Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra að vinna að framkvæmd eftirfarandi bókmenntastefnu og aðgerðaáætlun fyrir árin 2025–2030.
I. FRAMTÍÐARSÝN
Að íslensk ritmenning verði kröftug og metnaðarfull og skapandi og hér þrífist fjölbreytt útgáfustarfsemi sem treysti stöðu íslenskrar tungu og lýðræðis. Starfsumhverfi rit- og myndhöfunda á Íslandi verði hvetjandi og stuðlað verði að framgangi íslenskra bókmennta á innlendum og erlendum vettvangi. Fólk á öllum aldri hafi greiðan aðgang að margvíslegu lesefni og lestur verði sjálfsagður hluti af daglegu lífi þar sem aukið læsi stuðli að bættum skilningi á samfélagslegum málefnum, málfrelsi og gagnrýninni hugsun.
II. MEGINMARKMIÐ
Bókmenntastefna 2025–2030 hverfist um þrjú meginmarkmið og stuðli aðgerðir sem fylgja stefnunni að framgangi þeirra. Meginmarkmiðin verði þessi:
1. Að stuðlað verði að sköpun á íslensku, útgáfu á íslensku og aðgengi að fjölbreyttu efni á íslensku og treysta með því stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu.
2. Að stuðlað verði að auknum og bættum lestri sem víðast í samfélaginu, með sérstakri áherslu á unga lesendur.
3. Að tryggt verði að stuðningur við sköpun og útgáfustarfsemi sé skilvirkur og taki mið af örri tækniþróun og samfélagsbreytingum
III. AÐGERÐAÁÆTLUN
Umgjörð og stuðningur.
1. Mikilvægi lesturs og sköpunar.
Stutt verði árlega við fjölbreytt verkefni sem hvetja til lesturs og sköpunar, til að mynda meðal barna og ungmenna og fólks sem ekki hefur íslensku sem fyrsta mál. Mótun slíkra verkefna taki mið af öðrum áhersluverkefnum stjórnvalda hverju sinni og fyrirliggjandi gögnum.
Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta.
Dæmi um samstarfsaðila: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, mennta- og barnamálaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, almenningsbókasöfn, skólasöfn, bókasafnaráð, viðurkenndir fræðsluaðilar og atvinnulífið.
Tímaáætlun: 2025–2030.
2. Endurskoðun regluverks.
Ráðist verði í heildarendurskoðun á regluverki og umgjörð sem snertir bókmenntir og stöðu íslenskrar tungu, bæði lögum og reglugerðum sem á þeim byggjast. Lög um bókmenntir, nr. 91/2007, og lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, nr. 130/2018, verði endurskoðuð og skoðaðir kostir þess að steypa þeim saman í ein ný lög. Bókasafnalög komi til endurskoðunar svo og reglur um greiðslur fyrir afnot efnis á bókasöfnum. Þá taki endurskoðunin mið af breyttu rekstrarumhverfi í útgáfu vegna starfsemi streymisveitna og örrar tækniþróunar á sviðum miðlunar og gervigreindar.
Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
Tímaáætlun: 2025–2026.
3. Bætt tölfræði um bókaútgáfu á Íslandi.
Lykiltölfræði varðandi lestur og útgáfu verði skilgreind og Miðstöð íslenskra bókmennta falið að annast söfnun og reglubundna miðlun hennar. Miðstöð íslenskra bókmennta verði falið að leiða vinnu við skilgreiningu lykiltölfræði, í samvinnu við hagaðila, með það að markmiði að auka gagnsæi og sameiginlega þekkingu, m.a. um þróun útgáfu og lestrarvenjur mismunandi hópa.
Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta.
Dæmi um samstarfsaðila: Félag íslenskra bókaútgefenda, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Hagstofa Íslands, bókasafnaráð, Landskerfi bókasafna.
Tímaáætlun: 2025–2026.
4. Mat á kostum fastverðsfyrirkomulags fyrir bóksölu.
Metið verði hvort fýsilegt sé að koma á fastverðsfyrirkomulagi fyrir bóksölu hér á landi, þ.e. að ákveðnar tegundir bóka skuli alls staðar kosta það sama innan ákveðinna tímamarka. Einnig hvort setja eigi skorður við sölu og/eða miðlun bóka í gegnum áskriftarleiðir streymisveita fyrr en að ákveðnum tíma liðnum frá útgáfu þeirra eins og dæmi eru um í nágrannaríkjum.
Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta.
Dæmi um samstarfsaðila: Samkeppniseftirlitið, Félag íslenskra bókaútgefenda, Rithöfundasamband Íslands.
