Eitt af markmiðum Hagþenkis er að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna og bæta skilyrði þeirra til útgáfu fræðirita og kennslugagna og annars sem félagsmenn vinna að. Þar sem námsefnishöfundar eru stór hópur innan Hagþenkis lætur félagið sig samninga sem Menntamálastofnun gerir við höfunda sig varða enda félagið meðal annars til þess stofnað. Þeir samningar byggjast að miklu leyti á upphaflegum samningi milli Hagþenkis og Námsgagnastofnunar sem undirritaður var 6. júní 1996 og bráðabirgðasamningi sem undirritaður var 18. nóvember 2002.
Ágætu félagsmenn Hagþenkis.
Hagþenkir hefur undanfarin ár óskað eftir því við Menntamálastofnun að samningur Hagþenkis við stofnunina um útgáfusamninga námsefnishöfunda verði endurnýjaður og uppfærður í takti við nýja tíma. Í október 2018 skipaði Hagþenkir þriggja manna samninganefnd sem í sitja núverandi formaður, Hagþenkis, Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, sem leiðir nefndina, Erna Jessen og Kolbrún Svava Hjaltadóttir. Nefndin hóf viðræður við Menntamálastofnun í ársbyrjun 2019.
Í upphafi viðræðnanna hvatti samninganefndin Menntamálastofnun til að uppfæra grunntaxta í samningi sínum við höfunda. Taxtinn hafði ekki verið uppfærður til samræmis við vísitölu frá árinu 2015 líkt og kveðið er á um í samningum að gert skuli. Í fyrstu samningum Hagþenkis og Námsgagnastofnunar var samið í maí 1991 um 1.160 kr. á tímann. 1. desember 2015 hafði tímakaupið verið uppfært í 3.411 kr. Menntamálastofnun uppfærði taxann 1. júlí 2019 og er nú miðað við tímakaupið 4.435 kr. Vakin er athygli á því að um verktakagreiðslur er að ræða og hvorki var haft samráð við samninganefndina né stjórn Hagþenkis um þessa upphæð.
Eftir nokkra fundi samninganefndar Hagþenkis með Menntamálastofnun afhenti nefndin tillögur sínar og ábendingar til frekari skoðunar og umræðu. Stofnunin afboðaði hins vegar fund sem halda átti eftir það og ekki hefur tekist að fá fund með starfsmönnum stofnunarinnar frá því í maí þrátt fyrir ítrekaða beiðni. Ástæða þess er meðal annars sú að Menntamálastofunun tók að efast um samningsumboð Hagþenkis fyrir hönd félagsmanna sinna og taldi að samningurinn gæti verið brot á samkeppnislögum nr. 44/2005. Menntamálastofnun leitaði óformlega til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins en taldi sig ekki fá nógu skýr svör. Hagþenkir leitaði til ráðuneytisins í júlí og óskaði eftir því að það hlutaðist til um að viðræðurnar um samningana yrðu til lykta leiddar, en Menntamálastofnun heyrir undir ráðuneytið.
Í september barst bréf frá Menntamálastofnun og kvaðst stofnunin vilja að leitað yrði sameiginlega og formlega til Samkeppnisstofnunar til að skoða lagalegan grundvöll fyrir samningnum út frá ákvæðum samkeppnislaga. Hagþenkir hafnaði þeirri tillögu með rökstuðningi, ítrekaði samningsrétt félagsins og óskaði eftir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið tæki afstöðu til málsins. Svar ráðuneytisins barst 27. nóvember og þar segir m.a.:
Ráðuneytið telur brýnt á grundvelli stjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra skv. IV. kafla laganna um Stjórnarráð Íslands, að Menntamálastofnun leysi ágreininginn um kaup og kjör námsgagnahöfunda á sem skjótastan hátt þar sem slíkt hljóti að vera grundvallaratriði fyrir því að Menntamálastofnun fái rækt hlutverk sitt að sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum.
Í bréfinu er tekin skýr afstaða til þess að Menntamálastofnun beri að halda samningaviðræðum áfram og ljúka málinu. Þrátt fyrir það hefur enn ekki tekist að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í maí síðastliðnum. Það er von stjórnar Hagþenkis og samninganefndarinnar að á komandi vikum náist að funda og að málið verði leitt til lykta hið fyrsta.
Þegar drög að samningi verða tilbúin hefur Hagþenkir hug á því að kalla saman þá félagsmenn sem málið varðar í þeim tilgangi að rýna tillögurnar þannig að almenn sátt muni ríkja um innihald þeirra.
Með bestu óskum um farsæld á nýju ári.
Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, formaður Hagþenkis