Þakkarræða Guðrúnar Kristinsdóttur ritstjóra og ágrip

""

Guðrún Kristinsdóttir 5.mars 2015

Ágætu gestir, stjórn og viðurkenningarráð Hagþenkis,

Ég vil þakka hjartanlega fyrir þá viðurkenningu sem, Hagþenkir félag höfunda fræðibóka og kennslugagna, veitir bæði bók okkar Ofbeldi á heimili Með augum barna og mér sem ritstjóra hennar. Takk fyrir þennan mikla heiður. Það er engum vafa undirorpið að Hagþenkir vinnur merkilegt starf við að gæta að hagsmunum höfunda og hlúa að bættum skilyrðum í útgáfumálum . Styrkir og þóknanir félagsins eru mikils virði þeim sem njóta, auk þess að Hagþenkir gætir á margvíslegan annan hátt réttinda höfunda og veitir þeim aðstoð.
Bókin er samstarfsverkefni sex kvenna, höfundar ásamt mér eru kennarar og fyrrverandi nemar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, þær Ingibjörg H. Harðardóttir, Margrét Ólafsdóttir, Steinunn Gestsdóttir, Margrét Sveinsdóttir og Nanna Þóra Andrésdóttir en þær tvær síðastnefndu skrifuðu meistaraverkefni undir hatti rannsóknarinnar. Ég er innilega þakklát ykkur fyrir að grípa boltann og leggja mikið á ykkur í þessu samstarfi.

 

Margir eiga þakkir skyldar fyrir liðsinni við verkefnið. Fyrst er að nefna börn og unglinga, sem svöruðu skólakönnun um heimilisofbeldi og foreldra þeirra, skólayfirvöld, stjórnendur og starfslið skóla sem veittu nauðsynleg leyfi. Ómetanlegt var framlag mæðra og barna sem höfðu búið við heimilisofbeldi og sögðu frá reynslu sinni. Hjartans þakkir til Kvennaathvarfsins og starfsfólks í félags- og sálfræðiþjónustu fyrir milligöngu vegna viðtala. Verkefnið var myndarlega styrkt af rannsóknarsjóðum sem ber að þakka. Háskólaútgáfunni og ritstjórum hennar, Sigríði Harðardóttur og Agli Arnarssyni er þakkað, svo og fræðilegum ritstjóra, dr. Hildigunni Ólafsdóttur fyrir afar gagnlegan yfirlestur. Starfsfélagar við HÍ og aðrir samstarfsmenn lásu yfir og liðsinntu. Ekki má gleyma fjölskyldu og vinum sem hlustuðu og gáfu góð ráð. Takk til ykkar allra.
 
Flestir gera ráð fyrir því að heimilið sé vettvangur öryggis, andlegrar og líkamlegrar næringar. Ekki má gleymast að það eru í raun forréttindi að eiga tryggt heimili. Margir í heiminum njóta þessa ekki, þeir eru ýmist heimilislausir eða ófriður ríkir í umhverfi þeirra. Okkar viðfangsefni var heímilisofbeldi hér á landi. Á heimilum þeirra sem búa við slíkt ríkir ótryggt ástand, þar er andrúmsloftið þrungið spennu, ýmist vegna yfirvofandi árása eða þegar það stendur yfir.

Bókin er innlegg í baráttuna gegn heimilisofbeldi, andspyrna gegn þessari samfélagslegu og kynbundnu meinsemd sem verður að uppræta. Ráðast þarf að rótum þess mannréttindabrots sem þetta ofbeldi er. Málið hefur þokast ofar á forgangslista alþjóðastofnana, sérstaklega hvað snertir stöðu kvenna. Minni athygli var þó lengst af beint að börnum. En rannsóknir meðal barna sjálfra hafa aukist á síðari árum og fært okkur mörg sannindin.

Heiti bókarinnar endurspeglar það markmið að draga fram og auka þekkingu um börn og heimilisofbeldi. Leitað var til barna sjálfra til að athuga hugmyndir þeirra og reynslu. Meðal spurninga okkar voru: Hvaða vitneskju hafa börn um heimilisofbeldi? Hvernig bregðast þau við ofbeldi á heimili sínu? Hvaða áhrif hefur slíkt langvarandi ofbeldi? Hvernig finnst börnum fagaðilum og samfélagið liðsinna þeim? Draga prentmiðlar upp raunsanna mynd af þessari reynslu barna?
Niðurstöður könnunar okkar meðal um 1100 grunnskólabarna og unglinga leiddu óyggjandi í ljós að íslensk börn þekkja almennt vel til heimilisofbeldis, þau geta skilgreint hugtakið, hafa skoðanir á því og langflest leggjast gegn því, telja t.d. að átök milli foreldra séu óásættanleg. Börn í dag hafa mikinn aðgang að upplýsingum, þau vita meira og eru færari en oft er talið. Flestir tóku málaleitan okkar vel við undirbúninginn, en við mættum einnig því viðhorfi að ekki ætti að ræða við börn um svona mál. Um það er að segja að vernd barna felst í samveru og samræðu fremur en í þögn um hættur, yfirgang og ofbeldi.

