Fyrsta rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða

Fyrsta rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða á haustmisseri 2008 verður haldið 11. september.
Þá flytur Jón Hilmar Jónsson erindi sem hann kallar Tekist á við orðaforðann: Íslenskt orðanet, gerð þess og grundvöllur. Hann lýsir erindinu á þennan veg:

Í almennum orðabókum hefur orðaforðinn löngum birst sem samsafn stakra orða sem eiga takmarkaða samleið hvert með öðru. Innra merkingarsamhengi orðaforðans og tengsl orðanna í margs konar orðasamböndum hafa hins vegar verið viðfangsefni sérhæfðra orðabóka af ýmsu tagi. Því skortir á að orðabókarleg lýsing orðaforðans sé nægilega heildstæð.

Í orðabókarverkefninu Íslenskt orðanet er brugðist við þessum vanda með því að leggja víðtæka lýsingu á íslenskum orðasamböndum ásamt flokkuðu safni samsetninga til grundvallar greiningu á merkingarvenslum orða og orðasambanda. Það hefur m.a. í för með sér að mörg orðasambönd fá sjálfstæða stöðu til jafns við stök orð og eru þar með virk í samheitasamböndum og öðrum merkingarvenslum sem rakin eru innan orðaforðans. Þá gefur stöðluð framsetning orðasambandanna færi á málfræðilegri mörkun og þar með flokkun eftir setningargerð. Merkingarvensl orðanna eru svo einkum rakin út frá tengslum þeirra í orðastæðum og samsetningum, þar sem farið er með hvert merkingarbrigði sem sjálfstæða einingu.

Birting orðanetsins er enn í mótun, en tilraunaútgáfu ásamt stuttri lýsingu á verkefninu er að finna á vefsíðunni ordanet.is.

Jón Hilmar Jónsson er rannsóknarprófessor á orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.