Frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntastjóð og fleira

 

 

Þingskjal 110  —  110. mál.

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira,
nr. 91/2007 (Miðstöð íslenskra bókmennta).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)

1. gr.

    Í stað II. kafla (2. og 3. gr.) í lögunum kemur nýr kafli, Miðstöð íslenskra bókmennta og bókmenntasjóður, með fimm nýjum greinum, 2.–6. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytast númer annarra greina og kafla samkvæmt því:

    a. (2. gr.)

Miðstöð íslenskra bókmennta.

    Viðfangsefni Miðstöðvar íslenskra bókmennta eru að:
    a.     styrkja útgáfu íslenskra ritverka og útgáfu erlendra bókmennta á íslenskri tungu með fjárframlögum úr bókmenntasjóði, sbr. 4. gr.,
    b.     kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að útbreiðslu þeirra, og
    c.     efla bókmenningu á Íslandi.

    b. (3. gr.)

Stjórn.

    Ráðherra skipar fimm manna stjórn fyrir Miðstöð íslenskra bókmennta til þriggja ára í senn. Rithöfundasamband Íslands tilnefnir tvo fulltrúa, Félag íslenskra bókaútgefenda tilnefnir einn fulltrúa, Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna tilnefnir einn fulltrúa og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Varaformaður skal skipaður úr hópi stjórnarmanna. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn miðstöðvarinnar lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta ákveður árlega skiptingu ráðstöfunarfjár á fjárlögum á milli viðfangsefna hennar, sbr. 2. gr., og úthlutar úr bókmenntasjóði. Hún gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi miðstöðvarinnar og bókmenntasjóðs, sbr. 4. gr., til þriggja ára. Hún veitir einnig umsögn um erindi sem ráðuneytið vísar til hennar og getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum um bókmenntamálefni til ráðuneytisins.
    Ráðherra felur stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast þjónustu í nafni miðstöðvarinnar.
    Þóknun til stjórnarmanna og annar kostnaður við störf stjórnarinnar greiðist af fjárveitingu Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

    c. (4. gr.)

Bókmenntasjóður.

    Bókmenntasjóður starfar á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Hlutverk hans er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu. Hlutverk sitt rækir sjóðurinn með því að styrkja:
    a.     útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka,
    b.     útgáfu vandaðra rita sem eru til þess fallin að efla íslenska menningu,
    c.     útgáfu vandaðra erlendra bókmennta á íslenskri tungu.

    d. (5. gr.)

Úthlutun.

    Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta tekur ákvörðun um veitingu styrkja úr bókmenntasjóði. Við mat á umsóknum er stjórninni heimilt að leita umsagnar fagaðila.
    Ákvarðanir um úthlutun úr bókmenntasjóði verða ekki kærðar til æðra stjórnvalds.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi bókmenntasjóðs.

    e. (6. gr.)

Kostnaður.

    Tekjur Miðstöðvar íslenskra bókmennta og bókmenntasjóðs eru árlegt framlag í fjárlögum og annað sjálfsaflafé.

2. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um stuðning við íslenskar bókmenntir.

3. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2013.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara tekur Miðstöð íslenskra bókmennta við eignum og skuldbindingum bókmenntasjóðs svo og óafgreiddum styrkloforðum. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir á fjárlögum fyrir árið 2012 fyrir bókmenntasjóð.
    Við gildistöku laga þessara flytjast starfsmenn bókmenntasjóðs til skrifstofu Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Fer um réttindi og skyldur starfsmanna eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I.    Inngangur.
    Lög um bókmenntasjóð og fleira voru sett á árinu 2007. Þau leystu af hólmi lög nr. 79/1993, um Menningarsjóð, lög nr. 35/1981, um þýðingarsjóð, og lög nr. 33/1997, um Bókasafnssjóð höfunda. Helsta markmið laganna var að stuðla að frekari grósku í bókmenningu hér á landi með því að styðja við útgáfu á frumsömdum íslenskum verkum og þýðingum auk þess að stuðla að kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis og hér á landi. Með þessu var verið að beina stuðningi ríkisins í einfaldan, gagnsæjan og skilvirkan farveg, m.a. með því að sameina Menningarsjóð, þýðingarsjóð og bókmenntakynningarsjóð í einn.

