Viðurkenningráð Hagþenkis 2012

""

 Ólafur K. Nielsen náttúrufræðingur,Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur, Fanney Þórsdóttir lektor í sálfræðideild HÍ, Haraldur Ólafsson mannfræðingur.  Verkefnastjóri ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir,

Ræða Ólafs Nielsen formanns  viðurkenningarráðs:

 

Reykjavík, 6. mars 2013

Ágætu gestir!

Félagið okkar, Hagþenkir, hefur um árabil veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, kennslugögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Verklagið hverju sinni er að Hagþenkir skipar svokallað viðurkenningaráð þar sem sitja 5 félagsmenn; fræðafólk af ólíkum sviðum. Hver ráðsmaður situr í tvö ár; skörunin er þannig að ýmist eru tveir eða þrír nýliðar hvert ár. Þetta er sjálfboðastarf og verklaunin fyrst og fremst sú ánægja sem felst í því að kynnast nýju fólki og fjalla um áhugaverð verk. Sjálfur sat ég í viðurkenningaráði í fyrsta skipti árið 2008. Árið eftir bar ég við önnum og vék mér undan okinu, en viti menn, það á það sama við um Friðbjörgu Ingimarsdóttur framkvæmdastýru Hagþenkis og Skattayfirvöld, þau gleyma ekki skuldum. Í haust hringdi síminn, þar var Friðbjörg og nú dugðu engin undanbrögð! Viðurkenningaráð 2012 tók til starfa 18. október og starfaði til 13. febrúar. Auk þess sem hér talar sátu í ráðinu Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur, Fanney Þórsdóttir lektor við sálfræðideild Háskóla Íslands, og Haraldur Ólafsson mannfræðingur. Friðbjörg Ingimarsdóttir hjá Hagþenki var verkefnastjóri ráðsins. Verk okkar var að lesa og meta þær bækur sem verkefnisstjórinn færði okkur frá útgefendum. Fyrsta niðurstaða var ljós 29. janúar sl. en þá voru 10 höfundar tilnefndir til Viðurkenningar Hagþenkis 2012, þeir eru:

Árni Kristjánsson fyrir bókina Innra augað. Sálfræði hugar, heila og skynjunar.

Ásta Bergljót Stefánsdóttir og Guðrún Pétursdóttir fyrir bókina Andlitsmeðferð og efnafræði snyrtivara.

Gunnar Hjálmarsson betur þekktur sem Dr. Gunni fyrir bókina Stuð vors lands. Saga dægurtónlistar á Íslandi.

Gunnar Þór Bjarnason fyrir bókina Upp með fánann. Baráttan um uppkastið 1908 og sjálfstæðisbarátta Íslendinga.

Gunnar F. Guðmundsson fyrir bókina Pater Jón Sveinsson. Nonni.

Inga Elsa Bergþórsdóttir og Gísli Egill Hrafnsson fyrir bókina Eldað og bakað í ofninum heima. Góður matur – gott líf.

Jón Ólafsson fyrir bókina Appelsínur frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu.

Sigrún Helgadóttir, Freydís Kristjánsdóttir og Guðmundur Ó. Ingvarsson fyrir bókina Víkingaöld. Árin 800-1050

Sigurður Reynir Gíslason fyrir bókina Kolefnishringrásin.

Og að síðustu

Steinunn Kristjánsdóttir fyrir bókina Sagan af klaustrinu á Skriðu.

Síðast kom ráðið saman um miðjan febrúar þar sem tekin var ákvörðun um hvaða bók hlyti Viðurkenningu Hagþenkis árið 2012. Hér er eftir miklu að slægjast fyrir þann sem hnossið hlýtur, verðlaunafé, ein milljón króna, en ekki hvað síst heiðurinn sem honum hlotnast. Ráðið komst ágreiningslaust að sameiginlegri niðurstöðu og hún er sú að Viðurkenningu Hagþenkis 2012 hljóti Jón Ólafsson fyrir bók sína Appelsínur frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu. Útgefandi er JPV útgáfa.

