Hagþenkir þarf framvegis að taka 22 % fjármagnstekjuskatt af hverri þóknun og skila til Ríkisskattstjóra. Endurskoðandi félagsins sér um forskráningar í skattskýrslur þeirra sem hljóta þóknun. Þann 1. janúar 2020 tóku gildi ný ákvæði um skattlagningu af höfundaréttarvörðu efni. Breytingin felst helst í því að tekjur vegna síðari afnota verða nú skattlagðar sem fjármagnstekjur þ.e. 22% skattur í stað 36,94% (tekjuskattur+útsvar).
Greiðslur sem teljast til fjármagnstekna eru greiðslur sem greiddar eru til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota á höfundarverki og falla undir 3. gr. skulu ávallt teljast til fjármagnstekna einstaklings án nokkurs frádráttar. Eftirfarandi greiðslur vegna ritstarfa:
1. Frá samtökum rétthafa.
2. Síðari afnot höfundarverks vegna upplesturs eða annars konar nýtingar á áður birtu ritverki höfundar í útvarpi eða öðrum miðli eftir frumsköpun þess.
3. Bætur sem falla undir höfundalög vegna síðari afnota, s.s. vegna nýtingar í formi löglegrar ljósritunar, eintakagerðar til einkanota, Hljóðbókasafns og endurbirtingar námsefnis.
4. Tekjur frá samtökum rétthafa sem stafa af grunnréttindum samkvæmt höfundalögum.
5. Útleiga bókar í gegnum áskriftar- og/eða streymisveitur.
6. Afnot bóka á bókasöfnum sem rekin eru á kostnað ríkissjóðs eða sveitarfélaga, sbr. lög nr. 91/2007 um bókmenntir.
7. Aðrar tekjur rétthafa vegna síðari afnota eftir frumsköpun höfundarverks.
Greiðslur til rétthafa vegna aðlögunar höfundarverks með yfirfærslu frumverks í nýjan búning vegna síðari afnota þess skulu einnig teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar. Hér undir falla tekjur af síðari afnotum á frumsköpun höfundar hvort sem frumhöfundur gerir það sjálfur eða aðrir menn með hans leyfi eftir því sem lög krefjast. Sem dæmi um greiðslur sem falla hér undir eru greiðslur af ýmsum réttindum, s.s. vegna kvikmynda, sjónvarpsmynda, leikgerðar, tónsmíða og þýðinga vegna nýtingar frumverks.