    Bókmenntasjóður hefur starfað í rúm fjögur ár. Hann hefur gegnt hlutverki sínu vel þrátt fyrir takmarkað fjármagn. Það markmið hefur náðst að auka skilvirkni í fjárstuðningi ríkisins við íslenska bókaútgáfu.
    Eftir þátttöku Íslands sem heiðursgests á bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011 er mikilvægt að efla kynningu á íslenskum bókmenntum til að fylgja vel eftir þeim mikla árangri sem náðist og til að stuðla þannig að frekari útbreiðslu á íslenskri bókmenningu sem víðast.
    Frumvarpið var undirbúið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og málið kynnt á fundi með stjórn bókmenntasjóðs og verkefnisstjórn Sögueyjunnar Íslands. Frumvarp þetta var lagt fram á 140. löggjafarþingi en var ekki afgreitt og er því flutt að nýju.

II.    Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Haustið 2007 ákvað ríkisstjórnin að sækjast eftir því að Ísland yrði heiðursgestur á bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011 og að ríkisstjórnin legði 300 millj. kr. til verkefnisins á árunum 2007 til 2011. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu var falið forsvar málsins. Þessari ákvörðun var fylgt eftir og var Ísland valið sem heiðursland, fyrst Norðurlanda. Verkefnisstjórn var skipuð og verkefnisstjóri og starfslið ráðið. Verkefnið hlaut nafnið Sögueyjan Ísland.
    Um tvö hundruð íslenskar bækur og bækur um Ísland komu út á þýska málsvæðinu á árinu 2011 í samstarfi við hátt í hundrað þarlend bókaforlög. Í tengslum við sjálfa bókasýninguna voru einnig ýmsir íslenskir listviðburðir, svo sem myndlistarsýningar, tónleikar og danssýningar. Hér var um að ræða stærstu menningarkynningu sem Ísland hefur staðið fyrir erlendis, en auk stjórnvalda hafa ýmsir íslenskir og erlendir aðilar veitt verkefninu fjárhagsstuðning. Þátttaka Íslands hlaut mikla athygli fjölmiðla og almennings á hinu þýska málsvæði sem og víðar í Evrópu.
    Það hefur verið reynsla fyrri heiðurslanda að heiðursárið hefur aukið útbreiðslu bókmennta viðkomandi lands í heiminum varanlega, en það hefur líka verið vegna þess að verkefninu hefur verið fylgt dyggilega eftir í kjölfarið. Það er mat ráðuneytisins að nauðsynlegt sé að skýra og efla kynningu á íslenskum bókmenntum sem hefur verið á könnu bókmenntasjóðs og því er lagt til að með breytingu á lögum um bókmenntasjóð verði skrifstofu sjóðsins breytt í bókmenntamiðstöð undir heitinu Miðstöð íslenskra bókmennta. Bókmenntasjóður starfi á vegum miðstöðvarinnar og stjórn miðstöðvarinnar taki ákvarðanir um úthlutun úr bókmenntasjóði.
    Markmið breytinganna er að styrkja bókmenntakynningarhlutann og skapa starfsumgjörð sem er betur til þess fallin að fylgja eftir þessu mikilvæga átaki stjórnvalda í að koma íslenskum bókmenntum á framfæri erlendis. Hlutverk bókmenntasjóðs við að styrkja íslenska bókaútgáfu heldur áfram þó að það verði innan ramma miðstöðvarinnar.

