ALLIR LESA, nýr lestrarvefur og landsleikur í lestri – skráning hófst 10. október

Þann 10. október opnaði nýr lestrarvefur, Allir lesa, á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta og Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO.  Þann 17. október, verður efnt til landsleiks í lestri, þar sem hópar skrá sig til leiks og lesa til sigurs. Sá tími sem keppendur verja í bóklestur er skráður á vefinn, og það lið sem ver mestum tíma í lestur að meðaltali ber sigur úr býtum. Allar bækur eru taldar með, allt frá Harry Potter til Halldórs Laxness, myndasögum til menningarstórvirkja, kennslubókum til Kardimommubæjarins. Aðalatriðið er að skemmta sér við lestur, gera lífið áhugaverðara og lesa til sigurs.
 

 

Keppt er í þremur flokkum; skólaflokki og vinnustaðaflokki, auk opins flokks. Að auki er haldið utan um skiptingu milli kynja, aldursflokka og sveitarfélaga. Þannig geta sveitarfélögin lagt kapp sitt á að lesa betur en önnur sveitarfélög, og vakið athygli og hvatt sitt fólk áfram á samfélagsmiðlum og víðar. Í sameiningu gerum við lestur áhugaverðari, skemmtilegri og meira spennandi – fyrir alla.

Í hverju liði geta verið allt að 50 keppendur. Einn liðsstjóri þarf að vera í hverju liði, sem hefur það hlutverk að hvetja sitt fólk til dáða og aðstoða fólk við skráningu, eftir atvikum. Eigi einhverjir erfitt um vik með að skrá lesturinn inn á netið er hægt að fylla út skráningarblöð og fá liðsstjórann til að skrá fyrir sig.

Nálgast hvers kyns ítarefni, til útprentunar og birtingar á vefnum á eftirfarandi slóð: https://www.dropbox.com/sh/icqwkly2qxu6gy6/AACQAx3eknQXPOwVwmOBN3aJa?dl=0

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á netfanginu allirlesa@allirlesa.is, og sömuleiðis á vefnum, Allirlesa.is