Um þetta verk Jóns Ólafssonar segir í tilnefningunni: „Áhrifamikil og gagnrýnin greining á kommúnismanum og Gúlagi Sovétríkjanna sem afhjúpar varnarleysi hins almenna borgara”.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Vera Hertzsch steig inn í íslenskan veruleika árið 1963 í Skáldatíma, bók eftir Halldór Laxnes. Í Skáldatíma greinir Halldór frá því að hann hafi 25 árum áður, í mars 1938, og þá gestur í matarboði heima hjá Veru í Moskvu orðið vitni að því er fulltrúar Rússnesku öryggislögreglunnar, NKVD, handtóku hana. Leið Veru eftir handtökuna og ársgamallar dóttur hennar, Erlu Sólveigar Benjamínsdóttur, lá inn í Gúlagið, fangabúðakerfi Sovétríkjanna. Hvorug þeirra slapp þaðan lifandi. Sameiginlegur vinur, Benjamín Eiríksson, hafði leitt þau Halldór og Veru saman. Benjamín var í hópi þeirra íslensku kommúnista sem fyrir atbeina Komintern, alþjóðasamtaka kommúnista, sótti nám í Moskvu á fjórða áratugnum. Benjamín var faðir Erlu litlu, en horfinn úr landi er Vera var handtekin og reyndar þá þegar orðinn afhuga kommúnisma. Halldór hallur undir kommúnisma, var þarna í sinni annarri ferð um Sovétríkin. Afrakstur fyrri ferðarinnar var bókin Í austurvegi. Um síðari ferðina segir Jón Ólafsson: Vera hvarf inn í Gúlagið í mars 1938 en Halldór hélt heim og skrifaði Gerska æfintýrið. Sú bók er eins og við vitum óður um ríki Stalíns og visku og kænsku leiðtogans og Halldór hélt áfram næstu árin að mæra hið sovéska kerfi.

Hver var svo þessi Vera Hertzsch? Í raun vitum við ósköp lítið um þessa ágætu konu, það sem við höfum í höndunum eru fáeinar svart-hvítar ljósmyndir og stiklur helstu æviatriða: hún var þýsk, fædd 1904, giftist pólska gyðingnum Abram Rozenblum 1927 og flutti sama ár til Sovétríkjanna enda hjónin sannfærðir kommúnistar. Í Moskvu starfaði hún í verksmiðju, einnig við Vesturháskólann  þar sem hún að auki stundaði nám um tíma. Síðast var hún blaðamaður við Deutsche Zentral-Zeitung, blað sem alþjóðasamband kommúnista gaf út á þýsku. Þessu blaði var ætlað að færa þýskum kommúnistum, sem voru fjölmennir í Sovétríkjunum, fréttir af framförum innan Sovétríkjanna. Abram var handtekinn af Rússnesku öryggislögreglunni í ágúst 1936 og tekinn af lífi, skotinn, í maí 1937. Eftir kvöldmáltíðina örlagaríku vitum við það eitt að Vera var flutt, eftir mánaðardvöl í fangelsi, í fangabúðir, fyrst í búðir í Mordóvíu, síðan í Karelíu og að lokum í Kasakstan. Í Kasakstan deyr hún úr kröm 14. mars 1943. Um dótturina Erlu Sólveigu er það eitt vitað að hennar er síðast getið á lífi í fangabúðunum í Mordóvíu.

Jón segir að hvatinn að bókarskrifunum hafi verið aðkoma sín að leit fjölskyldu Benjamíns Eiríkssonar að þeim mæðgum, Veru og Erlu. Sú leit leiddi Jón að dyrum eftirlifandi tengdafjölskyldu Veru í Rússlandi. Hann segir okkur í eftirmála bókarinnar að þar austur undir Úralfjöllum og eftir langar samræður við systurson Abrams um örlög Rozenblum fjölskyldunnar hafi runnið upp fyrir sér að með sögu Veru, Halldórs, Benjamíns, Erlu Sólveigar, Abrams og hans systkina og afkomenda þessa fólks mætti segja sögu stalínismans og gúlagsins.

