Greinargerð Viðurkenningarráðs flutt af Írisi Ellenberger

""
Góðir gestir
 
Við erum saman komin hér í þessari höfuðstofnun íslenskrar bókmenningar í boði félagsins okkar, Hagþenkis, sem hefur það markmið að gæta hagsmuna og réttar höfunda fræðirita og kennslugagna. Félagið veitir árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi rit með þeim hætti að skipa sérstakt viðurkenningarráð sem velur hvaða rit skuli hreppa hnossið en í því sitja fimm félagar kjörnir til tveggja ára sem jafnframt eru fræðimenn á ólíkum sviðum.
 
Í Viðurkenningarráði Hagþenkis að þessu sinni sátu Bjarni Ólafsson íslenskufræðingur, Íris Ellenberger sagnfræðingur, Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur, Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorbjörn Broddason félagsfræðingur. Friðbjörg Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri Hagþenkis, hélt okkur við efnið með styrkri hendi.

 

Við fengum það ánægjulega og vandasama verkefni að tilnefna tíu bækur úr mörgum fræðiritum og kennslugögnum sem gefin voru út árið 2014. Var okkur gert að taka tillit til fræðilegs eða menningarlegs gildis útvalinna rita jafnt sem frumleika þeirra. Viðurkenningarráðið hóf störf í byrjun október og fundaði vikulega fram til áramóta yfir kræsilegu hlaðborði bóka og lífræns grænmetisfæðis. Þegar við hittumst á ný eftir jólafrí komumst við að niðurstöðu um bækurnar tíu sem hljóta skyldu tilnefningu Viðurkenningarráðs Hagþenkis fyrir árið 2014.

Þessar tíu bækur voru tilnefndar:

  • Ágúst Einarsson, Hagræn áhrif ritlistar.
  • Brynja Þorgeirsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason, Orðbragð.
  • Guðrún Kristinsdóttir (ritstj.). Ofbeldi á heimili. – Með augum barna.
  • Kristján Jóhann Jónsson, Grímur Thomsen. – Þjóðerni, skáldskapur, þversagnir og vald.
  • Jón G. Friðjónsson, Orð að sönnu – íslenskir málshættir og orðskviðir.
  • Jónas Kristjánsson (†) og Vésteinn Ólason gáfu út Eddukvæði I og II.
  • Páll Skúlason, Háskólapælingar. – Um stefnu og stöðu háskóla í samtímanum; Hugsunin stjórnar heiminum; Náttúrupælingar. – Um stöðu mannsins í ríki náttúrunnar.
  • Ragnhildur Richter, Sigríður Stefánsdóttir og Steingrímur Þórðarson. Íslenska fjögur. – Kennslubók í íslensku fyrir framhaldsskóla.
  • Snorri Baldursson, Lífríki Íslands – vistkerfi lands og sjávar.
  • Úlfhildur Dagsdóttir, Myndasagan. – Hetjur, skrýmsl og skattborgarar.

Um miðan febrúar hittist Viðurkenningarráð í síðasta sinn til að ákveða hvaða eitt rit skyldi tekið fram fyrir önnur og hljóta viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2014. Niðurstaðan varð einróma ákvörðun um að veita ritinu Ofbeldi á heimili. – Með augum barna ásamt ritstjóra og einum höfunda þess, Guðrúnu Kristinsdóttur prófessor, viðurkenninguna. Aðrir höfundar eru Ingibjörg H. Harðardóttir lektor, Margrét Ólafsdóttir aðjúnkt, Margrét Sveinsdóttir sérkennslustjóri, Nanna Þ. Andrésdóttir fagstjóri og Steinunn Gestsdóttir dósent.
 
Bókin Ofbeldi á heimili – Með augum barna er byggð á rannsókn sem höfundar unnu og Guðrún Kristinsdóttir stýrði á árunum 2006-2013 og grundvallaðist á spurningalistakönnun á þekkingu barna á ofbeldi og viðtölum við börn og mæður sem hafa búið við ofbeldi á heimili. Ritið skiptist í sex kafla þar sem fjallað er um viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhóli og reynt að varpa ljósi á vitneskjuna sem börn og unglingar búa yfir um ofbeldi á heimilum, hvernig þau bregast við ofbeldi á eigin heimili, áhrif ofbeldis á þau börn sem fyrir því verða, myndina sem fjölmiðlar draga upp af reynslu barna og unglinga af ofbeldi og, ekki síst, skoðanir þeirra á aðstoðinni sem þau fengu eða fengu ekki frá kennurum og öðrum fagaðilum.
 
