Fyrirlestraröð Hagþenkis |Kynning á tveimur öndvegisritum

Ljósi varpað á Eddukvæðin og þjóðskáldið Grím Thomsen
Borgarbókasafnið | Menningarhús Grófinni
Miðvikudaginn 25. mars kl. 12.15 – 13.00
Ókeypis aðgangur   

""        

 

Eddukvæðin eru meðal helstu gersema íslenskra bókmennta. Eddukvæði I–II, sem þeir gáfu út Jónas Kristjánsson og Vésteinn Ólason, er ætluð fræðimönnum utan lands og innan auk áhugasamra íslenskra lesenda. Textunum fylgja rækilegar skýringar neðanmáls á hverri blaðsíðu, og í formála er gerð grein fyrir formi kvæðanna og listrænum einkennum þeirra en einnig fjallað um fræðilegar rannsóknir á efni þeirra og venslum við samfélag miðalda og djúpum rótum í menningu norrænna þjóða. Vésteinn Ólason, sem er höfundur formálans, mun í stuttu máli reyna að svara spurningunum: Hvað er svona merkilegt við eddukvæði? og Hvað greinir þessa útgáfu frá öðrum?
 
Kristján Jóhann Jónsson mun kynna bók sína Grímur Thomsen – Þjóðerni, skáldskapur, þversagnir og vald en hann þykir bregða nýju sjónarhorni á þjóðskáldið þar sem umfjöllun um ritstörf fléttast saman við nýstárlega greiningu á goðsögninni um Grím. Í bókinni er fjallað um ljóðagerð Gríms, fræðistörf, menningarleg og pólitísk viðhorf og einnig um tröllasögur af honum. Efnið varpar nokkru ljósi á þann þversagnakennda skilning á þjóðerni, skáldskap og valdi sem löngum hefur einkennt íslenska menningu. Fjallað er um bréfaskriftir Gríms og aðrar heimildir en sagan sem fræðimenn tuttugustu aldar hafa sagt af þessum dula manni er ekki í samræmi við heimildir um hann.
 
Bækurnar eru á meðal þeirra tíu bóka sem tilnefndar voru til Viðkenningar Hagþenkis 2014 en verðlaunin voru afhent í byrjun mánaðarins. Það er Hagþenkir sem stendur að fyrirlestraröðinni í samstarfi við Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið en þar eru kynnt fræðirit, námsgögn eða önnur miðlun fræðilegs efnis til almennings sem þykja skara fram úr.
 
Fyrirlestrarnir fara allir fram á Reykjavíkurtorgi í hádeginu á miðvikudögum og er aðgangur ókeypis.
Smellið á linkinn hér fyrir neðan  til að sjá veggspjald með upplýsingum um fyrirlestraröðina.
http://www.borgarbokasafn.is/sites/default/files/vidburda_iconar/15_hagthenkir_18mars_a3_allir.pdf
 
Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að viðurkenningarráð tilnefnir tíu höfunda og bækur er til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum til tveggja ára í senn, stendur að valinu og hóf störf í október.