III.    Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að heiti laganna verði lög um stuðning við íslenskar bókmenntir en ekki lög um bókmenntasjóð og fleira, enda er „og fleira“ nokkuð óljóst heiti. Þá er lagt til að nýr II. kafli komi í stað núverandi II. kafla í lögum um bókmenntasjóð og fleira.
    Heiti II. kafla verður Miðstöð íslenskra bókmennta og bókmenntasjóður. Meginatriðin eru að starf og skrifstofa bókmenntasjóðs samkvæmt gildandi lögum breytist í Miðstöð íslenskra bókmennta og að bókmenntasjóður starfi á vegum hennar. Hlutverk miðstöðvarinnar verði að styrkja útgáfu íslenskra skáldverka og vandaðra rita svo og útgáfu erlendra bókmennta á íslenskri tungu eins og bókmenntasjóður hefur gert, auk þess að leggja meiri áherslu á kynningarhlutann. Hins vegar verði styrkir til þýðinga á íslenskum bókmenntum á erlendar tungur greiddir af framlagi til miðstöðvarinnar þar sem slíkt er mikilvægur þáttur í kynningu og útbreiðslu á íslenskum bókmenntum erlendis. Með þessari lagabreytingu er ekki á neinn hátt verið að draga úr stuðningi við íslenska bókaútgáfu sem yrði áfram styrkt úr sérstökum bókmenntasjóði.
    Annað mikilvægt hlutverk miðstöðvarinnar er að kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að útbreiðslu þeirra. Í þessu felst m.a. að efla samskipti við erlenda aðila á sviði bókmennta og bókaútgáfu. Þetta er það hlutverk sem ætlunin er að efla. Þá er miðstöðinni einnig ætlað að efla bókmenningu á Íslandi. Hlutverk miðstöðvarinnar yrði að ýmsu leyti hliðstætt hlutverki Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, en þó er ekki gengið svo langt að setja á stofn sérstaka ríkisstofnun.
    Stjórn bókmenntasjóðs verður stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta en skipan stjórnar verður óbreytt frá því sem nú gildir. Hlutverk stjórnarinnar verður einnig hliðstætt, þ.e. að ákveða árlega skiptingu ráðstöfunarfjár á fjárlögum til viðfangsefna miðstöðvarinnar og þar með einnig bókmenntasjóðs, úthluta úr sjóðnum og gera tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi miðstöðvarinnar og sjóðsins. Lagt er til að stjórninni sé heimilt að leita umsagnar fagaðila við mat á umsóknum. Eftir sem áður er það stjórnin sem tekur ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum og eru ákvarðanir hennar endanlegar á þessu stjórnsýslustigi.

IV.    Samráð.
    Drög að frumvarpi voru á fyrstu stigum kynnt stjórn bókmenntasjóðs og verkefnisstjórn Sögueyjunnar Íslands á sameiginlegum fundi. Á þeim fundi kom m.a. fram sú afstaða að fjárveitingar til annars vegar miðstöðvar og hins vegar bókmenntasjóðs væru aðskildar í fjárlögum. Á seinni stigum voru endurskoðuð drög að frumvarpi kynnt á fundi með stjórn bókmenntasjóðs sem óskaði eftir skýrari ákvæðum um skilin á milli verkefna miðstöðvar og sjóðs.

V.    Mat á áhrifum.
    Telja má að með samþykkt á breytingum á gildandi lögum um bókmenntasjóð og fleira skapist styrkari lagastoð fyrir kynningu á íslenskum bókmenntum til að fylgja eftir góðum árangri á bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011. Með breytingu á skrifstofu bókmenntasjóðs í Miðstöð íslenskra bókmennta er gert ráð fyrir að hún verði betur í stakk búinn að sinna kynningarhlutverkinu en það er þó háð fjárveitingum. Það skapi henni einnig sterkari ásýnd gagnvart ýmsum aðilum innan lands sem utan. Þetta ætti að gagnast vel íslenskri bókmenningu í heild sinni en sérstaklega einstökum rithöfundum og bókaútgefendum. Með breytingu á skrifstofu bókmenntasjóðs í Miðstöð íslenskra bókmennta skapast styrkari grundvöllur fyrir kynningarstarfið og þar með talið uppbyggingu á vefsíðu um íslenskar bókmenntir sem komið var á fót af verkefninu Sögueyjunni Ísland. Hér er um að ræða öflugustu vefsíðu um íslenskar bókmenntir sem hefur verið gerð og því talsverð verðmæti fólgin í að halda áfram að bæta við hana og viðhalda henni á alla lund. Mikil verðmæti eru fólgin í heitinu Sögueyjan Ísland/Sagenhaftes Island/Fabulous Iceland eins og bókasýningarverkefnið var kallað og er gert ráð fyrir miðstöðin noti það í starfi sínu. Styrk Miðstöð íslenskra bókmennta ætti líka að geta verið öflugur samstarfsaðili verkefnisins Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, og ættu verkefnin að skjóta styrkari stoðum undir starfsemi hvort annars og efla íslenska bókmenningu enn frekar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

 

Um 1. gr.

