Arfur Tómasar postula og kristindómur á krossgötum

 

Arfur Tómasar postula og kristindómur á krossgötum

Rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða í húsi Sögufélags við Fischersund á fimmtudag klukkan 8.
Allir velkomnir.

Fyrirlesari er Jón Ma. Ásgeirsson prófessor við Háskóla Íslands

Í fyrirlestrinum verður fjallað um nokkra þætti Tómasarkristni í samhengi bókarinnar Frá Sýrlandi til Íslands: Arfur Tómasar postula (Reykjavík, 2007) eftir þá Jón Ma. Ásgeirsson og Þórð Inga Guðjónsson.

 

Þrjú rit tileinkuð Tómasi postula frá fyrstu og fram á þriðju öld, Tómasarguðspjall, Tómasarkver og Tómasarsaga, eru talin hafa myndað fornan meið á meðal frumkristinna bókmennta. Tvö fyrst töldu ritin urðu fyrst þekkt nú á dögum með fundi Nag Hammadi handritanna í Egyptalandi árið 1945 en Tómasarsaga, og þá einkum latneskar gerðir hennar frá fjórðu öld, var þekkt í þýðingum á ýmsar tungur allt til þessa dags.

Gerð verður grein fyrir uppruna og útbreiðslu þessara rita og þá ekki síst örlögum þeirra tveggja fyrstu en þau virðast meira og minna hverfa af sjónarsviðinu undir lok fjórðu aldar. Á þeim sama tíma, eða þegar kristindómurinn tók að njóta verndar rómverska keisaradæmisins og miðstýrt kirkjuvald varð að veruleika, var fyrst markvisst unnið að því að bannfæra fjölmargar hreyfingar sem áttu sér rætur á fyrstu öldum kristindómsins og rit þeirra voru bönnuð og brennd.

Fyrst á fjórðu öld varð til málamiðlun á meðal nokkurra annarra hreyfinga og niðurstöður hennar innsiglaðar í samkomulagi um nokkurs konar safn rita sem þekkt er síðan sem hið Nýja testamenti. Þessi málamiðlun rómversku kirkjunnar hefir vissulega verið umdeild á meðal annarra kirkjudeilda oft síðan og nú á dögum leyfa leikir og lærðir sér að efast um gildi hennar og réttlæti almennt of yfirleitt.

Ágreiningur um frumkristnar hreyfingar og ritverk þeirra á sér fyrst of fremst hugmyndafræðilegar orsakir en snemma var tekist á um túlkun og merkingu orða og verka Jesú frá Nasaret. Í fyrirlestrinum verður fjallað um nokkrar helstu forsendur hugmyndafræði Tómasarkristni: hvaðan sækja ritin hugmyndafræði sína, hvaða áberandi breytingum tók hún í sögu þessara þriggja rita og hvaða breytingar urðu á Tómasarsögu í latneskri útgáfu hennar, Passio, sem er fyrirmynd hinnar íslensku þýðingar á Tómas sögu postula?

Hugmyndafræði Tómasarkristni verður jafnframt sett í samhengi rannsóknarsögu ritanna frá miðöldum til upplýsingar og frá átjándu öld til nútímans. Spurt verður hvort þær áherslur sem fram koma í spakmælum og visku eigi síður erindi til nútímans heldur en hugmyndir um holdlega upprisu eða afleiddar túlkanir á þeirri fornu hugmynd sem hvergi er að finna í hefðum tileinkuðum meistaranum frá Nasaret.