Tímaáætlun: 2025–2026.
5. Sókn á erlenda markaði.
Þróuð verði umgjörð til að styrkja stöðu íslenskra bókmennta á erlendum markað í samráði við útgefendur, rithöfunda og þýðendur.
Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta.
Dæmi um samstarfsaðila: Íslandsstofa, Rithöfundasamband Íslands, Félag íslenskra bókaútgefenda, Bandalag þýðenda og túlka.
Tímaáætlun: 2025–2029.
6. Efling Miðstöðvar íslenskra bókmennta.
Starfsemi Miðstöðvar íslenskra bókmennta verði efld og skoðað verði að fela henni víðtækara hlutverk, m.a. í verkefnum sem tengjast þróun og framtíð íslenskrar tungu.
Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
Tímaáætlun: 2025–2030.
Börn og ungmenni.
7. Gæðastarf á skólasöfnum.
Mótuð verði opinber stefna um skólasöfn á öllum skólastigum og samstarf þeirra við almenningsbókasöfn skilgreint. Kannaðir verði kostir þess að starfrækja sérstaka skólasafnamiðstöð sem hafi það hlutverk að veita skólasöfnum um allt land þjónustu um það sem lýtur að starfi skólasafna, verði miðstöð starfsþróunar og veiti faglegan stuðning við skólasöfn.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
Dæmi um samstarfsaðila: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, bókasafnaráð, Félag fagfólks á skólasöfnum, Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímaáætlun: 2025–2030.
8. Launasjóður höfunda barna- og ungmennabóka.
Starfsumhverfi höfunda barna- og ungmennabóka verði styrkt sérstaklega, m.a. með því auknu fjármagni verði veitt í starfslaun eyrnamerkt þessum hópi höfunda.
Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
Tímaáætlun: 2025–2030.
9. Sagnaarfssjóður.
Viðbótarfjármagni verði tímabundið veitt til Barnamenningarsjóðs til að styrkja verkefni sem byggjast á og stuðla að aukinni miðlun á íslenskum sagnaarfi til barna og ungmenna.
Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, Barnamenningarsjóður.
Tímaáætlun: 2025–2027.
10. Þýðingar á bókum fyrir börn og ungmenni.
Möguleikar þess verði kannaðir að styrkja sérstaklega þýðingar á erlendum bókmenntum eða sambærilegu efni sem höfðar til barna og ungmenna á íslensku.
Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta.
Tímaáætlun: 2025–2026.
11. Sýnileiki rit- og myndhöfunda.
Stuðlað verði að aukinni kynningu og sýnileika á hlutverki og störfum rithöfunda, myndhöfunda og þýðenda, m.a. í starfi grunnskóla og framhaldsskóla, vegna mikilvægis þeirra fyrir íslenska tungu og sköpunarkraft komandi kynslóða.
Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta.
Dæmi um samstarfsaðila: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Rithöfundasamband Íslands, Hagþenkir.
Tímaáætlun: 2025–2030.
Menningararfur, rannsóknir og miðlun.
12. Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna.
Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna verði efldur og þróist með það að markmiði að skjóta styrkari stoðum undir fræðistörf og útgáfu fræðiefnis á íslensku fyrir fjölbreytta hópa lesenda.
Ábyrgð: Háskóla-, vísinda- og nýsköpunarráðuneyti.
Dæmi um samstarfsaðila: Hagþenkir.
Tímaáætlun: 2025–2030.
13. Stuðningur við óhagnaðardrifna útgáfustarfsemi.
Mótaðar verði leiðir til að efla starf óhagnaðardrifinnar útgáfustarfsemi félaga sem sinna íslenskum menningararfi og fjölbreyttu fræðastarfi.
Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
Tímaáætlun: 2025–2030.
14. Miðlun menningararfs.
Stuðlað verði að fjölbreyttu samstarfi stofnana og félaga sem vinna með íslenskar bókmenntir og menningararf með það að markmiði að bæta miðlun og auka nýsköpun fyrir íslenskan almenning og erlenda gesti.
Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta.
Dæmi um samstarfsaðila: Árnastofnun, Gunnarsstofnun, Gljúfrasteinn, Þórbergssetur, Snorrastofa, Menningarfélagið Hraun í Öxnadal.
Tímaáætlun: 2025–2030.
Nýsköpun og sjálfbærni.
15. Bætt aðgengi að textasöfnum og máltækniafurðum.
Stuðlað verði að því að útgefendur og höfundar geti miðlað á aðgengilegan hátt hluta verka sinna sem heimilt verði að nota til nýsköpunar og hugbúnaðarþróunar, til að mynda vegna lestrarkennslu eða tungumálanáms.
Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta.
Dæmi um samstarfsaðila: Árnastofnun, Rithöfundasamband Íslands, Hagþenkir, höfundarréttarsamtök, SÍM – samstarf um íslenska máltækni.
Tímaáætlun: 2025–2030.
16. Framtíð orðabókargerðar.
Mótað verði framtíðarfyrirkomulag þróunar, miðlunar og aðgengis að íslenskum gagnasöfnum á textaformi, svo sem orðabókum, í samráði við sérfræðinga og hagaðila.
Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
Dæmi um samstarfsaðila: Árnastofnun, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, háskólar, höfundaréttarsamtök, Bandalag þýðenda og túlka, SÍM – samstarf um íslenska máltækni.
Tímaáætlun: 2025–2030.
17. Nýsköpun í útgáfustarfsemi.
Leitað verði leiða til þess að styrkjaumhverfi hins opinbera stuðli að frekari nýsköpun og þróun í útgáfu og miðlun.
Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
Tímaáætlun: 2025–2030.
18. Fræðsla og ráðgjöf um höfundarétt.
Miðstöð íslenskra bókmennta verði falið aukið hlutverk við fræðslu til almennings og ráðgjöf til höfunda varðandi höfundaréttarmál, með hliðsjón af nýjum áskorunum vegna þróunar gervigreindar og breyttra miðlunarleiða.
Ábyrgð: Miðstöð íslenskra bókmennta.
Dæmi um samstarfsaðila: Rithöfundasamband Íslands, Hagþenkir, höfundarréttarsamtök, fjölmiðlanefnd.
Tímaáætlun: 2025–2030.
19. Sjálfbærni.
Sjálfbærnihugsun í bókaútgáfu verði efld og hugað að því hvernig minnka megi kolefnisspor í framleiðslu og neyslu bóka.
Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, Félag íslenskra bókaútgefenda.
Tímaáætlun: 2025–2030.
Greinargerð.
1. Inngangur.
Með þessu skjali leggur menningar- og viðskiptaráðherra fram bókmenntastefnu til ársins 2030 til meðferðar á Alþingi. Stefnan var áður lögð fram á 154. löggjafarþingi, mál 930, þingskjal 1387. Við meðferð málsins hjá allsherjar- og menntamálanefnd bárust athugasemdir frá 11 hagsmunaaðilum. Ráðuneytið gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum varðandi þær athugasemdir á fundi hjá nefndinni 22. maí og sendi nefndinni í kjölfarið skriflega greinargerð þar að lútandi. Athugasemdirnar leiddu ekki til breytingar á tillögunni þá og hún er nú lögð fram að nýju í nær óbreyttri mynd.
Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá því í nóvember 2021 er fjallað um áhersluatriði ríkisstjórnarinnar. Þar segir:
„Menning og listir eru bæði uppspretta og birtingarmynd fjölbreytts og sterks samfélags. Við ætlum áfram að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný tækifæri fyrir íslenska listamenn. … Íslensk tunga er dýrmæt auðlind og á stóran þátt í að skapa sterkt samfélag. Íslenskan er tenging okkar við sögu okkar og menningu og mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu. Við ætlum að styðja við tunguna með því að leggja áherslu á að íslenskan sé skapandi og frjór hluti af umhverfi okkar.“
Einnig er tekið fram að sérstök áhersla verði lögð á að börn og ungmenni nýti tungumálið í leik og námi og með því að hlúa að barnamenningu. Þá er þar tekið fram að áfram verði unnið að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna með sérstakri áherslu á að starfslaun tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar. Þessi áhersluatriði í stjórnarsáttmálanum hafa sterka tengingu við þá bókmenntastefnu sem hér er sett fram.
