Fræðirit, námsgögn og hagur íslenskrar tungu

Fræðirit og kennslugögn eru stærstur hluti íslenskrar bókaútgáfu þótt mörg þeirra fari ekki hátt. Flest njótum við stuðnings þeirra eða sækjum okkur fróðleik til þeirra í vinnu, í skóla eða í frístundum. Ef það er stefna okkar sem samfélags að halda áfram að tala um umheiminn og samfélag okkar á íslensku er fátt mikilvægara en að við höfum frá unga aldri aðgang að vönduðum fræðiritum og kennslubókum á íslensku, bæði þýddum og frumsömdum. Þetta er ekki sjálfsagður hlutur, útgáfa fræðirita á íslensku er oft dýr og hún er vart möguleg í þeim mæli sem við þurfum nema til komi stuðningur hins opinbera.

 

Árið 2007 var komið á fót tveimur sjóðum til eflingar námsbókaskrifum og útgáfu utan Námsgagnastofnunar. Sjóðirnir eru ómetanlegir fyrir þróun námsefnis og áhrif þeirra ná víðar, auk þess að styðja við þróun námsefnis  gera þeir félitlum skólum og skólabókasöfnum kleift að kaupa inn fræðirit fyrir börn og styðja þannig við útgáfu þeirra. Nú á að skera þennan sjóð verulega niður. Þetta er skammsýni. Sjálfstæð útgáfa kennslubóka og fræðirita er nógu erfið í litlu málsamfélagi, ef við viljum að börn hafi aðgang að fjölbreyttum bókakosti um vísindi og fræði verður að styðja við hana víðar en í ríkisrekinni Námsgagnastofnun. Námsgagnastofnun gefur út mikið af vönduðu námsefni og uppfyllir grunnþarfir skólanna og þeirrar námsskrár sem þeir vinna eftir. En það er nauðsynlegt að nemendum standi einnig til boða fjölbreytt fræðirit og annað efni sem styður við og breikkar þann grunn sem námsgögn frá stofnuninni mynda.

Í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að fjárveiting til listamannalauna hækki. Það er gott og þarft. Meðal þeirra sjóða sem þannig fá aukið framlag er Launasjóður rithöfunda sem hefur einkum veitt starfslaun til höfunda fagurbókmennta. Það vekur á hinn bóginn athygli okkar sem störfum að málefnum fræðiritahöfunda að litli bróðir þessa sjóðs, Launasjóður fræðiritahöfunda stendur í stað. Á degi íslenskrar tungu viljum við vekja athygli á þessu og hvetja Alþingi til að ráða bót á því. Það er allra hagur að hér þrífist fjölbreytt útgáfa fræðirita fyrir börn og fullorðna.

 

Jón Yngvi Jóhannsson er formaður Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna