Bókakynning | Lífríki Íslands og Ofbeldi á heimili, 29. apríl kl. 12.15 – 13.

Fyrirlestraröð Hagþenkis á Borgarbókasafni Menningarhúsi Grófinni. Tryggvagötu 15. Ókeypis aðgangur

 
""
Að þessu sinni verða kynntar tvær bækur af ólíkum toga. Lífríki Íslands. Vistkerfi lands og sjávar eftir Snorra Baldursson og Ofbeldi á heimili – Með augum barna eftir Guðrúnu Kristinsdóttur.
 
Bók Snorra er fyrsta heildstæða yfirlitið um lífríki landsins frá fjallsbrún niður í hafdjúpið og þar með einstætt fræðslu- og fræðirit. Hún byggir á hundruðum vandaðra rannsókna íslenskra og erlendra vísindamanna á lífríki, líffræðilegri fjölbreytni og vistkerfum einstakra svæða. Náttúra Íslands skipar stóran sess í hugum og hjörtum landsmanna. Hún er mærð í skáldskap, lofsungin við landkynningu, menn sækja til hennar hugarró og innblástur og nýta hana sér til viðurværis. En hvað býr að baki því sem fyrir augu ber? Hvers konar líf þrífst við ólík skilyrði um allt land? Og hvað gerist ef áföll dynja yfir lífríkið hér á norðurhjara? Í bókinni er leitast við að svara ofangreindum spurningum með því að rýna í vistkerfi lands og sjávar.
 
Í bókinni Ofbeldi á heimili – Með augum barna kemur í ljós að börn hafa margt að segja um heimilisofbeldi. Þau hafa skoðanir á því og vilja fræðast um það. Þau sem hafa eigin reynslu af því gefa öðrum börnum í sömu stöðu ýmsar ráðleggingar um hjálpleg viðbrögð við þessari hættu. Guðrún hlaut viðurkenningu Hagþenkis 2014 fyrir bók sína sem er framlag til rannsókna á heimilisofbeldi, vanrækslu og misbeitingu gagnvart börnum og mæðrum og er jafnframt innlegg í baráttuna gegn þessu alvarlega þjóðfélagsmeini. Í rannsókninni var leitað til barnanna sjálfra til að athuga hvaða hugmyndir þau hefðu um heimilisofbeldi. Niðurstöðurnar leiddu meðal annars í ljós að viðhorf drengja og stúlkna eru nokkuð ólík og að vitneskja þeirra er oft meiri en foreldrar halda. Aðrir höfundar ritsins auk Guðrúnar eru:  Ingibjörg H. Harðardóttir, Margrét Ólafsdóttir, Margrét Sveinsdóttir, Nanna Þ. Andrésdóttir og Steinunn Gestsdóttir.
 

 

Bækurnar voru tilnefndar til Viðkenningar Hagþenkis 2014 en verðlaunin voru afhent í byrjun mars. Um er að ræða fimmta viðburðinn í fyrirlestraröð Hagþenkis sem haldin er í samstarfi við Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið sem kynnir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings sem þykja skara framúr.
 
Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að viðurkenningarráð tilnefnir tíu höfunda og bækur er til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum til tveggja ára í senn, stendur að valinu og hóf störf í október.
 
Nánari upplýsingar veita:
 
Friðbjörg Ingimarsdóttir, framkvæmdastýra Hagþenkis,
netfang: hagthenkir@hagthenkir.is,  s: 551 9599  /  868 9725
 
Guðrún Dís Jónatansdóttir deildarstjóri viðburða, fræðslu og miðlunar,
netfang: gudrun.dis.jonatansdottir@reykjavik.is, s: 822 2651 og 411 6115
Borgarbókasafn | Menningarhús Grófinni
Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík.
www.borgarbokasafn.is