Nauðsynlegt er að taka af allan vafa um það strax í upphafi hvað átt er við með bókmenntum í stefnunni þar sem merking hugtaksins getur verið bæði þröng, t.d. þegar hugtakið er aðeins notað um svokallaðar fagurbókmenntir, eða víð og látin ná yfir mun stærri flóru bókmennta. Í bókmenntastefnunni er hugtakið notað í víðri merking og látið ná jafnt yfir fagurbókmenntir sem afþreyingarbókmenntir, ástarsögur sem bækur um vísindi, ljóð jafnt sem laust mál og bókmenntir ætlaðar fullorðnum jafnt sem þeim sem skrifaðar eru fyrir börn og ungmenni. Bókmenntir merkja hér alla flóru bókmenntanna án tillits til þess hvað þær fjalla um eða hverjum þær eru ætlaðar. Í þessu sambandi er rétt að halda því til haga að enda þótt bróðurpartur íslenskra bókmennta sé skapaður á íslensku þarf svo ekki endilega að vera. Hægt er að líta svo á að til þeirra teljist einnig bókmenntir sem skrifaðar eru á öðrum málum ef sköpunin fer fram á Íslandi eða fjallar um íslenskan veruleika. Hugtakið er einnig óháð því hvernig bókmenntum er miðlað og á því jafnt við um bókmenntir sem birtar eru sem prentaðar bækur, hljóðbækur eða rafbækur. Þann varnagla þarf þó að slá að í bókmenntastefnunni er ekki fjallað sérstaklega um námsbækur eða önnur kennslugögn enda þótt sumt af því sem fram kemur í stefnunni geti einnig átt við slíkar bækur enda er hægt að nota bæði fræðibækur og skáldskap til kennslu Með breytingum sem gerðar voru á skipan Stjórnarráðs Íslands í ársbyrjun 2022 heyra málefni bókmennta undir menningar- og viðskiptaráðuneyti en námsgögn undir mennta- og barnamálaráðuneyti, sbr. 9. og 10. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Mennta- og barnamálaráðherra hefur sett af stað heildarendurskoðun á fyrirkomulagi námsgagnaútgáfu. Skipaður hefur verið spretthópur til að vinna að þessu verkefni og eiga sæti í honum fjölmargir aðilar frá ýmsum hagsmunaaðilum, t.d. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hagþenki, Félagi íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT), Menntamálastofnun, Samtökum menntatæknifyrirtækja, auk fulltrúa frá Kennarasambandi Íslands, Samfés, Skólameistarafélaginu o.fl.
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur á undanförnum misserum staðið fyrir stefnumótun í mörgum greinum lista og menningar. Nú síðast tónlistarstefnu fyrir árin 2023–2030, myndlistarstefnu til 2030, kvikmyndastefnu til 2030 og stefnu í hönnun og arkitektúr til 2030. Farið var að huga að mótun bókmenntastefnu í menningar- og viðskiptaráðuneytinu um mitt ár 2022. Þá lá fyrir að taka þyrfti lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, nr. 130/2018, til skoðunar. Í 12. gr. laganna er kveðið á um að ráðherra skuli gera úttekt á árangri lagasetningarinnar fyrir árslok 2022. Jafnframt er í sömu grein kveðið á um að lögin skuli endurskoða fyrir árslok 2023. Menningar- og viðskiptaráðuneytið samdi við Deloitte í maí 2023 um að greinar árangur af stuðningi við útgáfu bóka á íslensku. Niðurstöður lágu fyrir í október 2023 og voru kynntar opinberlega á málþingi ráðuneytisins, undir yfirskriftinni Ráðstefna um stöðu bókarinnar á Íslandi, 9. febrúar 2024. Niðurstöður Deloitte verða notaðar í endurskoðun regluverks kringum bókmenntir sem er fyrsta aðgerðin í aðgerðaáætluninni.
2. Samvinna um bókmenntastefnu.
Menningar- og viðskiptaráðherra fundaði með helstu hagsmunaaðilum á sviði bókmennta 3. október 2023. Fundinn sátu fulltrúar frá Miðstöð íslenskra bókmennta (MÍB), FÍBÚT, Hagþenki, og Rithöfundasambandi Íslands (RSÍ). Þar kynnti ráðherra hugmyndir að nýju verklagi við smíði bókmenntastefnu þar sem helstu hagsmunaaðilar yrðu beðnir um að senda ráðuneytinu annars vegar tillögur að því hvað bókmenntastefnan ætti að fjalla um og hins vegar tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun sem fylgja skyldi stefnunni.
