Björk Ingimundardóttir hlýtur viðurkenningu Hagþenkis

                                                                                                                                                               

""Viðurkenning Hagþenkis var veitt 4. mars í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn, og hana hlaut Björk Ingimundardóttir fyrir ritið, Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi I–II,  sem Þjóðskjalasafn gaf út. Í ályktunarorðum viðurkenningaráðsins sagði um ritið: Yfirgripsmikið uppflettirit ásamt kortum sem auðveldar yfirsýn yfir sögu landsins og á eftir að nýtast í margvíslegum rannsóknum um langan aldur. Sagnfræðilegt stórvirki.

Viðurkenninguna veitti formaður Hagþenkis Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr. Tónlist flutti Ragnheiður Ólafsdóttir. 

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt Viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað félagsmönnum til tveggja ára í senn, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða rit og höfundur hlýtur Viðurkenninguna. Í Viðurkenningarráðinu fyrir útgáfuárið 2019 sátu: Ásta Kristín Benediktsdóttir, Kolbrún S. Hjaltadóttir, Lára Magnúsardóttir, Snorri Baldursson og Þórólfur Þórlindsson.

Þakkarræða Bjarkar Ingimundardóttur:

Stjórn Hagþenkis og viðurkenningarráð, góðir samkomugestir.

 