    Lagt er til að nýr kafli leysi II. kafla af hólmi og beri hann heitið Miðstöð íslenskra bókmennta og bókmenntasjóður. Kaflinn skiptist í fimm lagagreinar: Miðstöð íslenskra bókmennta; stjórn, bókmenntasjóður, úthlutun og kostnaður.
    Um a-lið (2. gr.).
    A-liður fjallar um Miðstöð íslenskra bókmennta. Meginviðfangsefni hennar eru að mestu þau sömu og bókmenntasjóður hefur hingað til sinnt, en hnykkt er frekar á kynningarhlutanum og útbreiðslu íslenskra bókmennta með ákveðnara orðalagi. Í gildandi lögum um bókmenntasjóð segir í c-lið 2. gr. að hann ræki hlutverk sitt með því að „stuðla að kynningu á íslenskum bókmenntum hér á landi og erlendis“. Lagt er til að orðalagið verði „kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að útbreiðslu þeirra“. Hér er um ákveðnara gerandahlutverk að ræða. Einnig er bætt við því viðfangsefni að „efla bókmenningu á Íslandi“ sem felur m.a. í sér virka þátttöku í ýmsum verkefnum á vegum frjálsra félagasamtaka og opinberra aðila sem einkaaðila á sviði bókmennta. Samstarf miðstöðva bókmennta á Norðurlöndum er t.d. mjög öflugt og sameina þær oft krafta sína á alþjóðlegum bókmenntahátíðum og bókasýningum og hefur Ísland notið góðs af þessu samstarfi. Bókmenntasjóður hefur verið virkur í samstarfi systurstofnana á Norðurlöndum og tekið þátt með þeim í ýmsum verkefnum, m.a. öflugri kynningu á norrænum bókmenntum á bókasýningunni Salon du Livre í París á árinu 2011. Bókmenntasjóður hefur tekið þátt í Literature Across Frontiers sem er evrópskt tengslanet bókmenntastofnana um þýðingar og bókmenntakynningar hvers konar. Þá hefur sjóðurinn tekið þátt í ýmsum bókasýningum og bókmenntahátíðum, svo sem bókasýningum í Gautaborg, London og Frankfurt.
    Með þessari grein er lagður grunnur að því að þróa núverandi skrifstofu bókmenntasjóðs í Miðstöð íslenskra bókmennta til að vera betur í stakk búin til að vinna að kynningu á íslenskum bókmenntum hér á landi og erlendis og ekki síst að geta tekið við eftirfylgni á þátttöku Íslands í bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011. Æskilegt væri að miðstöðin hefði sem undirtitil í heiti sínu Sögueyjan Ísland/Fabulous Iceland/Sagenhaftes Island til að tryggja enn frekar tengsl og eftirfylgni við kynninguna í Frankfurt. Miðstöðin sæi einnig um heimasíðu Sögueyjunnar Íslands sem birst hefur á þremur tungumálum: íslensku, ensku og þýsku. Í þessari síðu, sem er sú öflugasta sem gerð hefur verið um íslenskar bókmenntir, liggja mikil verðmæti sem ekki mega fara forgörðum. Æskilegt væri að koma á samstarfi við verkefnið Reykjavík bókmenntaborg UNESCO um að halda úti þessari vefsíðu.
    Miðstöðinni er ætlað að sjá um undirbúning og framkvæmd á kynningum og útbreiðslu á íslenskum bókmenntum hér á landi og erlendis, með veitingu þýðingastyrkja, þátttöku í bókamessum og bókmenntahátíðum og með góðu samstarfi við þýðendur úr íslensku. Einnig sjái hún um vefsíðuna og umsýslu bókmenntasjóðs sem felst m.a. í að auglýsa eftir umsóknum um styrki, undirbúa ákvörðun stjórnar um fjárstuðning á grundvelli umsókna, afgreiða styrkumsóknir, halda utan um skráningu á styrkveitingum, annast rekstur miðstöðvarinnar og bókmenntasjóðs og annast aðra umsýslu sem tengist starfinu. Reikna má með að um þrjú stöðugildi þurfi til þessa og verkefna- og rekstrarfé.
    Um b-lið (3. gr.).
    