Helstu hagsmunaaðilum í bókmenntageiranum voru send bréf 8. nóvember 2023 með ósk um innlegg í nýja bókmenntastefnu menningar- og viðskiptaráðherra og aðgerðaáætlun sem henni skyldi fylgja. Viðtakendur voru þessir: MÍB, RSÍ, FÍBÚT, Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna, Bandalag þýðenda og túlka, IBBY á Íslandi og bókasafnaráð. Óskað var eftir því að hagsmunaaðilar kæmu á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi þau viðfangsefni sem fjalla þyrfti um í bókmenntastefnunni og jafnframt helstu aðgerðir sem nauðsynlegt væri að ráðast í. Svör bárust frá MÍB, RSÍ, FÍBÚT, Hagþenki og IBBY í nóvember og desember 2023. Sjónarmið þessara aðila eru reifuð hér á eftir. Í kjölfar þess voru skrifuð drög að bókmenntastefnu ásamt aðgerðaáætlun í ráðuneytinu sem send voru 5. febrúar 2024 faglegum rýnihóp um bókmenntastefnu sem samanstóð af Árna Matthíassyni, Dröfn Vilhjálmsdóttur, Hauki Ingvarssyni og Kristínu Svövu Tómasdóttur. Hópurinn var valinn þannig að í honum væru fulltrúar sem þekktu bæði til sjónarmiða lesenda og höfunda, ungmenna og barna jafnt sem fullorðinna og fagurbókmennta jafnt sem fræðibóka. Hópurinn rýndi skjalið og fundaði í kjölfarið með ráðuneytinu 13. febrúar. Starf rýnihópsins leiddi til nokkurra breytinga á stefnunni og aðgerðunum.
Reifun sjónarmiða sem ráðuneytið hefur aflað.
Almennt eru sjónarmið umsagnaraðila flest á þá leið að meginmarkmið bókmenntastefnu hljóti að hverfast um íslenska tungu, eflingu hennar og verndun. Þá virðist ríkja almenn ánægja með fyrirkomulag opinbers stuðnings vegna bókmennta en í öllum umsögnum eru tillögur um hvað betur megi fara, hvar skórinn kreppi að og hvar þurfi að ráðast í umbætur. Helstu sjónarmið umsagnaraðila eru reifuð hér að aftan.
Sjónarmið Félags íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT).
FÍBÚT leggur áherslu á að í bókmenntastefnu þurfi að huga að stuðningsumhverfinu þannig að það tryggi jafnt hag útgefenda og höfunda og stuðli að hagfelldu rekstrarumhverfi bókarinnar. Félagið bendir einnig á að brýn þörf sé á að taka útgáfu námsbóka fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla til skoðunar og leggur til að einokun ríkisins á þeirri útgáfu verði afnumin.
FÍBÚT telur mikilvægast í bókmenntastefnu að áframhaldandi stuðningur ríkisins vegna útgáfu bóka á íslensku sé tryggður. Vísar félagið til þess að veruleg veltuaukning hafi orðið í bókaútgáfu í kjölfar setningar laga nr. 130/2018 og þróun verðs á bókum hafi verið hagfelld miðað við almenna verðlagsþróun. Stuðningur ríkisins sé grundvöllur blómlegrar bókaútgáfu á jafn litlu markaðs- og málsvæði og Ísland er.
Þá telur félagið mjög mikilvægt að stórefla Miðstöð íslenskra bókmennta og nefnir í því sambandi verkefni eins og landsátak í lestri, söfnun og úrvinnslu tölfræðigagna er varða bókaútgáfu, bóksölu og bóklestur, kynningarstarf erlendis og styrki til þýðinga bæði á og af íslensku.
FÍBÚT bendir á að mikilvægt sé að útgefendur öðlist rétt til greiðslna vegna afnota á bókasöfnum og að útgefendur séu skilgreindir sem rétthafar gagnvart Hljóðbókasafni Íslands.
Félagið bendir á að brýnt sé að taka á innkaupastefnu almennings- og skólabókasafna og marka stefnu sem tryggi söfnunum fjármagn til að sinna skyldum sínum gagnvart notendum. Félagið nefnir til sögunnar námsgagnasjóð eða mögulegan skólabókasafnasjóð sem tæki til þess. Þessi bókasöfn séu rekin á vegum sveitarfélaga og jafnframt væri hægt að beita jöfnunarsjóði sveitarfélaga í þessu skyni.
Í þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023–2026 sem lögð var fram á yfirstandandi löggjafarþingi (511. mál) er sérstök aðgerð, 11. Öflug skólasöfn, sem fjallar um það að efla skólasöfn með hliðsjón af markmiðum laga um grunnskóla og laga um framhaldsskóla. Aðgerðin er á ábyrgð mennta- og barnamálaráðuneytis.
Sjónarmið Hagþenkis.
Í áliti Hagþenkis kemur fram sú skoðun að aldrei hafi verið mikilvægara en nú að móta sérstaka bókmenntastefnu og nefnir í því sambandi stöðu íslenskunnar í samfélaginu, minnkandi bóklestur og verra læsi, íslenskukunnáttu innflytjenda, versnandi kjör rithöfunda og innkomu streymisveitna á afþreyingarmarkaðinn. Þá hafi landslag fjölmiðla tekið stakkaskiptum, samfélagsmiðlar hafi mikil áhrif á daglegt líf og tómstundir og tilkoma öflugrar gervigreindar muni hafa veruleg áhrif þróun samfélagsins og menningarinnar á komandi árum.
