Menningarfélagið Hraun í Öxnadalehf er eigandi jarðarinnar Hrauns. Land jarðarinnar nær frá Öxnadalsá í eggjar Drangafjalls, yfir Vatnsdalinn með Hraunsvatni, þar sem Hraundragi gnæfir yfir – eins og sést á myndinni hér að ofan. Suðurmörk eru Hraunsá um Þverbrekkuháls í Þverbrekkuhnjúk í Kiðlingshnjúk. Norðurmörk eru um línu sem hugsast dregin frá Valsnesi í Öxnadalsá til fjalls.
Tilgangur félagsins er að reka fræðasetur í Hrauni, tengt lífi og starfi Jónasar Hallgrímssonar, kynna líf hans og starf og vinna að því efla lifandi og sögulega menningu en jafnframt að reka fólkvang – náttúrulegt útivistarsvæði fyrir almenning – í landi jarðarinnar.
Á tvö hundruð ára afmæli Jónasar 16. nóvember 2007 var í Hrauni opnuð yfirlitssýning þar sem brugðið er upp svipmyndum úr ævi fyrsta nútímaskálds Íslendinga sem með ljóðum sínum fann fegurð íslenskrar náttúru og mótað hefur íslenskar bókmenntir og list hartnær tvær aldir. Á sýningunni er lýst ljóðmáli og myndlíkingum í kvæðum hans og gerð grein fyrir nýyrðasmíð hans, en Jónas var einn fyrsti menntaði náttúrufræðingur Íslendinga og fékk innblástur frá fjölbreyttri náttúru heimabyggðar sinnar, eins og víða kemur fram í ljóðum hans og öðrum verkum.
Íbúð fyrir rithöfunda, listamenn og fræðimenn
Í steinhúsi, sem reist var 1933 á grunni gamla torfbæjarins þar sem Jónas fæddist, rekur menningarféagið íbúð sem rithöfundar, listamenn og fræðimenn geta leigt viku og viku í senn, frá föstudegi til föstudags. Leigutími hefst klukkan 16:00 og lýkur á hádegi. Húsið hefur verið gert upp frá grunni, einangrað í hólf og gólf, sett á það nýtt þak, lagnir endurnýjaðar og allt málað í gömlu bændalitunum dönsku til að minna á tengsl Jónasar við Danmörku. Húsið er kjallari, hæð og ris, alls um 130 m2. Á hæðinni er eldhús og snyrting með baði. Í eldhúsi og geymslu inn af eru áhöld til matseldar og þrifa.
Á hæðinni eru auk þess tvær stofur, suðurstofurnar, þar sem er yfirlitssýningin er, en stofurnar eru ekki til afnota fyrir gesti. Sýningin er opin um helgar í júlí frá klukkan 14:00 til 17:00 og er þar þá sérstakur gæslumaður. Í risi eru tvö svefnherbergi. Úr vesturherberginu, rauða herberginu, blasir Hraundrangi við þar sem ástarstjarnan skín á bak við ský. Úr austurherberginu, bláa herberginu, sést bakkafögur á í hvammi. Norðurherbergið, gula herbergið, er vinnuherbergi þar sem einnig er svefnbekkur. Úr því sést norður Öxnadal og Hörgárdal til Eyjafjarðar. Sex manns geta sofið í þessum þremur herbergjum. Í risi er einnig snyrting og geymsluherbergi fyrir föt og búnað. Í kjallara eru geymslur. Sængur og koddar eru í húsinu, en gestir verða að hafa með sér sængurföt, handklæði, diskaþurrkur, borðklúta og hreinlætisvörur. Sjónvarp er í eldhúsi en ekki útvarp né sími en GSM samband og 3G nettenging.
Umsóknir um dvöl að Hrauni skal senda undirrituðum á netfangið tryggvi.gislason@simnet.is. Leigugjald á viku er 20.000 krónur. Skal greiða það í reikning Hrauns í Öxnadal ehf nr 0565-14-401487, KT 440703-3560, tveimur vikum áður en leigutími hefst. Verða þá sendar upplýsingar um talnalykla að húsinu og öryggiskerfi þess.
Í húsinu er öryggis- og brunakerfi tengt SECURITAS. Við komu taka gestir lykil í lyklakassa við kjallaradyr. Innan kjallaradyra er stjórnborð öryggiskerfisins. Við komu er slegið öryggisnúmer til að aftengja kerfið. Þegar farið er úr húsi skal öryggiskerfið tengt með því að ýta á hnapp í stjórnborði þar sem er að finna frekari leiðbeiningar. Húsið er hreint þegar komið er að því og þannig skal því skilað. Ryksuga, þvegill og fata eru í húsinu. Sorppoki er á grind við kjallaradyr. Við brottför skal honum komið í gám, t.d. við h
Á bænum Engimýri hinum megin ár er rekin ferðaþjónusta, bæði gisting og veitingasala. Þar er boðið er upp á mat úr héraði. Sjá frekar http://www.engimyri.is/. Við Þelamerkurskóla á Laugalandi, um 10 km norðar í dalnum, er sundlaug og íþróttahús og þar eru skrifstofur Hörgársveitar sem er aðili að rekstri Jónasarseturs á Hrauni í Öxnadal. Frá Hrauni til Akureyrar eru um 30 km. Þangað er styst í verslanir og almenna þjónustu.
Með von um að dvöl í Hrauni í Öxnadal verði ánægjuleg og gefandi.
Tryggvi Gíslason
FORMAÐUR STJÓRNAR