Greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis 2011, flutt af Unni Birnu Karlsdóttur

""

Í viðurkenningarráði Hagþenkis 2011 eru: Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur, Fanney Þórsdóttir lektor í sálfræði, Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur, Þorsteinn Helgason sagnfræðingur og Þórður Helgason bókmenntafræðingur. Verkefnastýra ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir.
Greinargerð ráðsins, ávarp var flutt af Unni Birnu Karlsdóttur
 

 

Ágætu gestir

Við erum hér samankomin af ánægjulegu tilefni. Komið er að leiðarlokum í miklu en ánægjulegu starfi viðurkenningarráðs Hagþenkis þar sem fjöldi rita var veginn og metinn, en viðurkenningarráð er skipað fimm félagsmönnum Hagþenkis af ýmsum fræðasviðum. Nú er komið að því að veita viðurkenningu Hagþenkis fyrir „fræðirit, kennslugögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“ fyrir árið 2011. Verðlaunaféð er kr. 1.000.000.

Ég veit ég get óhikað mælt fyrir munn okkar allra í viðurkenningaráði þegar ég segi að það var afar ánægjulegt að takast á við það vandasama verkefni að fjalla um þá fjölbreyttu flóru sem út kom á sviði fræðiverka og fróðlegra rita almenns eðlis á árinu 2011. Metnaður og eldmóður íslenskra fræðimanna sökk ekki ofan í jörðina í hrunadansinum 2008 eins og átti við um svo margt annað. Þvert á móti; meðal íslenskra fræðimanna ríkir enn sem fyrr sköpunarþrá og frásagnargleði. Er vonandi að Íslendingar beri gæfu til þess að hér verði enn frekar stuðlað að rannsóknum og þær efldar þegar þjóðin réttir úr veikum efnahagskútnum og helst fyrr. Enda til hvers t.d. að óskapast yfir því að ungmenni lesi ekki lengur ef við ætlum ekki að hafa neitt í boði handa þeim að lesa þegar þau vaxa úr grasi?

Frá árinu 2006 hefur viðurkenningarráð tilnefnt 10 höfunda til viðurkenningar Hagþenkis ár hvert. Í lok janúar s.l. voru tíu verk tilnefnd til viðurkenningarinnar. Þau eru:

Mannvist. Sýnisbók íslenskra fornleifa. Aðalhöfundur og ritstjóri er Birna Lárusdóttir.

Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur

Íslenskur fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Landnám. Ævisaga Gunnars Gunnarssonar eftir Jón Yngva Jóhannsson

Íslensk listasaga I-V frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Ritstjóri er Ólafur Kvaran

Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar eftir Pál Björnsson.

Trúmaður á tímamótum. Ævisaga Haralds Níelssonar eftir Pétur Pétursson.

Ríkisfang: Ekkert. Flóttinn frá Írak á Akranes eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur.

Lestrarlandið. Ritstjóri er Sylvía Guðmundsdóttir.

Sæborgin. Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika eftir Úlfhildi Dagsdóttur.

 

Einn þessara tíu höfunda hefur verið valinn til að hljóta viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2011. Það er Sigríður Víðis Jónsdóttir fyrir verkið Ríkisfang: Ekkert. Flóttinn frá Írak á Akranes. Útgefandi er Mál og menning.

Um verk Sigríðar Víðis Jónsdóttur segir í tilnefningunni: „Metnaðarfullt verk sem samþættir með upplýsandi og áhrifamiklum hætti lífshlaup einstaklinga og sögulega atburði sem þeir hafa litla sem enga stjórn á.“

Sigríður byggir bók sína á viðtölum við palestínsku flóttakonurnar 8 sem komu til Akraness haustið 2008, ásamt ungum börnum. Viðtölin voru tekin á árs tímabili, 2009 til 2010. Vorið 2009 fór höfundur til Íraks vegna bókarinnar og heimsótti Al Waleed-flóttamannabúðirnar þar sem flóttakonurnar höfðust við áður en þær komu til Íslands. Einnig lá leið Sigríðar til Damaskus til að kynna sér aðstæður palestínska og íraskra flóttamanna í Sýrlandi, Jórdaníu og Líbanon, og ári seinna fór hún til Palestínu og Ísrael. Auk viðtala og vettvangsferða byggir bókin á fréttum, fréttatilkynningum, skýrslum, ræðum, fundargerðum og ýmsum skjölum, auk meistararitgerðar höfundar í þróunar- og átakafræðum um innrásina í Írak sem hófst snemma árs 2003.

Um er að ræða rannsókn þar sem sögusviðið er fjarri reynsluheimi og slóðum okkar Íslendinga, enda þótt það færi efnið óneitanlega nær okkur að þær konur sem segja sögu sína í bókinni eru nú búsettar hér á landi ásamt börnum sínum sem komu með þeim. Þær og börn þeirra eru nú þátttakendur í okkar íslenska samfélagi og hluti þess. Nú mundi kannski einhver segja að efni bókarinnar sé vissulega áhugavert og þörf áminning um óheyrilega erfiðar aðstæður flóttafólks um allan heim, en spyrja sig um leið hvort það varði eitthvað sögu Íslands eða okkur Íslendinga.