Það er þetta sem Jón gerir, hann notar sögu fáeinna einstaklinga til að auðvelda lesendanum að skilja og skynja stóra atburði líkt og ofsóknirnar á Sovéttímanum, ofsóknir sem höfðu áhrif á líf tugmilljóna manna og hann gerir þetta afbragðsvel. Jón nýtir sér tiltækar heimildir og hann lýsir fyrir okkur á lifandi máta hvernig vænisýki grefur um sig hjá valdaklíkunni í Ráðstjórnaríkjunum á fjórða áratugnum. Þeir sjá óvini í hverju horni. Það er ekki endilega einstaklingurinn sem slíkur sem er ógnin heldur þjóðfélagshópar eða hreyfingar. Öryggislögreglunni er sigað á fólk sem tilheyrir þessum hópum. Sakargiftir í pólitískum ákærum eru uppdiktaðir frasar og fórnarlömbin mörg hver trúir og dyggir kommúnistar. Allt er á sömu hendi, lögregluvaldið, ákæruvaldið, dómsvaldið og framkvæmd dóma. Í þessu ljósi ber að skoða þá dóma sem Abram og Vera fengu. Hann er sakaður um að hafa starfað með trotskíískum njósna- og hryðjuverkahópi og geldur fyrir það með lífi sínu. Sömu örlög hlutu tugir þúsunda Sovétmanna af pólskum og þýskum uppruna. Vera líkt og þúsundir annarra kvenna er dæmd fyrir að vera eiginkona föðurlandsvikara og samkvæmt einhvers konar stjórnvaldsskipun skyldu slíkir dómar vera 5 eða 8 ár, hún hlaut 8 ár. Þeir sem ekki voru teknir af lífi voru sendir inn í Gúlagið sem var í raun net þrælabúða sem teygði sig um endilöng Sovétríkin. Þetta voru vályndir tímar öndverður fjórði áratugurinn í Sovétríkjunum og skuggi þessara atburða nær allt til þessa dags. Jón lýsir fyrir okkur örlögum þeirra sem komu skaddaðir á líkama og sál úr Gúlaginu, líka örlögum aðstandenda sem sátu eftir og vissu oft ekkert um ástvini sína árum saman og um suma hafa aldrei fengist svör, og ekki hvað síst hvernig þessi ógn sem lá í loftinu gegnsýrði samfélagið og hafði áhrif á öll mannleg samskipti áratugum saman.

Halldór Laxnes er líka hluti af þessari sögu sem Jón dregur upp fyrir okkur. Halldór er þar í hlutverki áróðursmannsins, hins vestræna menntamanns sem varði Sovétríkin og stalínismann á sinni heimaslóð sama á hverju gekk í austurvegi og sama hversu þversagnakenndar ákvarðanir leiðtogans voru. Nægir þar að nefna Molotov-Ribbentrop samninginn í ágúst 1939 þar sem svardagar milli Þýskalands og Sovétríkjanna¾á milli Hitlers og Stalíns af öllum mönnum¾voru innsiglaðir. Hjá minni kynslóð er Halldór alltumlykjandi, við þekktum hann í sjón, þekktum röddina og ekki hvað síst verkin hans, hann var og er risi. Þær myndir sem ég gerði mér um líf Halldórs voru m.a. fengnar úr endurminningabókum hans sem, aðrar en Skáldatími, fjölluðu fyrst og fremst um uppvöxtinn og mótunarárin. Nýlegar ævisögur um Halldór hafa veitt mér nýja sýn á skáldið. Jón Ólafsson bætir við í þá mynd, við kynnumst betur stalínistanum og áróðursmanninum og hvernig hann síðan gekk af trúnni og gerir það opinbert en á sinn hátt í Skáldatíma.

Á síðasta ári fékk bók Sigríðar V. Jónsdóttur Ríkisfang ekkert viðurkenningu Hagþenkis. Á vissan máta kallast þær á þessar tvær bækur, Ríkisfang ekkert og bók Jóns Ólafssonar. Báðar afhjúpa varnarleysi hins almenna borgara gagnvart öflum sem þeir ráða ekkert við og líka hversu langæ áhrif slíkra atburða geta verið, spanna kynslóðir. Ég vil að lokum og fyrir hönd Viðurkenningaráðs óska Jóni Ólafssyni innilega til hamingju með verkið Appelsínur frá Abkasíu, hann á heiður skilinn!

Takk fyrir!