Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Lilju Alfreðsdóttur um nýja bókmenntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030.
Nýrri bókmenntastefnu er ætlað að hlúa enn betur að bókmenntamenningu til framtíðar. Í stefnunni er birt framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og jafnframt þrjú meginmarkmið sem aðgerðirnar skulu styðja við. Meginmarkmiðin snúast um fjölbreytta útgáfu á íslensku til að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu; um aukinn og bættan lestur, ekki síst meðal ungra lesenda; og hvatning til bókasamfélagsins um nýsköpun sem taki mið af tækniþróun og örum samfélagsbreytingum.
Aðgerðaáætlunin hefur að geyma 19 aðgerðir sem skipt er upp í fjóra flokka: Umgjörð og stuðningur; Börn og ungmenni; Menningararfur, rannsóknir og miðlun; og Nýsköpun og sjálfbærni. Aðgerðirnar leggja ekki síst áherslu á börn og ungmenni annars vegar og íslenska tungu hins vegar en víða er komið við.
Ein stærsta aðgerðin sem boðuð er í áætluninni snýst um endurskoðun á því regluverki og þeirri umgjörð sem hið opinbera hefur komið upp í tengslum við bókmenntir og íslenskt mál. Þar eru undir lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, lög um bókmenntir, lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, bókasafnalög o.fl. Í þeirri endurskoðun er brýnt að hugað verði að breyttu landslagi tungu og bóka vegna tilkomu gervigreindar, máltækni, streymisveitna og annarrar tækni sem er í hraðri þróun þessi misserin.
Bókmenntastefnan var gerð í samvinnu við hagsmunaaðila sem lögðu til grundvöllinn í stefnunni og aðgerðunum. Sjá greinargerð frumvarpsins: https://samradapi.island.is/api/Documents/af88c1f2-41dd-ee11-9bc1-005056bcce7e
Fjölmargar umsagnir bárust í samráðsgátt Alþingis þar á meðal frá Hagþenki. Linkar á umsagnirnar:
https://island.is/samradsgatt/mal/3701
Bóknenntastefnan https://samradapi.island.is/api/Documents/af88c1f2-41dd-ee11-9bc1-005056bcce7e
Fréttin byggir á aðsendri grein Lilju Alfreðsdóttur í Morgunblaðinu.