Virðulega samkoma.
Ég þakka þann heiður sem verki mínu er sýndur með þessari viðurkenningu.
Ég vil líka nota tækifærið og þakka verðlaunanefndinni fyrir hönd allra þeirra höfunda sem voru tilnefndir þá elju og vinnu sem lögð var í að greina fræðiritin sem til álita komu. Starf í valnefndum er oftast vanmetið. Það gerir kröfur til heiðarleika og glöggskyggni, ekki aðeins um þau svið sem einstaklingum eru nálæg og kunn, jafnvel kær, heldur líka ný svið sem opnast þeim í óskyldum, jafnvel ókunnum, fræðaheimum.
Nú stend ég hér eins og hver önnur fegurðardrottning og kvaka klisjuna: Ég átti ekki von á þessu.
Íslenskt fræðasamfélag leggur á okkar dögum fram mikla og oft vanmetna vinnu við rannsóknir og útgáfu fræðirita. Í skjóli menntastofnana er partur af því starfi launaður, en í mörgum tilvikum er sá starfi unninn fyrir lítinn sem engan ábata annan en ánægjuna og svölun forvitni, sköpun í gagnasöfnun, rannsókn sem leiðir til niðurstöðu. Í mörgum tilvikum til útgáfu af einhverju tagi.
Um þessar mundir er um garð gengin verðlaunaafhending Félags íslenskra bókaútgefenda, og framundan er veiting Menningarverðlauna DV en í báðum tilvikum er litið til fræðasamfélagsins og þannig viðurkennt mikilvægi þess starfs sem Hagþenkir veitir skjól. Opinberar verðlaunaafhendingar eru hvetjandi og beina kastljósi fjölmiðla og almennings að því sem unnið er í fræðasamfélaginu og eru þannig hluti af umbun okkar í þeim ágæta félagsskap.
Stærri og þakklátari umbun veitist okkur í daglegri önn þar sem við finnum fyrir áhuga og ánægju lesenda, bæði úr okkar eigin hópi og frá þáttakendum í okkar örsmáa málsamfélagi hér við ysta haf. Að góðu verki loknu er sætt að finna þakklæti og viðurkenningu alþýðu manna. Það er umbun í sjálfu sér, en minnir okkur líka á að verk okkar eru endurgjald til samfélagsins fyrir uppeldi okkar og menntun sem við megum vera þakklát fyrir því þess atlætis njóta ekki öll mannanna börn.
Svo er þetta skjal og verðlaunaféð sem því fylgir þægileg ábót, heiður sem sómi er af og fyrir hann er ég þakklátur.
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka útgefanda, Jóhann Páll og Egill Örn: takk fyrir samfylgdina öll árin. Starfsfólkinu sem vann verkið til útgáfu, Bjarni, Nanna, Sigríður, Þórgunnur og Ásgeir. Og síðast en ekki síst Jón Ásgeir sem braut verkið um og ég átti hvað nánast samband við í hartnær hálft ár, nánast dag hvern.
Enn og aftur Hagþenkir – ég þakka fyrir mig.