ábendingar um höfundarétt
Ábendingar um höfundarétt. (Birt í morgunblaðinu)
Grein þessi er eftir Hörð Bergmann, fyrrverandi framkvæmdastjóra Hagþenkis, og birtist í Morgunblaðinu í tilefni af Degi bókarinnar, 23. apríl 2002.
Hér á eftir fara fáeinar ábendingar um höfundarétt. Þær varða tímabær úrlausnarefni og eru birtar hér í tilefni af degi bóka og höfundaréttar.
Um þessar mundir er ástæða til að minna á að ákvæði laga um höfundarétt gilda um rafrænt efni birt á vefsíðum, í gagnabönkum eða á geisladiskum rétt eins og bækur, blöð, kvikmyndir eða hljómdiska. Opinber birting efnis í rafrænu formi lýtur sömu lögum um höfundarétt og önnur útgáfuform og þarf því leyfi hlutaðeigandi rétthafa til slíkrar birtingar.
Lög um höfundarétt eru sett til að gæta víðtækra hagsmuna, ekki einungis höfunda heldur og almennings. Með því að veita höfundum hvers konar hugverka einkarétt á að semja um útgáfu þeirra eða opinbera birtingu gefst þeim kostur á að semja um sanngjarnar greiðslur fyrir afnot af verkum sínum. En það má telja eina meginforsendu þess að skapandi menningarstarf þjóða nái að þroskast.
Höfundaréttur í skiptum starfsmanna og vinnuveitenda
Algengt er orðið að höfundaréttur taki til verka sem verða til í vinnutíma hjá stofnunum og fyrirtækjum, s.s. fræðslu- og kynningarefnis. Því er vert að minna á að réttarvernd höfundalaga er veitt fyrir persónulegt framlag höfundar til verksins, ákveðna framsetningu. Höfundaréttur verður til hjá ákveðinni persónu en ekki lögaðila (fyrirtæki eða stofnun). Þannig getur skóli eða annars konar stofnun t.d. ekki átt höfundarrétt á námsefni eða fræðsluefni sem kennari semur. Höfundur getur hins vegar framselt öðrum rétt til eintakagerðar eða opinberrar birtingar vegna höfundarréttar síns. Vinnuveitandi getur afmarkað rétt sinn til að nýta höfundarverk, sem hann greiðir vinnu við, með munnlegu eða skriflegu samkomulagi, t.d. með ákvæðum í ráðningarsamningi. Þar ætti að skýra hvaða notkunarrétt vinnuveitandinn fær gegn því að greiða höfundi laun og skapa honum starfsaðstöðu. Um frekari notkun slíkra verka, s.s. útgáfu þriðja aðila, ber að gera sérstakan samning vilji aðilar hafa sitt á hreinu. Allir sem eiga höfundarétt á verkum, sem samin eru í vinnutíma hjá stofnun eða fyrirtæki, ættu að gera sem skýrast í ráðningarsamningi hvaða rétti er framsalað til vinnuveitandans. Einnig er ástæða til að minna á svonefndan sæmdarrétt höfunda, þ. e. að ekki má gera breytingar á verki hans án leyfis og að verk ber að auðkenna höfundi með viðeigandi hætti.
Hve mikið má ljósrita samkvæmt samningum?
Á tímum afkastamikilla ljósritunarvéla og prentara er ástæða er til að minna á samninga milli rétthafasamtakanna Fjölís og menntamálaráðuneytisins vegna skóla hins opinbera og einkaskóla um ljósritun og hliðstæða eftirgerð úr útgefnum ritum. Oft gætir misskilnings um hve víðtækar heimildir til eftirgerðar eru gefnar með þeim. T.d. ber við að kennarar láta ljósrita heil verk og selja nemendum síðan í bóksölum framhaldsskóla og háskóla. Það er vitaskuld óheimilt – og verður ekki gert með löglegum hætti nema með samþykki eða samningi við hlutaðeigandi rétthafa; höfunda og útgefendur. Samningar Fjölís heimila takmarkaða ljósritun úr útgefnum verkum, stutta þætti úr hverju riti og 20% hið mesta, þó aldrei meira en 30 síður, til bráðabirgðanota, þ. e. ekki til geymslu í birgðum. Leyfi þarf hjá rétthöfum til ljósritunar eða útprentunar umfram það sem ákvæði höfundalaga og þessara samninga heimila. Einnig ber að hafa í huga að umræddir samningar taka ekki til neins konar dreifingar á efni í rafrænu formi.
Vandi sem blasir við
Telja má brýnt að þróa lausnir til að fylgjast sem best með eftirgerð og samningsbundinni dreifingu útgefins efnis í prentuðu formi og taka á dreifingu og notkun á rafrænu, vernduðu efni þannig að sanngjarnar greiðslur renni til hlutaðeigandi rétthafa. Höfundar efnis, sem er frumsamið eða endurútgefið í rafrænu formi, og útgefendur/notendur slíkra verka glíma um þessar mundir við að móta sanngjarna viðmiðun fyrir ólík verk og mismikla notkun þeirra. Oft er þörf á annars konar viðmiðun um greiðslur þegar náms- og fræðsluefni er birt á vefsíðum en gildir um útgáfu í prentuðu formi. Lengd texta er ekki heppileg viðmiðun þegar hnitmiðun og samspil texta við myndir og aðra þætti verksins skiptir mestu. Það reynist oft erfitt að meta skapandi starf til launa. Tölvu- og fjarskiptatæknin opnar í senn nýja möguleika við slíkt mat og skapar fjölda nýrra úrlausnarefna.