannesson

Þjóðgildin eftir Gunnar Hersvein

Sveppabókin – Íslenskir sveppir og sveppafræði eftir Helga Hallgrímsson

Hrossafræði Ingimars eftir Ingimar Sveinson

Konan sem fékk spjót í höfuðið – Flækjur og furðuheimar vettvangsrannsókna eftir Kristínu Loftsdóttur

Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar eftir Sigrúnu Pálsdóttur

Allir í leik. Söngvaleikir barna I og II eftir Unu Margréti Jóndóttur

Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna á Íslandi 1900-2008 eftir Unni Birnu Karlsdóttur

Birgir Andrésson – Í íslenskum litum eftir Þröst Helgason

 

Einn þessara tíu höfunda hefur nú verið valinn til að hljóta viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2010. Það er Una Margrét Jónsdóttir fyrir verkið Allir í leik, Söngvaleikir barna, fyrsta og annað bindi.

 

Um verk Unu Margrétar segir í tilnefningunni: „Menningarsögulegt stórvirki um söngvaleiki barna á 20. öld í tali, tónum og látbragði með samanburði við eldri hefðir á Íslandi og leiki í nágrannalöndum.“

Í verki sínu fjallar Una Margrét um íslenska leikjasöngva fyrr og nú, þá leiki barna sem söngvar fylgdu. Verk Unu Margrétar er árangur ellefu ára rannsókna, vettvangsrannsókna, ýmissa kannana, hjóðritana auk viðtala við mikinn fjölda manna, ungra sem aldinna, auk þess sem hún hefur sótt mikinn fróðleik í ritaðar heimildir. Una Margrét fékk einnig tækifæri til að fara í rannsóknarferðir til Færeyja, Grænlands og Bandaríkjanna til að renna enn sterkari stoðum undir rannsóknir sínar.

Verk Unu Margrétar er ekki einungis mikið eljuverk; verk hennar skiptir verulegu máli fyrir okkur og þá sem á eftir okkur koma. Það er því laukrétt sem viðurkenningarráð sagði um verk hennar. Það er menningarsögulegt stórvirki sem án nokkurs efa hefur bjargað miklum verðmætum frá því að enda í þeirri glatkistu þar sem íslensk menningarverðmæti lenda of oft. Segja má sem svo að í verki Unu Margrétar sé heil bókmennta- og tónlistargrein varðveitt. Það er í raun ómetanlegt framlag til íslenskrar barnamenningar.

Því er ekki að neita að mjög margt kemur manni á óvart í Leikjasöngvunum. Þar opinberast til dæmis hversu mikill sköpunarkraftur býr að baki þessum leikjum og söngvum. Margir þeirra breytast í sífellu með nýjum tímum og nýjum áhugamálum. Gamli Nói er frábært dæmi þessa. Hinn ölkæri, guðhræddi, vitri og velmetni Nói fór síðan að keyra kassabíl eins og flestir vita en þar með er ekki sögunni lokið; brunabíll kemur síðan og innan stundar er Nói farinn að poppa, kaupa kók, gefa nammi, róla sér, byggja hús, kyssa konur, vökva blóm, keyra Ferrari sem hann kann ekki að bremsa svo að hann ekur yfir gemsa – og svo má lengi telja afreksverk Nóa. Að baki þessara breytinga býr löngun til að leika sér að tungumálinu, átta sig á hrynjandi og finna skemmtilegt rím. Börnin eru að verða skáld.

Þessum þætti barnamenningarinnar hefur ekki verið sýndur nægur skilningur að mínu mati. Textarnir eru náttúrlega ekki háfleygir að jafnaði en eru samt nauðsynlegur áfangi barnsins í langri ferð þess um tungumálið.

Verk Unu Margrétar er stórvirki í menningasögulegu tilliti en einnig afar skemmtilegt og kemur hvað eftir annað á óvart. Bókmenntagrein, sem farið hefur furðu leynt, er nú öllum aðgengileg.

Ég lýk þessari umfjöllun minni á hestinum rauða sem dó og skáldinu þótti verst. Hesturinn mætti alls kyns örlögum undir mörgum litum. Hér farið að þrengja að litum og er hann því röndóttur:

Einu sinni átti ég hest
allan settan röndum.
Það var sem mér þótti verst
þegar hann stóð á höndum.

Ég óska Unu Margréti innilega til hamingju með viðurkenningun fyrir þetta frábæra verk.

Þórður Helgason
Formaðurviðurkenningarráðs Hagþenkis 201