viðurkenning hagþenkis

viðurkenning hagþenkis

Viðurkenning Hagþenkis hefur verið veitt árlega síðan 1987. Samkvæmt skipulagsskrá um viðurkenninguna, sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 1993, skal veita hana fyrir samningu fræðirita, kennslugagna, aðra miðlun fræðilegs efnis eða rannsóknir. Sjá skipulagsskrá hér til hægri. 


viðurkenningar frá upphafi

Ólafur Gestur Arnalds. Mold ert þú – Jarðvegur og íslensk náttúra. Iðnú.

Stórvirki á sviði náttúru- og umhverfisfræði með áherslu á sérstöðu íslensks jarðvegs. Fjallað er ýtarlega um mikilvægi moldarinnar í vistkerfum þurrlendis með ríkulegum gögnum og myndefni.

Hjalti Pálsson. Byggðasaga Skagafjarðar. I.­–X. bindi. Sögufélag Skagfirðinga.

Yfirgripsmikið fjölbindaverk, skrifað af þekkingu og stutt margvíslegum heimildum ásamt fjölda ljósmynda.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. Arfur aldanna. I Handan hindarfjalls. II Norðvegur.

Vandað og yfirgripsmikið rit sem opnar heillandi baksvið fornaldarsagna fyrir lesendum

Pétur H. Ármannsson. Guðjón Samúelsson húsameistari.

Vandað og ítarlegt yfirlitsrit um ævi og verk Guðjóns Samúelssonar. Verðugur minnisvarði um manninn sem mótaði byggingarlist og skipulagsmál hins nýsjálfstæða Íslands.

Björk Ingimundardóttir. Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi I–II.
Yfirgripsmikið uppflettirit ásamt kortum sem auðveldar yfirsýn yfir sögu landsins og á eftir að nýtast í margvíslegum rannsóknum um langan aldur. Sagnfræðilegt stórvirki.

Kristín Svava Tómasdóttir. Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar.                       Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni.

Steinunn Kristjánsdóttir: Leitin að klaustrunum – klausturhald á íslandi í fimm aldir. 
„Með látlausum, en jafnframt einlægum frásagnarstíl, gefur [Steinunn] lesandanum færi á að skyggnast inn í heim og huga fræðimanns og fylgja honum eftir við hvert fótmál.“

Viðar Hreinsson. Jón lærði og náttúrur náttúrunnar.
„Með nærfærnum hætti er fjallað um ævintýralegt lífshlaup manns á mörkum forneskju og nútímafræða í samhengi við evrópska vísindasögu.“

Páll Baldvin Baldvinsson: Stríðsárin 1938–1945.
„Í þessu umfangsmikla verki er dregin upp fjölbreytt og áhrifarík mynd af ljósum og dökkum hliðum stríðsáranna, samfélagslegum átökum og örlögum einstaklinga.“

Guðrún Kristinsdóttir (ritstj.): Ofbeldi á heimili. Með augum barna.
„Merkilegt brautryðjandaverk sem á ríkt erindi við kennara, foreldra og alla sem láta sér annt um börn og velferð þeirra.“

Hjörleifur Stefánsson: Af jörðu – íslensk torfhús.
„Efnismikið og heilsteypt ritverk sem opnar augu lesandans fyrir þætti torbæjanna í íslenskum menningararfi.“

Jón Ólafsson: Appelsínur frá Abkasíu: Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu.
„Áhrifamikil og gagnrýnin greining á kommúnismanum og Gúlagi Sovétríkjanna sem afhjúpar varnarleysi hins almenna borgara.“

Sigríður Víðis Jónsdóttir: Ríkisfang: ekkert – flóttinn frá Írak á Akranes. 
„Metnaðarfullt verk sem samþættir með upplýsandi og áhrifamiklum hætti lífshlaup einstaklinga og sögulega atburði sem þeir hafa litla sem enga stjórn á.“

Una Margrét Jónsdóttir: Allir í leik. Söngvaleikir barna I – II.
„Menningarsögulegt stórvirki um söngvaleiki barna á 20. öld í tali, tónum og látbragði með samanburði við eldri hefðir á Íslandi og leiki í nágrannalöndum.“

Pétur Gunnarsson: ÞÞ í forheimskunnar landi og ÞÞ í fátæktarlandi.
„Þar sem brugðið er skærri birtu á líf og lifnað eins helsta rithöfundar Íslendinga með þeirri alvörublöndnu kímni sem hæfir viðfangsefninu.“

Sigrún Helgadóttir: Jökulsárgljúfur – Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli.
„Fyrir að gefa lesendum lykil að stórbrotnu svæði, þar sem afar vel er fléttað saman sögu, náttúrufræði og bókmenntum.“

Þorleifur Hauksson: Umsjón með útgáfu og ritun formála Sverris sögu „Fyrir yfirburða þekkingu á íslenskri stílfræði sem kristallast í vandaðri útgáfu sérstæðrar fornsögu.“

Gunnar Jónsson, Jónbjörn Pálsson og Jón Baldur Hlíðberg: Íslenskir fiskar.
„Fyrir að hafa dregið nytjaskepnur og furðukvikindi úr sjó og upp á bókarsíður, með snilldarlegum myndum og ljósu máli.“ 

