Viðurkenning 2021

Aðalheiður Guðmundsdóttir Viðurkenningarhafi Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021

Viðurkenning Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021 var veitt 2. mars við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni og hana hlaut Aðalheiður Guðmundsdóttir fyrir ritin: Arfur aldanna I: Handan hindarfjalls, Arfur aldanna II: Norðvegur. Háskólaútgáfan.

Umsögn Viðurkenningarráðsins um ritin: Vandað og yfirgripsmikið rit sem opnar heillandi baksvið fornaldarsagna fyrir lesendum.

Viðurkenninguna veitti formaður Hagþenkis, Ásdís Thoroddsen, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr. og var settur upp sýningarkassi  í Þjóðarbókhlöðunni í samstarfi við Ólaf J. Engilbertsson. Tónlist flutti Berta Dröfn Ómarsdóttir og Svanur Vilbergsson.

Þakkarávarp Aðalheiðar

Mínir vinir fara fjöld,

feigðin þessa heimtar köld;

ég kem eftir, kannske í kvöld,

með klofinn hjálm og rofinn skjöld,

brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

Þannig orti Hjálmar Jónsson, eða Bólu-Hjálmar, og mér hefur alltaf þótt eins og þetta kvæði hans talaði beint inn í heim fornaldarsagnanna, sem lýsa því einmitt svo vel hvaða hugmyndir fólk á fyrri öldum gerði sér um hernaðarsamfélag enn fjarlægari tíma. Fornaldarsögur fjalla nefnilega um átök milli ógnar, og þar með ótta, og hugrekkis eða hetjudáða. Þær fjalla um glímu fólks við miskunnarlaus örlög og þá von sem einstaklingur, framúrskarandi einstaklingur eða jafnvel hetja, getur gefið samferðafólki sínu með því að rísa upp gegn kúgun og valdbeitingu yfirvalds eða þeirra sem sækja sér vald með ofbeldi. Sögurnar fjalla þannig um samskipti fólks, erfið samskipti að vísu, og hvernig hernaðarsamfélagið breytir fólki, og getur ýmist af sér hetjur eða hefnigjarna mótherja.

Í Arfi aldanna er að finna framlag mitt til heildstæðrar rannsóknar á þessum sögum, fornaldarsögunum, en bindin verða alls fjögur. Fyrri bindin tvö fjalla annars vegar um efnivið fornaldarsagna í heimildum utan Norðurlanda og hins vegar frá Skandinavíu, þ.e.a.s. utan Íslands. Aðferðafræðin er etísk að því leyti að sögurnar eru settar í samhengi við þau spor sem efniviðurinn hefur skilið eftir sig á stóru svæði og í fjölbreyttu samhengi.

Frá því að ég byrjaði að vinna að verkinu, vann ég í raun samtímis að öllum bindunum fjórum, og þótt tvö síðari bindin séu þannig vel á veg komin er líklega talsvert í útgáfu þeirra enn, enda er rannsóknin bæði umfangsmikil og tímafrek. Ég er því ekkert að leyna því að verkefnið hefur tekið langan tíma, og hófst þegar ég var rannsóknastöðustyrkþegi hjá Rannís og síðar í tímabundinni rannsóknarstöðu Sigurðar Nordals hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Á þessum tíma lagði ég traustan grunn að verkinu öllu, en eftir að ég hóf störf sem háskólakennari minnkaði eðlilega mjög sá tími sem ég hafði til að sinna rannsókninni. E.t.v. má segja að miðað við tættan tíma háskóla-kennarans sé verkefni á borð við þetta allt of stórt. Vegna tímans sem svona rannsókn getur tekið hlýtur jafnvel að verða ákveðin hætta  á því að hugmyndir úreldist, að aðrir fræðimenn verði fyrri til að rannsaka afmörkuð viðfangsefni og birta niðurstöður sínar, og bara hreinlega að þungi verkefnisins beri mann ofurliði. En umfangið getur vissulega haft sína kosti líka, því að afmarkaðir kaflar bókarinnar hafa verið ræddir á ráðstefnum og í nokkrum tilvikum hef ég samið upp úr þeim ritrýndar greinar, þannig að þegar upp er staðið hefur tiltekið efni verið ritrýnt á tvenns konar vettvangi, sem afmarkað rannsóknarefni sem og í samhengi bókanna. Að auki hlýtur verk sem er lengi í smíðum að halda áfram að dýpka allan þann tíma sem það er í mótun.

Efnið sem ég fæst við í þessum fyrstu tveimur bindum er fjölþjóðlegt og þverfaglegt – og þótt síðari bindin tvö verði eðlilega staðbundnari og miðist við það efni sem varðveittist á Íslandi, verða þau aldrei slitin úr þessu víða samhengi, og því má segja að þegar upp er staðið verði ég búin að rekja u.þ.b. 17 alda feril og umbreytingu grundvallar-sagnaeininga, t.d. hvernig þeir Gunnar og Högni eiga sér hliðstæður í höfðingjum frá tímum þjóðflutninganna miklu, en enda svo sem bræðrapar í þulu sem var skráð á Íslandi á 19. öld, og var jafnvel tekin upp á segulband á þeirri tuttugustu. Hið sama má segja um söguhetjur á borð við þau Sigurð Fáfnisbana og Brynhildi, sem skjóta upp kollinum í sífellt nýjum birtingarmyndum, svo sem í japönskum tölvuleik, sem nýtur nú töluverðra vinsælda.

En eins og ég sagði. Verkefnið er stórt og þess vegna er hvatningin, nú þegar ég er hálfnuð, eiginlega þeim mun mikilvægari. Á þessari stundu er ég því fyrst og fremst þakklát. Ég er þakklát fyrir að til skuli vera félag eins og Hagþenkir, þ.e.a.s. fagfélag þeirra sem skrifa fræðibækur og halda þeim á lofti – og ég er þakklát dómnefndinni sem er skipuð fagfólki sem er meðvitað um þá vinnu sem liggur að baki rannsóknum. Þetta finnst mér vera mikilvægt því að í þessum hraða heimi stafrænnar miðlunar, þá er fólk oftar en ekki beðið um að gera grein fyrir rannsóknum sínum í stuttu máli, og helst skemmtilegu – og yfirborðsmennskan á þannig yfirleitt greiðari aðgang að viðtakendum. Ég tek við þessari viðurkenningu af auðmýkt, og vil þakka útgefendum mínum í Háskólaútgáfunni fyrir þeirra framlag, og sérstaklega ritstjór-unum tveimur, þeim Annette Lassen og Agli Arnarsyni. Ég vil þakka Háskóla Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Rannís, Miðstöð íslenskra bókmennta og öllum þeim sem gerðu mér kleift að rannsaka efnið, skrifa bækurnar og gefa þær út. Takk fyrir mig.