Framsækið þróunarverkefni um nýtingu gervigreindar í íslensku menntakerfi

Nýlega samþykkti stjórn Hagþenkis tilboð Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu (MMS) um viðbót við rammasamninginn sem tók gildi 16. janúar 2023 og byggir á fyrri samningi við MMS og Námsgagnastofnunar:   https://hagthenkir.is/samningar-vid-namsgagnastofnun-menntamalastofnun/

Samningurinn gildir fyrir birtingu námsefnis í heild sinni á lokuðum námsefnisvef sem nýtir gervigreind og greiðir MMS umfram það sem upp er talið í samningum eins og hann er í dag. Ákvæðið kveður á um 7% viðbót sem gildir í eitt ár og verður endurskoðað eftir ár. 
Í bréfum frá MMS til stjórnar Hagþenkis kom fram að sú skapandi gervigreind sem um ræðir verði nýtt sérstaklega í að leita að námsefni og styðja við kennara við að aðlaga námsefni fyrir börn með sérþarfir. Einnig mun þessi tækni sérstaklega vera þróuð fyrir börn sem nýlega hafa flust til landsins. Hér er um að ræða sérsniðna lausn sem að mati MMS mun þjóna sameiginlegum hagsmunum námsefnishöfunda og MMS og stuðla að faglegri notkun efnis sem þegar er til.
Áður en Hagþenkir féllst á tilboð MMS hafði stjórn félagsins tekið undir áhyggjur Rithöfundasambands Íslands um að varhugavert væri að ganga til samninga um nýtingu tækni fyrirtækis eins og Anthropic sem hefur verið mikið í fréttum vegna höfundarréttar og skapandi gervigreindar. Eftir samtal við MMS ákvað stjórnin hins vegar að taka tilboðinu og fylgjast náið með hvernig innleiðingunni mun vinda fram.
 

04. nóv. 2025 – Mennta- og barnamálaráðuneytið, frétt af vef stjórnarráðsins.

Gervigreind tveggja leiðandi fyrirtækja á heimsvísu verður notuð í þróunarverkefni sem kanna mun nýtingu og gagnsemi hennar í íslensku skólastarfi undir leiðsögn íslenskra kennara. Verkefnið er nú að hefjast og er markmið þess að styðja við kennara, ráðgjafa og skólastjórnendur í notkun gervigreindar við kennslu.

Sjá nánar á stjornarradid.is