Vakin er athygli á því að skýrsla starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra um bókmenningarstefnu frá 2017 hafi að geyma ýmislegt gagnlegt efni sem ástæða væri til að halda á loft í nýrri bókmenntastefnu.
Að mati Hagþenkis hlýtur íslenskan að verða miðdepill bókmenntastefnu og viðleitni til að vernda hana og efla að vera rauði þráðurinn í henni. Þá sé mikilvægt að skýrt komi fram í stefnunni hvað átt sé við með hugtakinu bókmenntir. Brugðist er við þessari athugasemd í kafla 1 þar sem skilgreint er hvernig hugtakið er notað í þingsályktunartillögunni.
Hagþenkir hvetur til þess að horft sé út fyrir landsteina við mótun bókmenntastefnu og bendir á Noreg og Danmörku í því sambandi. Í Noregi tóku gildi í ársbyrjun 2024 ný bókalög sem hafa það að meginmarkmiði að tryggja gæði og fjölbreytni í norskum bókmenntum og tryggja gott aðgengi að bókum, þau eigi að tryggja jafnt hagsmuni lesenda og höfunda og styrkja grundvöllinn undir tunguna. Án vafa verður tekið mið af þessu, jafnt í bókmenntastefnu sem og í undirbúningi að fyrirhugaðri endurskoðun þeirra laga sem fjalla um bókmenntir á Íslandi.
Hagþenkir bendir á að bóksala hafi dregist saman og telur að blikur séu á lofti varðandi kjör þeirra sem starfa við að skrifa bækur. Hljóðbókaveitur séu í einokunarstöðu og greiðslur til höfunda smánarlegar. Hagþenkir bendir á nauðsyn þess að tryggja að höfundar fái sanngjarna þóknun fyrir efni sem birt er og notað í skólum og öðrum opinberum stofnunum og að hækka þurfi samningsbundnar greiðslur frá Fjölís vegna þess. Ábending er jafnframt um nauðsyn þess að endurskoða höfundalög og lög um námsgögn vegna þessa.
Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna er að mati Hagþenkis langmikilvægasti sjóðurinn sem styrkir höfunda fræðirita. Bent er á að sjóðurinn sé ekki á fjárlögum, ólíkt t.d. listamannalaunum, hann sé verulega vanfjármagnaður og hafi ekki notið aukins stuðnings eins og aðrir sjóðir þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði hér á landi. Hagþenkir bendir einnig á nauðsyn þess að styrkja stöðu þróunarsjóðs námsgagna og bókasafnssjóðs. Félagið rifjar einnig upp tillögur úr skýrslu starfshóps um bókmenningarstefnu frá 2017 um skólabókasafnssjóð og lestraruppeldissjóð.
Að síðustu lýsir Hagþenkir yfir áhyggjum af annars vegar námsefnisútgáfu, sem óljóst er hvar sé stödd í ljósi þessu að til standi að leggja niður Menntamálastofnun, og hins vegar gervigreind og hvetur til þess að hugað sé að þessu í bókmenntastefnu.
Sjónarmið IBBY á Íslandi (IBBY).
IBBY bendir á að barna- og ungmennabókahöfundar fái sjaldan greitt úr launasjóði listamanna og eigi erfitt með að lifa af þeim störfum sínum. Höfundar heltist fljótt úr lestinni og leiti á önnur mið til að afla lífsviðurværis. Sögupersónur og bókaflokkar sem lofa góðu eiga því á hættu að hverfa snögglega af sviðinu. Þá séu barna- og unglingabækur eftir íslenska höfunda sjaldan þýddar á erlend mál og því er íslenskur örmarkaður eina uppspretta tekna fyrir höfundana.
IBBY leggur áherslu á að koma þurfi upp raunverulegu styrkjakerfi fyrir höfunda barna- og ungmennabóka. Nauðsynlegt sé að veita þessum höfundum beina styrki.
Þá nefnir IBBY gildi þess að fá barna- og ungmennahöfunda í auknum mæli inn í grunnskóla til að kenna ritlist og rittjáningu. Það gæti bæði verið höfundum tekjuauki og eflt færni nemenda til að skrifa á íslensku.
Bækur eftir íslenska höfunda geta ekki svalað allri lestrarþörf íslenskra barna að mati IBBY og því þurfi jafnframt að huga að því að þýða erlendar bækur á íslensku sem höfða til þeirra, hvort sem það eru afþreyingarbækur eða bækur um fræði og vísindi. Eyrnamerkja þurfi styrki til þýðinga handa börnum og ungmennum sérstaklega.