B-liður fjallar um stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta. 1. mgr. er óbreytt frá 3. gr. gildandi laga um bókmenntasjóð. Rithöfundasamband Íslands, Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna og Félag íslenskra bókaútgefenda eru stærstu hagsmunasamtökin. Því er eðlilegt að þau eigi áfram fulltrúa í stjórn. Verkefni stjórnar eru að mestu óbreytt frá verkefnum stjórnar bókmenntasjóðs, þ.e. að ákveða árlega skiptingu ráðstöfunarfjár á fjárlögum, bæði það sem rennur til miðstöðvarinnar og til bókmenntasjóðs, enda hefur stjórnin einnig það hlutverk að úthluta úr bókmenntasjóði. Stjórnin gerir einnig tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi miðstöðvarinnar og bókmenntasjóðs til þriggja ára. Ráðuneytið getur einnig óskað eftir umsögnum stjórnar um erindi sem það ákveður að vísa til hennar og jafnframt getur stjórnin átt frumkvæði að því að beina ábendingum og tillögum um bókmenntamálefni til ráðuneytisins. Þá felur ráðherra stjórninni að reka sérstaka skrifstofu eða semja við þar til bæra aðila að annast þjónustu í nafni miðstöðvarinnar. Ábyrgð á rekstrinum hvílir þó eftir sem áður hjá stjórninni. Þóknun til stjórnarmanna og annar kostnaður við störf hennar greiðist af fjárveitingu til Miðstöðvar íslenskra bókmennta.
    Um c-lið (4. gr.).
    
C-liður fjallar um bókmenntasjóð. Kostnaður við hluta þeirra verkefna sem falla undir miðstöðina, þ.e. 1. tölul. a-liðar (2. gr.), greiðist úr bókmenntasjóði eins og hingað til. Um er að ræða styrki til útgáfu á frumsömdum íslenskum skáldverkum og styrki til útgáfu á vönduðum ritum sem eru til þess fallin að efla íslenska menningu. Hér er um að ræða útgáfur sem Menningarsjóður á sínum tíma styrkti. Bókmenntasjóður tók við hlutverki þýðingarsjóðs sem studdi útgáfur á þýddum erlendum bókmenntum. Því hlutverki mun bókmenntasjóður að sjálfsögðu halda áfram. Það yrði hins vegar hlutverk miðstöðvarinnar að styrkja þýðingar á íslenskum ritum á erlend tungumál. Sá stuðningur er mikilvægur til að útbreiða íslenskar bókmenntir og fá íslenskar bækur gefnar út af erlendum bókaútgáfum. Bókmenntasjóður hefur bæði veitt styrki til að þýða sýnishorn en einnig veitt styrki til að þýða íslenskar bókmenntir á erlend tungumál til útgáfu erlendis. Hluti þeirra bóka sem gefnar voru út í tengslum við þátttöku Íslands sem heiðurslands á bókasýningunni í Frankfurt 2011 naut slíkra styrkja úr bókmenntasjóði. Þá hefur sjóðurinn veitt rithöfundum ferðastyrki til að fara í kynnisferðir og einnig veitt þýðendum dvalarstyrki hér á landi í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands.
    Um d-lið (5. gr.).
    D-liður fjallar um úthlutun. Hér er áréttað að stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta úthlutar úr bókmenntasjóði. Eins og stjórn bókmenntasjóðs hefur heimild til í dag er lagt til að stjórnin geti áfram leitað umsagnar fagaðila við mat á umsóknum. Stjórnin getur þannig leitað út fyrir sínar raðir til að fá mat á fyrirliggjandi umsóknum til að skapa rúm fyrir fleiri sjónarmið. Ákvörðun um úthlutun stjórnar er endanleg á þessu stjórnsýslusviði og verða þær ekki kærðar til æðra stjórnvalds.
    Um e-lið (6. gr.).
    E-liður fjallar um kostnað. Miðstöðin mun njóta fjárframlaga á fjárlögum og sama er um bókmenntasjóð.

