Viðurkenningaráð Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021. Auðunn Arnórsson, Kolbrún S. Hjaltadóttir, Lára Magnúsardóttir, Árni Einarsson og Helga Birgisdóttir.
Ágætu gestir, ég heiti Auðunn Arnórsson
Mér er það í senn heiður og ánægja að standa hér fyrir hönd viðurkenningarráðs Hagþenkis, nú þegar félagið veitir viðurkenningu sína í 34 sinn. Í ráðinu, sem starfaði með aðstoð Friðbjargar Ingimarsdóttur framkvæmdastýru, sátu auk mín Árni Einarsson, Helga Birgisdóttir, Kolbrún Hjaltadóttir og Lára Magnúsardóttir.
Viðurkenning Hagþenkis er veitt fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“ og í þetta sinn fyrir verk sem komu út á heims-faraldursárinu 2020. Ófáar bækur hafa runnið í gegnum okkar hendur síðan í haust. Þótt smám saman hafi grynnkað í pottinum eins og til var ætlazt má vel koma fram að flestar þótti okkur þær góðar og margar hreint frábærar. Úrslitin voru óráðin fram á síðustu stundu.
Um miðjan febrúar voru kynnt tíu rit sem hlutu tilnefningu til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir árið 2020:
Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen. Námsefni í dönsku á grunnskólastigi. Menntamálastofnun og Námsgagnastofnun.
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir. Fræðaskjóða. Bókmenntafræði fyrir forvitna. Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands. Sæmundur.
Gísli Pálsson. Fuglinn sem gat ekki flogið. Mál og menning.
Gunnar Þór Bjarnason. Spænska veikin. Mál og menning.
Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring. Hestar. Angústúra.
Jón Hjaltason. Fæddur til að fækka tárum. KÁINN. Ævi og ljóð. Völuspá útgáfa.
Kjartan Ólafsson. Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. DRAUMAR OG VERULEIKI. Stjórnmál í endursýn. Mál og menning.
Kristján Leósson og Leó Kristjánsson †. SILFURBERG. Íslenski kristallinn sem breytti heiminum. Mál og menning.
Pétur H. Ármannsson. Guðjón Samúelsson húsameistari. Hið íslenska bókmenntafélag.
Sigurður Ægisson. Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar.
Bókin sem á endanum varð fyrir valinu sem sú sem að okkar mati var best að því komin að hljóta viðurkenningu Hagþenkis í ár er: Guðjón Samúelsson húsameistari eftir Pétur H. Ármannsson.
Þegar við í viðurkenningarráðinu völdum bókina á tíu bóka tilnefningarlistann komum við okkur saman um þessi umsagnarorð: Vandað og ítarlegt yfirlitsrit um ævi og verk Guðjóns Samúelssonar. Verðugur minnisvarði um manninn sem mótaði byggingarlist og skipulagsmál hins nýsjálfstæða Íslands.
Þessi meitlaða umsögn fellur mjög vel að þeim umsagnarorðum sem Jón Sigurðsson, forseti Hins íslenzka bókmenntafélags, skrifar fyrir hönd útgefenda í aðfararorðum sínum í bókinni. Tilvitnun hefst:
„Bók Péturs um hið mikla æviverk Guðjóns Samúelssonar og greining hans á því er byggð á víðtækum og vönduðum rannsóknum og djúpum skilningi á viðfangsefninu. Að henni er mikill fengur fyrir íslenska menningarsögu. Útgáfa hennar er fagnaðarefni öllum almenningi og áhugamönnum um húsagerðarlist.“
Viljum við í viðurkenningarráðinu taka undir þetta heils hugar. Það fer ekki framhjá neinum sem flettir þessari bók og les að hér er á ferðinni gríðarlega vandað verk, sannarlega byggt á „víðtækum og vönduðum rannsóknum og djúpum skilningi á viðfangsefninu.“
Dæmi um þetta er sá fjöldi upprunalegra uppdrátta Guðjóns, sem í bókinni eru og aldrei hafa sést á prenti áður, ljósmyndir af byggingum hans, bæði frá því þær voru í byggingu, nýbyggðar eða eins og þær líta út í nútímanum. Deilum sem um margar bygginga hans stóðu eru gerð skil, rétt eins og öðrum þáttum sem máli skipta og vert er að halda til haga.
Umdeildust var án efa Hallgrímskirkja, sem aðeins var búið að byggja brot af þegar Guðjón féll frá árið 1950. Má ég til með að nota tækifærið og hafa eftir eitt þekktasta ljóð Steins Steinarr, sem orti (skömmu fyrir andlát þeirra beggja):
Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir
og horfði dulráðum augum
á reislur og kvarða:
51 x 19 + 18 ÷ 102,
þá útkomu læt ég mig
raunar lítils varða.
Ef turninn er lóðréttur
hallast kórinn til hægri.
Mín hugmynd er sú,
að hver trappa sé annarri lægri.
Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir,
og Hallgrímur sálugi Pétursson
kom til hans og sagði:
Húsameistari ríkisins!
Ekki meir, ekki meir!
Þetta ljóð Steins er eflaust sá minnisvarði um verk Guðjóns Samúelssonar sem flestum Íslendingum er kunnugur. Þessi háðslegi minnisvarði er þó mjög ósanngjarn. Það var því tími til kominn að hinum merku verkum Guðjóns væri reistur verðugri minnisvarði, og það hefur Pétur H. Ármannsson svo sannarlega gert í þessu riti.
Við í viðurkenningarráði Hagþenkis, Árni, Helga, Kolbrún og Lára, óskum Pétri innilega til hamingju með bókina og verðlaunin!