Helgi Hallgrímsson og Jón Þorvarðarson
„Fyrir að hafa skilað flóknum fræðum og torræðum viðfangsefnum á ljósan og lifandi hátt til lesenda bóka sinna og opnað þeim sýn inn í fjölbreyttan heim vísindasögu, reiknilistar, raungreina og átthagafræði.“

Jóhanna Kristjónsdóttir
„Fyrir að veita sýn inn í framandi menningarheim og eyða með því vanþekkingu og fordómum.“

Viðar Hreinsson: Ævisaga Stephans G. Stephanssonar.
„Þar sem hann opnar lesendum heim skáldsins með næmleika, traustri fræðimennsku og alþýðlegri framsetningu.“

Jón Hilmar Jónsson
„Fyrir að greiða leið inn í myndríka veröld tungunnar.“

Jón Karl Helgason
„Fyrir vandaða fræðimennsku sem byggir brú milli margmiðlunar nútímans og sagnaheims fortíðar.“

Hallgerður Gísladóttir og Nanna Rögnvaldardóttir „Fyrir merk og vönduð grundvallarrit um matargerð og matargerðarlist, þjóðlega og alþjóðlega.“

1999
Jón Baldur Hlíðberg
„Fyrir að miðla fræðum á trúverðugan og heillandi hátt í myndum.“

1998
Ragnheiður Gyða Jónsdóttir
„Fyrir lifandi og áhugavekjandi kynningu menningarefnis á Rás 1 í Ríkisútvarpinu.“

1997
Iðunn Steinsdóttir og Sigurður Pálsson
„Fyrir að semja vandað og vekjandi námsefni í kristnum fræðum.“

1996
Ritstjórar Orðstöðulykils með texta Íslendingasagna: Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Guðrún Ingólfsdóttir, Örnólfur Thorsson
„Fyrir að opna nýjar leiðir að texta íslendingasagnanna og rannsóknum á þeim með því að birta textann í tölvutækri mynd ásamt orðstöðulykli.“

1995
Guðmundur Páll Ólafsson
„Fyrir að birta með fágætum hætti fróðleik um náttúru íslands og sýna fegurð hennar og gildi.“

1994
Unnsteinn Stefánsson
„Fyrir mikilsverð fræðistörf og í tilefni af útkomu ritverksins Haffræði I. og II.“

1993
Vilhjálmur Árnason

1992
Elsa E. Guðjónsson

1991
Lúðvík Kristjánsson

1990
Einar Sigurbjörnsson

1989
Gunnar Karlsson og Bókaútgáfan Bjallan

1988
Kristmundur Bjarnason

1987
Helgi Hallgrímsson

skipulagsskrá fyrir viðurkenningu

1.
Viðurkenningin heitir: Viðurkenning Hagþenkis árið ….
Hlutverk hennar er að vekja athygli á mikilvægu höfundarverki og fræðilegu framlagi.

2.
Viðurkenninguna skal veita fyrir samningu fræðirita, kennslugagna eða aðra miðlun fræðilegs efnis eða rannsóknir. Heimilt er að veita viðurkenningu fyrir eitt afmarkað verk á íslensku frá því ári sem miðað er við eða eldra verk. Einnig er heimilt að veita viðurkenningu fyrir mikilsvert framlag á lengra tímabili. Við veitingu viðurkenningar skal í senn tekið tillit til frumleika og fræðilegs eða menningarlegs gildis verkanna.

3.
Viðurkenningin felst í viðurkenningarskjali og fjárhæð, 1.500.000 kr., samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins.  Aðeins ein viðurkenning skal veitt ár hvert.

4.
Sérstakt viðurkenningarráð velur viðurkenningarhafann. Í ráðinu eiga sæti fimm fulltrúar skipaðir af stjórn félagsins til tveggja ára í senn. Skulu a.m.k. tveir koma úr röðum virkra félagsmanna. Gæta skal að því að fulltrúar komi af sem ólíkustum fræðasviðum og séu viðurkenndir sérfræðingar hver á sínu sviði. Viðurkenningarráði er heimilt að leita umsagnar sérfræðinga á viðkomandi sviði áður en endanleg ákvörðun er tekin. Framkvæmdastjóri félagsins er verkefnastjóri viðurkenningarráðs og kallar það saman til funda og er sá fyrsti haldinn í október ár hvert.

5.
Öllum félögum Hagþenkis er frjálst að koma með ábendingar um viðurkenningar-verð verk. Skulu þær hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. desember ár hvert.

6.
Viðurkenningarráð tilnefnir allajafna tíu rit og höfunda þeirra í forvali áður en viðurkenningin sjálf er veitt og skal þessi listi kynntur í fjölmiðlum eftir því sem tök er á.

7.
Að öðru jöfnu ber viðurkenningarráði að taka tillit til aðstæðna þeirra sem til greina koma.

8.
Stjórn Hagþenkis og framkvæmdastjóri standa fyrir athöfn, þar sem viðurkenningin er afhent. Fulltrúi viðurkenningarráðs gerir grein fyrir rökstuðningi viðurkenningarráðsins fyrir veitingu hennar.

Með þessum reglum fellur úr gildi fyrri skipulagsskrá samþykkt á aðalfundi Hagþenkis árið 1993.

 Reykjavík, 30. mars 2023