Að mati IBBY þarf enn fremur að huga að stöðu myndhöfunda í útgáfu bóka, enda séu þeir ómissandi hluti af bókmenntum fyrir börn og ungmenni. Einnig er bent á að staða skólabókasafna sé mjög misjöfn yfir landið. Mörg séu fjársvelt og hafi í allt of litlum mæli efni á því að kaupa nýjar bækur. Þá sé ekki alltaf fastur starfsmaður á skólabókasöfnum. Aðgangur að bókum sé jafnréttismál fyrir börn og ungmenni.
Umfjöllun um bækur sem ætlaðar eru börnum og ungmennum sé af skornum skammti og stuðla þurfi að því að meira sé fjallað um þær á vettvangi barnanna sjálfra. Börn og ungmenni eigi kost á að kynna og kynna sér bækur allan ársins hring en ekki bara á ákveðnum árstíma eins og kringum jólabókaflóðið. Þá þurfi dreifing og útgáfa bóka að vera jafnari yfir árið.
Sjónarmið Miðstöðvar íslenskra bókmennta (MÍB).
Að mati MÍB er í bókmenntastefnu ekki þörf að ráðast í neinar grundvallarbreytingar en þó blasi ýmsar áskoranir við bókmenntunum sem bregðast þurfi við. Sú stærsta er minnkandi lestur meðal þjóðarinnar sem sé augljóst merki um þá hættu sem steðjar að íslenskunni. Þótt eiginlegur bóklestur hafi minnkað hafi hlustun á hljóðbækur aukist. Sjálfbærni rithöfunda og útgefenda sé þó lítil í tilfelli hljóðbóka og tekjugrunnur lélegur.
Stjórn MÍB leggur áherslu á þrjár meginaðgerðir í því skyni að snúa vörn í sókn fyrir hönd bókmenntanna: auka þurfi fjárveitingar til MÍB svo hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem er að efla bókaútgáfu og bókmenningu innanlands og auka útbreiðslu íslenskra bókmennta erlendis; stungið er upp á því að MÍB fari í samstarf við Hagstofuna um vinnslu gagna um bókmenntalandslagið og reglulega birtingu þeirra opinberlega; að síðustu er lagt til að farið verði í lestrarátak til lengri tíma sem nái til sem flestra lesenda, barna, fullorðinna og þeirra sem eru að læra íslensku sem annað mál.
Sjónarmið Rithöfundasambands Íslands (RSÍ).
Stjórn RSÍ leggur mesta áherslu á kjör höfunda í sjónarmiðum sínum og tiltekur að það sé forsenda bókmenningar og framgangs íslenskrar tungu að á landinu sé til stétt atvinnuhöfunda. Því sé nauðsynlegt að umhverfi starfslauna tryggi starfsöryggi höfunda og einnig nýliðun í stéttinni. Einnig er bent á mikilvægi þýðinga og sterkari Miðstöðvar íslenskra bókmennta og að hagsmunum handritshöfunda, leikskálda og myndhöfunda sé einnig sinnt.
Sambandið bendir á að bókmenntastefna verði að taka mið af allri virðiskeðju bókmennta, allt frá hugmynd höfundar og alla leið í hendur lesenda. Þá verði að skoða stöðu bókasafna sérstaklega, hið opinbera styðji við bæði höfunda og útgefendur en almenningsbókasöfn og skólasöfn séu oft illa stödd og ekki það jöfnunartæki sem þau ættu að vera. Þá sé ástæða til að skoða stöðu leikskólabókasafna þar sem mikilvægt sé að huga að bókum strax á máltökuskeiði barna.
Einnig þurfi að huga að þeim hluta virðiskeðjunnar sem annist dreifingu eða sölu bóka. Fákeppni á smásölumarkaði bóka sé áhyggjuefni og ekki síður hitt að stór hluti bóksölu fari fram á stuttum tíma árs í kringum jól í verslunum sem annars selja almennt ekki bækur og að bækur séu jafnvel seldar undir kostnaðarverði. RSÍ leggur til að komið verði á föstu bókaverði þannig að óheimilt sé að selja bækur með afslætti nema að ákveðnum tíma liðnum frá útgáfu.