Svarið við slíkum vangaveltum er já; efnið varðar okkur Íslendinga, og sögu okkar, enda eins og margir muna, þá var kvittað í nafni íslensku þjóðarinnar undir það stríð sem palestínsku flóttakonurnar á Akranesi flúðu. Þar með er efni bókarinnar Ríkisfang: Ekkert orðið partur af Íslandssögunni. Hér er vísað til þess gjörnings sem gerður var árið 2003 þegar Íslendingar voru settir á lista hinna svonefndu staðföstu þjóða sem studdu árásina á Írak. Þetta olli þungri reiði meðal margra Íslendinga og þess var krafist að Ísland yrði tekið af þessum lista og nafn íslensku þjóðarinnar hreinsað af því að hafa stutt að farið væri með stríði gegn annarri þjóð.

Nú þykir eflaust einhverjum sem hér sé farið inn á pólitískar slóðir. En sú er ekki raunin. Þvert á móti. Hér er fjallað um heiminn og stöðu fræðimannsins í honum en verkefni fræðimanna felst einmitt í því að berjast við gleymskuna, horfa á heiminn gagnrýnum augum, halda sögu og atburðum til haga og að taka hinn flókna veruleika sem blasir við og koma honum með tiltölulega einföldum hætti á framfæri svo að hann verði okkur skiljanlegri. Með öðrum orðum: Fræðimaðurinn fæst við að hjálpa okkur að skilja heiminn og taka afstöðu til hans.

Og það er einmitt það sem Sigríður Víðis Jónsdóttir gerir. Hún tekur gríðarlega flókna sögu, fulla af pólitískum flækjum, blóðbaði og mannlegum harmleik, og setur hana fram af slíkri einlægni og ritfimi að skilningur okkar á efni sem hefur dunið í eyrum okkar í fréttatímum árum og áratugum saman eykst til muna. Margir munu eflaust líka geta glaðst með sjálfum sér eftir lestur bókarinnar að finna fyrir meðlíðan og virðingu fyrir þeim konum sem rekja örlög og sögu sína og fjölskyldna sinna í bókinni. En það er einmitt þetta atriði, samkennd með meðbræðrum okkar og systrum sem heldur heiminum saman og gerir hann mennskan. Ritið er þannig lóð á vogarskálar mennskunnar í heiminum. Ekki lítið markmið en í bókinni Ríkisfang: Ekkert hvikar höfundur sér hvergi undan að takast á við það.

Hér eru veitt verðlaun í flokki fræðirita og rita almenns eðlis. Það verk sem hér um ræðir liggur vel á þessum mörkum. Því fræðiverk er bókin þótt sett sé í mjög aðgengilegan og læsilegan búning. Aðferðafræðin og sú færni sem höfundur beitir byggir á akademískri menntun og þjálfun höfundar við að nota og flétta saman ólíkar aðferðir og heimildir og búa til úr því heildstætt upplýsandi og hugvekjandi verk. Bókin byggir á eigindlegum og megindlegum aðferðum og höfundur hefur jafngott vald yfir að vinna úr afurðum hvoru tveggja. Við þetta bætist að brúuð er sú sú djúpa gjá sem aðskilur ólík tungumál, í þessu tilviki arabísku og íslensku. Túlkur var fenginn til að vera milliliður milli höfundar og kvennanna sem sögðu sögu sína, textar voru þýddir, og kaflar bókarinnar bornir undir heimildamenn til staðfestingar. Allt var gert til að tryggja að hvergi væri rangt með farið og engu gerð röng skil. Ritheimildir eru notaðar til að rekja og varpa ljósi á sögusviðið, á sögu þeirra pólitísku ákvarðana og stríðsátaka sem hafa haldið löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og nágrannaríkjum þeirra í hershöndum áratugum saman. Tilvísanir í ritheimildir eru skýrt og aðgengilega settar fram aftan við meginmál, svo að þær séu til staðar en trufli ekki flæðandi framvindu frásagnarinnar.

Höfundur færir okkur enn nær efninu með því að vera á köflum sjálf sögumaður og lýsa fyrir okkur því sem hún sér þegar hún ferðast um sögusvið þess lífs og atburða sem bókin fjallar um. Þetta er vandmeðfarin aðferð, og gagnrýnendur fræðirita eru ekki einhuga um hvort höfundur á sjálfur að vera til frásagnar um eigin reynslu í rannsókn sinni, og sýnist sitt hvað hverjum um þá aðferð. En hér tekst vel til. Þessi aðferð fellur vel að markmiði sínu. Hún dýpkar verkið og hún dýpkar skilning okkar. Sigríður Víðis Jónsdóttir dregur upp myndir af því sem hún sér til að lýsa persónum og vettvangi sögunnar fyrir okkur. Hún biður okkur ekki um að ímynda okkur neitt, einungis að sjá þennan heim fyrir okkur. Það er vel til fundið því einmitt með því að gera okkur mynd af heiminum þá eigum við auðveldara með að skilja hann og setja okkur í spor annarra.

Ég óska Sigríði innilega til hamingju með verkið Ríkisfang: Ekkert, og það er ekki hægt að hafa yfir þennan titil bókar hennar öðru vísi en óska þess um leið að sá dagur komi að enginn þurfi að búa við þá raun og brot á réttindum í mannfélaginu að njóta ekki þess sjálfsagða réttar að eiga sér heimaland og ríkisfang og búa þar við frið og full mannréttindi.

Dr. Unnur Birna Karlsdóttir,
formaður
viðurkenningarráðs Hagþenkis 2011