Á síðustu árum hefur borið sífellt meira á opinberri umræðu um ofbeldi þar sem margir einstaklingar hafa stigið fram og sagt frá reynslu sinni af þessu samfélagsmeini, jafnt á fullorðins- sem bernskuárum. Skiljanlega vantar oft í þessa umræðu raddir barna og unglinga en þær eru í brennidepli þess rits sem hlýtur viðurkenningu Hagþenkis að þessu sinni. Lengsti og umfangsmesti kafli ritsins fjallar einfaldlega um frásagnir barna og mæðra um ofbeldi á heimili. Þar kynnumst við Kristófer, Guðrúnu, Dís, K, Lilju, Búbbu, Þóri, Birni, Gísla Súrssyni, Tinna, Gyðu, Óla, Sólveigu og Flugu sem voru svo væn að miðla höfundunum, og lesendum um leið, af reynslu sinni.
 
Höfundarnir takast á við það erfiða verkefni að ræða við óhörðnuð ungmenni um afar viðkvæmt málefni af mikilli ábyrgð og stakri fagmennsku. Hvar sem drepið er niður í ritinu gætir þess viðhorfs að börn og unglingar séu samfélagslegir borgarar og gerendur í eigin lífi. Að börn séu ekki fórnarlömb sem beri að vorkenna heldur ungt fólk sem sýni af sér seiglu við að lifa af í vondum aðstæðum og verðskuldi að á þau sé hlustað. Þau búi yfir visku og þekkingu sem vert sé að leita eftir og taka mark á. Ritstjóri og höfundar ljá þessum jaðarsetta hópi vissulega rödd með mýmörgum beinum tilvitnunum í börnin sjálf en aðstoða þau einnig við að virkja frumkvæði sitt, m.a. með því að gefa þeim tækifæri á að koma á framfæri ráðleggingum til annarra barna sem búa við ofbeldi og miðla þannig af reynslu sinni þótt sár sé. Og það sem meira er þá leyfa höfundar skoðunum, þekkingu og reynslu barnanna og mæðra þeirra að þjóna sem vegvísar þegar rætt er um hvaða aðgerðir skuli ráðast í til að takast á við heimilisofbeldi.
 
Ritið, Ofbeldi á heimili – Með augum barna, einkennist af djúpri umhyggju og virðingu fyrir börnum og mæðrum sem þurfa að þola ofbeldi. Verkið ber einnig vitni áræði og hugrekki höfunda og ritstjóra. Þær taka kinnroðalaust fram að rannsókn þeirra byggi á femínískum fræðum og grundvallist á þeirri sýn að undirrót heimilisofbeldis sé undirskipun kvenna og barna í feðraveldissamfélagi. Þær taka jafnframt sérstaklega fram að bókinni sé ætlað að vera innlegg í baráttu gegn því alvarlega meini sem ofbeldi er í okkar samfélagi. Hvorugt eru óumdeildar staðhæfingar í íslensku samfélagi samtímans sem ekki aðeins lítur femínísk fræði hornauga heldur þaggar enn niður í þolendum, heldur hlífiskildi yfir gerendum og á skelfilega auðvelt með að gleyma, þrátt fyrir aukna umræðu um ofbeldi.
 
Verkið, Ofbeldi á heimili – Með augum barna, er því þarft og mikilvægt innlegg í samfélagsumræðuna og hafa höfundarnir unnið stórvirki í að varpa ljósi á aðstæður, þekkingu og seiglu barna og unglinga sem búa við ofbeldi og búa til farveg fyrir raddir þeirra inn í opinbera umræðu.
 
Fyrir hönd Viðurkenningarráðs óska ég ritstjóranum Guðrúnu Kristinsdóttur, Ingibjörgu Harðardóttur, Margréti Ólafsdóttur, Margréti Sveinsdóttur, Nönnu Andrésdóttur og Steinunni Gestsdóttur innilega til hamingju með þetta framúrskarandi rit. Þið eigið heiðurinn skilið!