RSÍ gerir stöðu Storytel á markaði að umtalsefni, ekki síst að samningsstaða bæði höfunda og útgefenda sé mjög slæm þar sem fyrirtækið sé nær einrátt á markaði. Bent er á að enda þótt velta á bókamarkaði hafi aukist þá fái höfundar sífellt minna í sinn hlut. Greiðslur séu ógagnsæjar og engin leið fyrir höfunda að átta sig á fyrirkomulagi þeirra. Sambandið leggur til að bókalög að norskri fyrirmynd verði sett á Íslandi og að lögfest verði ákvæði um að óheimilt sé að birta nýjar bækur í streymisveitum fyrr en að liðnum ákveðnum tíma frá útgáfu þeirra.
Rithöfundasambandið bendir einnig á nauðsyn þess að upplýsingum um bókmenntir sé safnað og þær greindar. Skortur sé á yfirsýn yfir greinina í heild og um kjör höfunda og þýðenda.
3. Samráðsgátt.
Drög að tillögu til þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2024–2030 voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda 8.–18. mars 2024 (mál nr. S-62/2024). Helstu hagsmunaaðilar fengu boð um þátttöku. Í meðförum Alþingis mun jafnframt gefast tækifæri til frekara samráðs.
Í Samráðsgáttina bárust 23 umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Hinu íslenska bókmenntafélagi, Rökkva Vésteinssyni, Hljóðbókasafni Íslands, Rithöfundasambandi Íslands, IBBY á Íslandi, Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, Bandalagi þýðenda og túlka, Sögufélagi, Hagþenki, Stofnun Gunnars Gunnarssonar að Skriðuklaustri, bókasafnaráði, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands, bókmenntakennurum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Kennaradeild Háskólans á Akureyri, stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta, Landskerfi bókasafna, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sigríði Ólafsdóttur og Auði Pálsdóttur fyrir hönd verkefnisins Íslenskur námsorðaforði, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Heiðu Dögg Eiríksdóttir fyrir hönd Málnefndar um íslenskt táknmál, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Félagi heyrnarlausra, starfshópi um málstefnu íslensks táknmáls og námsleið í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands og sameiginleg umsögn Samtaka iðnaðarins og Samtaka menntatæknifyrirtækja.
Umsagnir eru á jákvæðum almennum nótum og í mörgum eru góðar ábendingar um hvað má betur fara. Sumt af því eru tillögur um nýjar aðgerðir en annað ábendingar um orðalag eða óskir um að samstarfsaðilum sé bætt við á stöku stað. Á nokkrum stöðum er þó orðalagi vikið við eftir ábendingar og dæmum um samstarfsaðila fjölgað. Það skal þó tekið fram að samstarfsaðilar eru aðeins nefndir í dæmaskyni og ekkert sem útilokar að samstarfsaðilum sé bætt við þegar fram í sækir.
Önnur aðgerð aðgerðaáætlunarinnar snýst um að ráðist verði í heildarendurskoðun á því regluverki sem gildir um umhverfi bókmennta og stöðu íslenskrar tungu. Við þá endurskoðun verður meðal annars tekið mið af þeim athugasemdum sem borist hafa í samráðsferlinu og eiga enn eftir að berast þegar Alþingi fjallar um stefnuna. Ekkert er undanskilið í þeim efnum og við blasir að í þeirri vinnu verði fjallað um hluti eins og opinbera styrki og stuðning, stöðu bókasafna, aðkomu háskóla og rannsóknastofnana að ýmsum verkefnum, stöðu og gildi þýðinga o.m.fl. Þá má benda á menningar- og viðskiptaráðherra mun leggja til umtalsverðar breytingar á listamannalaunum á yfirstandandi þingi ásamt því sem fyrir Alþingi liggja stefnur um málstefnu íslensks táknmáls annars vegar og aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu hins vegar. Sömuleiðis mun ráðherra leggja fram sérstaka fjölmiðlastefnu á þinginu sem hefur snertifleti við margt af framansögðu, t.d. að því er varðar textun og talsetningu á íslensku, höfundarrétt, gervigreind og þýðingar. Ný áætlun stjórnvalda um íslenska máltækni, Íslenskan okkar, alls staðar, sem kom út fyrr á þessu ári hefur einnig sterk tengsl margt í framangreindu, ekki síst að því er varðar stöðu íslenskunnar, vélrænar þýðingar og fleira.
Ákall er enn fremur um að tillit sé tekið til hópa sem ekki eru þegar nefndir í stefnunni, t.d. blindra og sjónskertra, heyrnarlausra og heyrnarskertra og þeirra sem nota táknmál. Þetta eru réttmætar athugasemdir og verða teknar til greina í áframhaldandi verkefnum ráðuneytisins. Sama gildir um höfunda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sem starfa á Íslandi og skrifa um íslenskan veruleika.