Í athugun á orðræðu um heimilisofbeldi í prentmiðlum kom í ljós að börn voru næsta ósýnileg í skrifum um efnið. Slík þöggun dregur úr þekkingu á aðstæðum barna, þó að vissulega þurfi að vanda til fréttamennsku og ekki síst að benda á uppbyggilegar leiðir.
Einn hluti verkefnisins sneri að reynslu barna og mæðra sem bjuggu við langvarandi ofbeldi á heimilum. Börnin lýstu ítarlega margvíslegum birtingarformum ofbeldisins og eigin viðbrögðum, auk ráðlegginga sem þau vildu koma til barna í þessum aðstæðum. Þar brýna þau börn um að segja frá ofbeldinu, vera sterk og leita hjálpar. Börnin urðu áskynja um ofbeldið bæði beint og óbeint. Þannig segir einn drengur: „Þetta var bara alveg gert fyrir framan mig já […] og náttúrulega eitthvað gert við mig líka.“ Vert er að segja frá því að nánast allir viðmælendur, mæður og börn, höfðu komist út úr hinum hörmulegu aðstæðum.

Niðurstöðurnar eru áskorun til yfirvalda og fagaðila um aukið frumkvæði í þessum málum og um að snúa sér oftar beint til barnanna. Talsvert virtist vanta á stuðning skóla, barnaverndar og annarra fagaðila. Börnin kvörtuðu m.a. yfir löngum viðbragðstíma og yfir því að vera sniðgengin. En vonandi er tíðarandinn að breytast. Á meðan við unnum að bókinni hefur athyglin beinst meira að þessu málefni. Láti það gott á vita.

Í rannsókn okkar hefur margt komið í ljós um aðstæður barna sem búa við ofbeldi heima. Ekki má gleymast að sum þeirra eru hljóð, þau skammast sín eða eru of óttaslegin. Sum eru of sködduð  til að geta tekið þátt í rannsóknum eða að mæður þeirra og aðrir forsvarsmenn eru jafnvel of kúgaðir til að leyfa þeim það. Spyrjum um ofbeldið og hlustum á börn.

Takk fyrir.

Ágríp um Guðrúnu Kristinsdóttur
 
Guðrún Kristinsdóttir lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands, prófi í félagsráðgjöf í Danmörku, fékk sérfræðileyfi á því sviði og starfaði lengi í þjónustu við börn og fjölskyldur, m.a. við stjórnun. Hún lauk árið 1991 doktorsprófi í félagsráðgjöf, fyrst Íslendinga í þeirri grein, frá háskólanum í Umeå í Svíþjóð og varð árið 2002 prófessor í uppeldis- og menntunarfræðum við KHÍ (síðar HÍ). Frá 2005 hefur hún verið Associate Fellow við University of Warvick í Englandi. Guðrún kennir aðferðafræði rannsókna og barnavernd við Menntavísindasvið HÍ og leiðbeinir nemendum sem rannsaka velferð, líðan og réttindi barna. Hún hefur dvalið við rannsóknir og kennslu við háskóla í Ástralíu, Bandaríkjunum, Englandi og á Norðurlöndum. Rannsóknir sínar hefur Guðrún unnið ein eða í samstarfshópum með styrkjum úr norrænum og innlendum sjóðum og lúta þær einkum að fagmennsku, félagslegri færni barna, barnavernd, fóstri barna utan heimilis og heimilisofbeldi. Guðrún situr í stjórn Rannsóknarstofu í bernsku- og æskulýðsfræðum, BÆR við Menntavísindasvið HÍ og í ritstjórn Nordic Social Work Research. Hún tekur reglulega að sér að ritrýna greinar. Guðrún hlaut heiðursviðurkenningu fyrir forystuhlutverk við stofnun Ís-Forsa, Samtaka um rannsóknir í félagsráðgjöf árið 2012.
Guðrún er höfundur tímaritsgreina, bóka og kafla um nokkur ólík efni á ensku og norrænum málum. Hún varð einna fyrst til að rannsaka fóstur barna hér á landi í nútíma og birti um það greinar og bókarkafla á íslensku og ensku auk bókarinnar „Ég hef verið mjög sátt við að vera í fóstri en…“ Um reynslu ungs fólks af fóstri“, m.a. með styrk frá Barnaverndarstofu. Af síðustu ritverkum skal nefnt að bókin Ofbeldi á heimili Með augum barna sem Guðrún ritstýrði kom út 2014 hjá Háskólaútgáfunni og hlaut Fjöruverðlaunin og nú Viðurkenningu Hagþenkis 2014. Meðhöfundar bókarinnar eru kennara og fv. meistaranemar við HÍ, þær Ingibjörg H. Harðardóttir lektor; Margrét Ólafsdóttir aðjúnkt, Margrét Sveinsdóttir, sérkennslustjóri, Nanna Þ. Andrésdóttir, fagstjóri og Steinunn Gestsdóttir, dósent.
 
Sama ár birtist rit Námsgagnastofnunar Ofbeldi gegn börnum hlutverk skóla, meðhöfundur Guðrúnar var Nanna K. Christiansen; grein ásamt dr. Jóni I. Kjaran í Pedagogy, Culture & Society um reynslu hinsegin framhaldskólanema og viðbrögð þeirra við heteronormatífu skólaumhverfi; grein í Netlu um þróun kennaranáms yfir á háskólastig, rituð ásamt Gunnari Berki Jónassyni og Allyson Macdonald og grein Guðrúnar „Kvennaathvarfið í Reykjavík. Eldmóður í þrjátíu ár, en við ætlum að gera athvörfin óþörf“ í 19. júní.