Ég þakka af alhug fyrir þá viðurkenningu og fögur orð, sem rit mitt Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi hefur hlotið. Viðurkenningin, mér algerlega óvænt, gleður mig mikið, ekki sízt vegna Þjóðskjalasafns Íslands, sem stóð fyrir útgáfunni og ég vil þakka það sérstaklega.
Í upphafi heyrðum við lagið „Næturljóð úr Fjörðum“ eftir Böðvar Guðmundsson, en þar er minnst kirkjusóknar, löngu eyddrar.
Kveikjan að þessum bókum varð til fyrir 35 árum, þegar ég hóf endurskráningu skjalasafna presta og prófasta í Þjóðskjalasafni Íslands en bækurnar hef ég helgað minningu föður míns Ingimundar Ásgeirssonar og Ólafs Ásgeirssonar þjóðskjalavarðar sem hvatti mig til þess að taka þær saman. Við skráninguna varð mér ljóst, hvílíkar breytingar hefðu orðið á skipun prestakalla, sókna og prófastsdæma síðan um miðja 18. öld, þegar lögboðin færsla prestsþjónustubóka og sóknarmannatala hófst. En þær heimildir eru grundvöllur þekkingar okkar á lífi forfeðra okkar frá vöggu til grafar. Mér þótti full þörf á því að gera skilmerkilega grein fyrir öllum þeim breytingum til þess að auðvelda notkun þessara skjala og tengja þau við heimildir í öðrum embættisskjalasöfnum.
            Prestar þurftu fyrrum að sinna margháttuðum hlutverkum, ekki aðeins hefðbundnum prestsverkum svo sem messum, skírn og greftrun. Þeir höfðu eftirlit með fræðslu barna og uppeldi og önnur eftirlits-, upplýsinga- og samfélagsstörf. Þá urðu þeir að annast eignir kirkna sinna og standa á þeim skil. Prófastar áttu að líta eftir starfsemi presta og voru milligöngumenn við æðri stjórnvöld. Í skjalasöfnum presta og prófasta eru því fjölþættar heimildir um Íslendinga og íslenzkt samfélag. Þar má finna upplýsingar um persónusögu, trúarlíf, menntun, heilsufar, búskaparhætti, listir, efnismenningu, byggingarsögu, landnotkun og félagslíf.
            Sókna- og prestakallaskipun á Íslandi hefur í mörgum tilvikum gengið þvert á hreppaskipun og jafnvel farið yfir sýslumörk. Sókn var ekki endilega landfræðilega afmörkuð eining, bæir stundum eins og eyjar inni i öðrum sóknum, flökkuðu milli jafnvel sókna, og prestakall var ekki endilega myndað af samliggjandi sóknum. Prófastsdæmi fylgdu fyrrum gjarnan sýslumörkum en það breyttist mikið á 19. og 20. öld samfara miklum breytingum á prestaköllum. Því þótti mér við hæfi að gera skilmerkilega grein fyrir tengslum sókna og hreppa, svo að auðveldara væri að samhæfa gögn úr skjalasöfnum presta og prófasta við skjöl hreppa og sýslumanna, þar sem stjórnsýsluumdæmin eru í mörgum tilfellum ólík.
            Í upphafi miðaði ég fyrri tímamörk ritsins við miðja 18. öld en fór síðan að kanna eldri heimildir í leit að al- og hálfkirkjum, en í máldögum má stundum sjá, hvaða bæir mynda kirkjusókn og hver var fjöldi tíundar- og ljóstollaskyldra bæja. Elztu heimildirnar eru frá 12. öld. Síðari tímamörk eru árslok 2017 og miðuð við þær prestakalla- og prófastsdæmabreytingar, sem höfðu þá verið samþykktar á kirkjuþingi.
            Bækurnar skiptast í fjóra þætti. Fyrstur er inngangur, þar sem lýst er aðdraganda verksins, fjallað um vinnuaðferðir og heimildir, ekki sízt svæðisbundnar vegna ólíkra stjórnsýsluumdæma, rætt um kirkjur og sóknir fyrir siðaskipti, þá um breytingar á sóknaskipun eftir siðaskipti og prestakalla- og sóknabreytingar frá upphafi 18. aldar og fram á þá tuttugustu, síðan um áhrif byggðasamdráttar á prestaköll og sóknir á 20. og 21. öld og loks um sérkennilegar prestakalla- og sóknaskipanir og örðuga kirkjusókn.
Annar þáttur er hreppar, prestaköll og sóknir, en þar eru talin sveitarfélög eins og þau voru frá því um 1700 og fram til 1990, þegar sameining sveitarfélaga hófst fyrir alvöru. Sagt, hvaða prestakalli eða köllum og hvaða sóknum hver hreppur tilheyrði og hvenær breytingar urðu. Farið er sólarsinnis kringum landið og byrjað á Skeggjastöðum á Langanesströnd að fornri venju en þar hófst Skálholtsbiskupsdæmi. Sama á við í þriðja þættinum, þar sem fjallað er um einstök prestaköll og sóknir. Hvert prestakall fær sérstaka umfjöllun en aðaláhersla lögð á sóknir, því að þær eru grunnstoðir prestakallanna og víða var prestakallið aðeins ein sókn.
