Greinargerð Viðurkenningarráð Hagþenkis

""Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur flutti greinargerð Viðurkenningaráðsins en ráðið skipuðu auk hans þau
Baldur Sigurðsson málfræðingur, Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur, Sólrún  Harðardóttir námsefnishöfundur og Þórunn Blöndal íslenskufræðingur.

 

Góðir gestir

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, veitir í 30. sinn viðurkenningu fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“. Mér hefur verið falið af viðurkenningarráði 2016 að segja frá  starfi þess og verðlaunabókinni. Í ráðinu sátu Baldur Sigurðsson málfræðingur, Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur, Sólrún  Harðardóttir námsefnishöfundur og Þórunn Blöndal íslenskufræðingur. Við hittumst nánast vikulega frá því snemma hausts og fram á þorra og fjölluðum um hátt í hundrað verk undir vökulu auga Friðbjargar Ingimarsdóttur framkvæmdastýru Hagþenkis. Tilnefningar til viðurkenningar  voru kynntar í febrúarbyrjun 2017 með rökstuðningi sem er að finna á heimasíðu Hagþenkis.

Tíu rit og höfundar þeirra voru tilnefnd:
Síðustu ár sálarinnar eftir Ársæl Má Arnarsson
Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson
Eyrbyggja saga, efni og höfundareinkenni eftir Elínu Báru Magnúsdóttur
Á ferð um samfélagið, þjóðfélagsfræði eftir Garðar Gíslason
Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar; bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld eftir Guðrúnu Ingólfsdóttur
Fljótsdæla , mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi eftir Helga Hallgrímsson
Landsnefndin fyrri 1770–1771 í ritstjórn Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur
Lóðrétt rannsókn, ódauðleg verk Áhugaleikhúss atvinnumanna 2005–2015 eftir Steinunni Knútsdóttur
Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson
Sjónsbók, ævintýrið um höfundinn, súrrealisma og sýnir eftir Úlfhildi Dagsdóttur.

Listinn innheldur ólíkar bækur og valið var á köflum erfitt. Öll verkin eiga það þó sameiginlegt að miðlun efnis var til fyrirmyndar. Eigi að síður varð dómnefnd sammála um að bókin, Jón lærði og náttúrurur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson bæri þar af og væri sú sem skyldi hljóta viðurkenningu Hagþenkis.

Jón Guðmundsson (1574-1658) hlaut viðurnefnið „lærði“ vegna óvenju fjölbreyttra hæfileika og fræðistarfa á mörgum sviðum; hann var listaskrifari, kunni manna best skil á fornum kvæðum og rúnum og kvað niður drauga. Þá var hann glöggur náttúruskoðari og skrifaði um þau fræði fyrstur manna á íslensku. Lífshlaup hans var auk þess ævintýralegt og hraktist hann milli landshluta og jafnvel til útlanda til að flýja ofsóknir eða rétta hlut sinn fyrir óbilgjörnum yfirvöldum. Þrautseigja Jóns og afköst voru með ólíkindum í ljósi þessa. Ævi hans og störf eru heldur betur verðugt viðfangsefni.
Jón lærði og náttúrur náttúrunnar er alþýðleg og aðgengileg bók, án þess að slakað sé á fræðilegum kröfum. Viðar Hreinsson fer nýstárlega leið og fjallar  jöfnum höndum um Jón lærða, verk hans og samtíð og tekst á látlausan hátt að flétta því saman við tíðaranda 17. aldar og fræðaiðkun hér heima og erlendis. Listrænar sviðsetningar og tilgátur fleyta frásögninni áfram, án þess að lesendum sé ofboðið. Ávallt er vísað til viðeigandi heimilda eða skýrir fyrirvarar settir af hálfu höfundar þegar hann verður að bregða sér út af hinum þrönga stíg staðreynda til að fylla upp í heildarmyndina.
Viðar dregur upp lifandi myndir af því umhverfi sem ól af sér fræðimanninn Jón lærða og tengir athuganir hans og skrif við evrópska vísindasögu. Sýn Jóns og upplifun hans og samtímamanna á náttúrunni er leiðarstef bókarinnar. Margþætt nálgun höfundar bregður upp nýju ljósi á hugarheim og umhverfi þeirra sem iðkuðu hér fræði fyrir 400 árum. Í bókinni um Jón lærða og náttúrur náttúrunnar er velt við mörgum steinum, líka í orðsins fyllstu merkingu! og hún verður án efa mörgum uppspretta og innblástur á komandi árum.  Hún er auk þess óvenjufallegur prentgripur og forlaginu Lesstofunni til mikils sóma. Efnistök, frásagnarmáti og frágangur leggjast hér á eitt og auðvelda lesendum að setja sig inn í fjarlægan og oft myrkan heim Jóns Guðmundssonar lærða.

Við óskum Viðari Hreinssyni og öðrum aðstandendum útgáfunnar til hamingju með þessa góðu og glæsilegu bók.