Rökstuðningur Viðurkenningarráðsins – flutt af Sólrúnu Harðardóttur

""
Ágætu gestir.

Þetta er í 31. sinn sem Viðurkenning Hagþenkis er veitt „fyrir samningu fræðirita, kennslugagna eða aðra miðlun fræðilegs efnis“. „Hlutverk viðurkenningarinnar er að vekja athygli á mikilvægu höfundarverki og fræðilegu framlagi.“
Í viðurkenningarráði Hagþenkis eiga sæti fimm fulltrúar sem skipaðir eru af stjórn félagsins til tveggja ára í senn. Í núverandi ráði sitja Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur, Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Henry Alexander Henrysson heimspekingur og ég, Sólrún Harðardóttir námsefnishöfundur. Við hittumst vikulega frá því í október sl. og fram á nýtt ár og fjölluðum um fjölda verka. Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis var okkur dyggilega innan handar og sá um allt ytra skipulag, auk þess sem hún útvegaði okkur bækur! Þetta var skemmtilegt starf og góð samvinna. Þann 1. febrúar sl. voru síðan tíu rit tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis. Ritin og höfundar þeirra eru:

 

Aðalheiður Jóhannsdóttir. Inngangur að skipulagsrétti – lagarammi og réttarframkvæmd.
Ásdís Jóelsdóttir. Íslenska lopapeysan – uppruni, saga og hönnun.
Egill Ólafsson og Heiðar Lind Hansson. Saga Borgarness: Byggðin við Brákarpoll og Bærinn við brúna.
Hjálmar Sveinsson og Hrund Skarphéðinsdóttir. Borgin – heimkynni okkar.
Stefán Arnórsson. Jarðhiti og jarðarauðlindir.
Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Ójöfnuður á Íslandi – skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi.
Steinunn Kristjánsdóttir. Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir.
Unnur Jökulsdóttir. Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk.
Úlfar Bragason. Frelsi, menning, framför – um bréf og greinar Jóns Halldórssonar.
Vilhelm Vilhelmsson. Sjálfstætt fólk – vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld.//
Það er eitthvað þægilega spennandi við bækur sem bera titil sem byrjar á orðunum Leitin að… Við förum í ákveðnar stellingar.

Leitin að fiðrildinu höfðar til okkar þegar við erum fimm ára, 
Leitin að Ljúdmílu fögru ber okkur til fjarlægra ævintýralanda, — heldur skuggalegri aðalpersónu er að finna í Leitinni að svarta víkingnum!,
og Leitin að tilgangi lífsins setur okkur á bólakaf heimspekilegra hugsana.
Þannig mætti lengi telja.

Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur hefur nú bæst við. Okkur í viðurkenningarráðinu þótti það heldur betur góð bók – og já, hún er líka spennandi og fær mann til að hugsa á nýjan hátt um lífið og tilveruna á Íslandi á fyrri öldum.  
Það er sú bók og höfundur sem í ár hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis!

Útgefandi bókarinnar er Sögufélag í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Eins og þekkt er vann Steinunn ítarlega og merka rannsókn á klaustrinu að Skriðu í Fljótsdal. Bókin sem nú er verðlaunuð fjallar um rannsókn hennar á „hinum“ klaustrunum. Markmið Steinunnar með rannsókninni var að leita nýrra heimilda um klaustur á Íslandi og rekja sögu þeirra með öllum tiltækum heimildum og nútíma tækni sem stendur fornleifafræði til boða. Sérstök áhersla var á leifar klaustranna í jörðu.
Afrakstur rannsóknarinnar varpar nýju ljósi á sögu kirkjunnar og hugmyndir manna um mikilvægt hlutverk klaustra í íslensku samfélagi. Með rannsókninni er auk þess lagður traustur grunnur að frekari klausturrannsóknum.

Óhætt er að segja að klaustur hafi ekki fengið mikla athygli fræðimanna hérlendis um langt skeið. Ýmislegt hefur þó verið ritað um klaustrin, og þá gjarnan einstaka klaustur. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu tiltekur sérstaklega skrif tveggja fræðimanna sem hann telur skipta meginmáli í sögu klaustranna. Grein eftir Janus Jónsson, sem birtist árið 1887, var að sögn Hjalta lykilverk um klaustursöguna alla 20. öldina. -Það segir sína sögu. — Hinn fræðimaðurinn, Anna Sigurðardóttir, gaf rétt um 100 árum síðar út rit sem greindi frá ítarlegri rannsókn hennar á nunnuklaustrunum. — Síðan kom Steinunn Kristjánsdóttir fram á sjónarsviðið með umfangsmiklar rannsóknir og mjög áhugaverðar sem stórjuku þekkinguna á klaustrunum: lífinu í þeim og starfsemi, aðstæðum, samfélagslegu hlutverki og almennt á sögu þeirra.  
Saga klaustranna hefur verið vanrækt, fyrir utan framlag þeirra til ritmenningar og sagnaritunar. Engu að síður er um að ræða mikilvægan þátt í Íslandssögunni. Velta má vöngum yfir hvað veldur, en líklegt er að ný trúarviðhorf hafi haft sín áhrif. Klaustrin fylgdu jú kaþólskunni. 
Með bók sinni vekur Steinunn sannarlega upp umræðu um þetta vanrækta svið. Það gerist mitt í hátíðahöldum til minningar um að 500 ár eru liðin frá því að Lúther negldi greinarnar sínar 95 á hurðina frægu í Wittenberg. Er það ekki svolítið skemmtilegt?!

Steinunni tekst á einstaklega áhrifaríkan hátt að láta lesandann finnast hann vera þátttakandi í sjálfri rannsókninni. Með látlausum, en jafnframt einlægum frásagnarstíl, gefur hún lesandanum færi á að skyggnast inn í heim og huga fræðimanns og fylgja honum eftir við hvert fótmál. Ekki bara þegar vel gengur heldur líka þegar uppgröftur skilar ekki þeim árangri sem vonast var til. Þetta þótti viðurkenningarnefnd áhugaverð nálgun og gefa verkinu aukið gildi hvað varðar miðlun fræðilegs efnis til almennings.

Margar góðar ljósmyndir og annað myndefni prýða bókina. Kort og skýringarmyndir eru stílhreinar og skýrar.  Almennt má segja að frágangur bókarinnar sé til fyrirmyndar og hæfi viðfangsefninu. Lesandi greinir í útliti bókar og mynda ákveðin hughrif.

Við Auður, Guðný, Helgi og Henry Alexander í viðurkenningaráði Hagþenkis óskum aðstandendum bókarinnar, „leitarfólkinu“ en þó fyrst og fremst Steinunni Kristjánsdóttur hjartanlega til hamingju með bókina og með verðlaunin.
 
28. febrúar 2018.