Umfjöllun um hverja sókn er í tveimur lögum: Í því fyrra er getið sóknarbæja eins og þeir eru taldir í Jarðatali á Íslandi eftir Jón Johnsen, sem kom út árið 1847, og síðan fjallað um þær breytingar, sem orðið hafa á sókninni frá því á 18. öld og til ársins 2017. Í síðara laginu er litið til eldri heimilda, allt frá Íslenzku fornbréfasafni til visitasíubóka biskupa og auk þess taldar aðrar kirkjur, sem vitað er um í sókninni, fyrst og fremst alkirkjur og hálfkirkjur, sem voru tíundarskyldar. Loks er fjallað um prestakallið sjálft og breytingar á því, sameiningar og niðurlagnir. Fjórði þátturinn er prófastar og prófastsdæmi. Sagt er frá hlutverki prófasta og launamálum þeirra en síðan gerð grein fyrir prófastsdæmum og þróun þeirra. Raunar eru harla litlar heimildir til um prófastsdæmi fyrir siðaskipti. Það er nokkuð sérlegt, að prestaköll, sem voru í tveimur sýslum, skiptust eiginlega milli prófastsdæma. Í Selvogsþingum til dæmis var Strandarkirkja í Árnessýslu en Krýsuvíkurkirkja í Gullbringusýslu. Presturinn, sem sat í Vogsósum í Árnessýslu, var undirmaður prófastsins í Árnessýslu, en prófasturinn í Kjalarnesprófastsdæmi vísiteraði kirkjuna í Krísuvík. Í upphafi 19. aldar voru prófastsdæmi á Íslandi 19 en síðar 21. Árið 1970 urðu þau 15, en nú eru þau 9.
            Heimilda um prestaköll og sóknir og breytingar á þeim frá því á 18. öld og til ársins 2017 leitaði ég fyrst og fremst í áðurnefndu Jarðatali á Íslandi eftir Jón Johnsen, aðalmanntölum og sóknarmannatölum, Lovsamling for Island, Tíðindum um stjórnarmálefni Íslands og Stjórnartíðindum og síðustu árin í gerðum kirkjuþings, sem ég fann á vefnum. Ákvarðanir stjórnvalda þurfti þó að skoða með varkárni, sumar komust ekki í framkvæmd, aðrar löngu síðar (í einu tilviki meir en 100 árum síðar) og sumar breytingar voru í raun um garð gengnar, þegar lög voru sett. Aðrar voru ekki auglýstar. Því þurfti að róa á mörg mið í heimildaleitinni og tilviljanir og hugdettur reyndust oft hjálplegar. Íslenzkt fornbréfasafn, Alþingisbækur Íslands, Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og elztu vizitasíubækur Skálholtsbiskupa voru aðalheimildir mínar um kirkjur og sóknir á fyrri öldum, en í lútherskum Hólabiskupum, öðrum en Guðbrandi Þorlákssyni og Bauka-Jóni Vigfússyni, var lítil stoð.
            Magnús Stefánsson, fyrrum prófessor við háskólann í Björgvin, tók saman miklar upplýsingar um sóknarkirkjur á Íslandi fyrir siðaskipti. Taldi hann þær hafa verið 346 um 1300 en 332-333 um 1570. Eftir siðaskipti var gengið fast fram í því að fækka hálfkirkjum en alkirkjum miklu síður. Við athugun á skrá yfir prestaköll, tekjur þeirra og sóknarkirkjur frá árinu 1746 telst mér til, að prestaköll á Íslandi hafi þá verið 191 en sóknarkirkjur sennilega 322. Á 18. öld lögðust niður ein 6 prestaköll, í einu var ein jörð, öðru tvær, en útkirkjum og hálfkirkjum fækkaði mun meir. Á 19. öld varð allmikil fækkun prestakalla, kirkjur lagðar niður og sóknir sameinaðar. Samkvæmt fyrirmælum laga frá árinu1880 skyldu prestaköll verða 141 og sóknir 289. Ný lög voru sett árið 1907 og áttu prestaköllin að verða 105 en sóknir 277. Breytingarnar gerðust ekki í einu vetfangi. Bægisárprestakall í Eyjafirði var til dæmis ekki lagt niður fyrr en árið 1941 við lát prestsins þar. Því munu verða á vef Þjóðskjalasafns kort, sem sýna prestaköll á Íslandi árin 1801, 1890, 1920 og 1970. Byggðaþróun á 20. öld og fram á þá 21. hefur valdið miklum breytingum á prestakalla- og sóknaskipun, bæði með lagasetningu og samþykktum kirkjuþings. Sumarið 2017 voru því prestaköllin orðin 86 og sóknirnar 266 og síðan hafa orðið allmiklar breytingar.
            Ýmislegt þurfti fólk á sig að leggja til þess að sækja kirkju sína. Á bæjunum Smiðjuvík á Hornströndum og Grímsstöðum á Fjöllum til dæmis tók kirkjuferðin fimm daga. Þá eru þess dæmi, að bæir hafi farið milli sókna, verið annað hvert ár í hvorri sókn og jafnvel prestakalli eða hluta úr ári, og fólk hafi orðið að fara í gegnum aðrar sóknir til kirkju sinnar. Galtalækur í Landssveit hefur ávallt verið í Skarðssókn, en leið Galtalækjarfólks til Skarðskirkju lá til ársins 1879 um hlaðið í Klofa, þar sem einnig var sóknarkirkja. Sömuleiðis fór það framhjá Leirubakkakirkju til ársins 1765. Sóknir og prestaköll á Íslandi voru löngum undarlegt fyrirbæri.
            Ég þakka Þjóðskjalasafni Íslands fyrir liðveislu við samantekt og útgáfu þessa rits og starfsfólki safnsins fyrir hjálp þess og ítreka þakkir mínar til Hagþenkis fyrir viðurkenninguna. Beztu þakkir öll saman.
            Veturinn hefur verið mörgum erfiður en vorið nálgast og því hef ég beðið um, að flutt verði lagið „Enn syngur vornóttin“ eftir Tómas Guðmundsson og Mogens Schrader.