Páll Björnsson og Guðrún Eva Mínervudóttur hlutu Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011

Páll Björnsson sagnfræðingur og dósent við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og Guðrún Eva Mínervudóttir, hlutu Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011. Það var forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Páll fékk verðlaun í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, fyrir bók sína; Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar. Guðrún Eva hlaut verðlaun í flokki fagurbókmennta, fyrir skáldsöguna; Allt með kossi vekur.

 

 
 
 

Þriggja manna lokadómnefnd, valdi sigurverkin úr hópi tíu bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember sl., fimm í flokki fagurbókmennta og fimm í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Dómnefndin var skipuð þeim Þorgerði Jennýjardóttur Einarsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, Árna Matthíassyni blaðamanni og Þorsteini Gunnarssyni, sérfræðingi hjá RANNÍS og fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, sem var formaður. Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna í hvorum flokki. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens – opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.