Um 2. gr.

    Gildandi lög bera heitið lög um bókmenntasjóð og fleira. Hér er lagt til að lögin beri heitið lög um stuðning við íslenskar bókmenntir þar sem lögin eru um fjárhagslegan stuðning við íslenska bókaútgáfu og stuðning við að koma íslenskum bókmenntum á framfæri erlendis. Þá er í lögunum einnig áfram ákvæði um greiðslur fyrir afnot verka á bókasöfnum, en slíkar greiðslur renna til rithöfunda.

Um 3. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2013. Fram að þeim tíma verði unnið að því að samþætta sem best starf bókmenntasjóðs og starfsemi Sögueyjunnar Íslands. M.a. er gert ráð fyrir að starfsmenn Sögueyjunnar vinni með starfsmanni bókmenntasjóðs og sjái þeir í sameiningu um þátttöku í ýmsum bókasýningum og bókmenntahátíðum til að eftirfylgnin við verkefnið Sögueyjan Ísland verði sem farsælust og að þekking, reynsla og sambönd sem myndast hafa í verkefninu gagnist sem best í starfinu fram undan og sú mikla fjárfesting sem lögð var í þátttökuna í bókasýningunni í Frankfurt 2011 skili sér fyrir íslenska bókmenningu til framtíðar litið.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Vænta má að við gildistöku laganna verði hjá bókmenntasjóði ýmis óafgreidd styrkloforð og aðrar skuldbindingar sem færðust þá yfir til Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem og eignir bókmenntasjóðs.
    Hjá bókmenntasjóði er starfandi framkvæmdastjóri og einnig munu starfsmenn Sögueyjunnar Íslands væntanlega færast til bókmenntasjóðs á árinu 2012. Við gildistöku laganna færist starfsfólkið yfir til miðstöðvarinnar þar sem það býr yfir þekkingu, reynslu og mikilvægum samböndum sem verða miðstöðinni mikilvæg.
    Við gildistöku laganna fellur umboð stjórnar bókmenntasjóðs niður og ný stjórn verður skipuð.

Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira, nr. 91/2007 (Miðstöð íslenskra bókmennta).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um bókmenntasjóð og fleira, nr. 91/2007. Ísland var heiðursgestur bókasýningarinnar í Frankfurt sl. haust og var verkefninu um þátttöku Íslands á sýningunni gefið heitið Sögueyjan Ísland. Útbreiðsla bókmennta þeirra landa sem verið hafa heiðursgestir á bókasýningunni hefur aukist varanlega þar sem verkefninu hefur verið fylgt eftir í kjölfar sýningarinnar. Kostnaður ríkissjóðs af sýningunni var upphaflega áætlaður 300 m.kr. en nú er talið að hann verði alls 345 m.kr. Bókmenntasjóður tók þátt í undirbúningi bókasýningarinnar í haust og hefur honum verið falið að fylgja verkefninu eftir en það er eitt meginmarkmið frumvarpsins að skýra og efla kynningarhlutverk sjóðsins.
    Helstu breytingar á lögunum eru í fyrsta lagi að lagt er til að heiti laganna breytist úr lög um bókmenntasjóð og fleira í lög um stuðning við íslenskar bókmenntir. Í öðru lagi er lagt til að komið verði á fót sérstakri skrifstofu með heitinu Miðstöð íslenskra bókmennta sem ætlað er að taka við hlutverki skrifstofu bókmenntasjóðs. Bókmenntasjóður mun eftirleiðis verða starfræktur á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta og nýttur til að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu á Íslandi með veitingu styrkja. Miðstöðinni verður m.a. ætlað að undirbúa og sjá um framkvæmd á kynningu og útbreiðslu á íslenskum bókmenntum hérlendis og erlendis og halda úti vefsíðu um íslenskar bókmenntir á íslensku og erlendum tungumálum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að miðstöðin verði sjálfstæð eins og skrifstofa bókmenntasjóðs er í dag en að yfir henni verði fimm manna stjórn sem muni bera ábyrgð á rekstri hennar gagnvart ráðuneytinu og ráði starfsmenn. Í þessu sambandi er ástæða til að vekja athygli á því að með frumvarpinu er verið að festa í sessi skrifstofu sem er afar lítil í sniðum. Nokkur fjöldi slíkra skrifstofa og stofnana sem hafa sambærileg verkefni eru nú starfandi annaðhvort alfarið á vegum ríkisins eða með fjárhagslegum stuðningi þess. Þær eiga það allar sammerkt að hafa það hlutverk að efla listgreinar hver á sínu sviði, ýmist með styrkveitingum til útgáfu, og sinna kynningar- og markaðsmálum heima og erlendis. Um er að ræða skrifstofur eins og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands og Útflutningsmiðstöð tónlistar. Verður ekki séð að rekstur margra og smárra sambærilegra eininga sé í samræmi við stefnu núverandi ríkisstjórnar um að sameina og stækka ríkisstofnanir og endurskoða verkaskiptingu til að ná fram hagræðingu. Hér má benda á niðurstöðu vinnuhópa sem skoðað hafa uppbyggingu og skipulag stofnana í tengslum við aðhaldsaðgerðir og umbætur í ríkisrekstrinum. Af þeirra hálfu hafa komið fram sjónarmið um að tilefni gæti verið til að setja reglur um þá lágmarksstærð stofnana sem þurfi til þess að þær geti sinnt stjórnsýslulegri og rekstrarlegri ábyrgð óháð faglegu starfi í þeim tilgangi að draga úr kostnaði við yfirstjórn og stoðþjónustu opinbers reksturs ásamt því um leið að efla faglega hluta starfseminnar. Þegar starfseining tekur einungis til örfárra starfsmanna hlýtur ávallt að þurfa að taka til skoðunar hvort hægt sé að sameina hana öðrum litlum einingum eða tengja við aðra stærri.
    Við gildistöku laga þessara flytjast starfsmenn bókmenntasjóðs yfir til skrifstofu Miðstöðvar íslenskra bókmennta auk þess sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gerir ráð fyrir að starfsmenn verði færðir úr öðrum kynningarverkefnum til skrifstofunnar. Ekki ætti því að falla til neinn einskiptis kostnaður vegna starfsmannamála, til að mynda vegna biðlauna.
    Í fjárlögum 2012 eru nokkrar fjárveitingar til sambærilegra verkefna og frumvarpið kveður á um sem nema samtals 112 m.kr. Í fyrsta lagi er 42 m.kr. fjárveiting til bókmenntasjóðs. Í öðru lagi er veitt 25 m.kr. tímabundin fjárheimild á yfirstandandi ári sem er ætluð til að fylgja eftir kynningarverkefnum undir yfirskriftinni „Sögueyjan Ísland“ í framhaldi af bókasýningunni í Frankfurt. Í þriðja lagi er önnur 45 m.kr. fjárveiting sem er varanleg og er ætluð til slíkrar eftirfylgni með verkefninu en þó einnig til að styrkja aðila sem annast kynningarstarf á fleiri sviðum, svo sem tónlist, myndlist og kvikmyndum. Með því að nýta þessar fjárheimildir ætti því að vera kleift að efla starfsemi miðstöðvarinnar, t.d. með því að fjölga starfsmönnum um einn eða tvo. Með hliðsjón af erfiðri stöðu ríkissjóðs og þeim markmiðum sem sett hafa verið um jöfnuð í ríkisfjármálum á næstu árum verður að ganga út frá því að mennta- og menningarmálaráðuneytið forgangsraði þessum og öðrum fjárveitingum sínum með þeim hætti að ekki verði stofnað til nýrra útgjaldaskuldbindinga vegna reksturs Miðstöðvar íslenskra bókmennta og bókmenntasjóðs umfram þær fjárheimildir sem fyrir hendi eru í gildandi fjárlögum.
    Ekki er því gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins muni leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.