Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna og kvára, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 7. mars 2024. Verðlaunin hlutu:
Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis: Með verkum handanna. Íslenskur refilsaumur fyrri alda, eftir Elsu E. Guðjónsson. Lilja Árnadóttir bjó til prentunar
Í flokki barna- og unglingabókmennta: Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina, eftir Margréti Tryggvadóttur
Í flokki fagurbókmennta: Móðurást: Oddný, eftir Kristínu Ómarsdóttur
Þetta í átjánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í níunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Einar Þorsteinsson gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.
Rökstuðningur dómnefnda
Móðurást: Oddný eftir Kristínu Ómarsdóttur
Í Móðurást: Oddný segir Kristín skáldaða sögu langömmu sinnar, Oddnýjar Þorleifsdóttur. Hún elst upp í stórum systkinahópi í uppsveitum Árnessýslu á seinni hluta nítjándu aldar og er sagan sögð frá sjónarhóli barnsins. Lífið er sannarlega ekki auðvelt hjá fjölskyldunni en bókin er uppfull af húmor og gefur lesandanum nýja og ferska sýn á fortíðina. Sorgir og dauðinn eru eilíflega nærri en lífið snýst um svo margt stærra og meira. Textinn er ákaflega fallegur og ljúfsár og færir sagan okkur nær formæðrum okkar. Kristínu tekst afar vel upp á nýjum söguslóðum á ferli sínum.
Með verkum handanna. Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson, Lilja Árnadóttir bjó til prentunar
Hin merka saga íslenskra refilsaumsverka birtist loks lesendum í stórvirkinu Með verkum handanna. Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson. Líkt og umfjöllunarefnið er bókin fögur, kaflarnir yfirgripsmiklir, aðgengilegir lesendum og vekja áhuga á rannsóknarefninu. Þá er framsetning ritstjóra bókarinnar áhrifamikil en greinum fræðimanna er ofið inn í heildartextann á hátt sem undirstrikar áhrif ævistarfs Elsu E. Guðjónsson á alþjóðlegan fræðaheim.
Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti Tryggvadóttur
Í bókinni Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina fjallar Margrét Tryggvadóttir um listafólkið sem lagði grunn að íslenskri listasögu. Að auki greinir hún í stuttu máli frá ýmsum aðferðum sem notaðar eru við listsköpun. Bókin er einstaklega vel unnin, umbrotið vandað, myndirnar vel valdar og textinn á fallegu máli. Hér er á ferðinni sannkallað listaverk sem er um leið mjög fróðlegt og vekur áhuga á listum.
Í dómnefndum sátu:
Fagurbókmenntir:
- Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
- Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
- Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur
Fræðibækur og rit almenns eðlis:
- Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
- Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
- Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði
Barna- og unglingabókmenntir:
- Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
- Guðlaug Richter, íslenskufræðingur
- Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku