Ályktun um velferð gagnrýninna Íslendinga

Stjórnir Hagþenkis, Rithöfundasambands Íslands, Bandalags þýðenda og túlka, ReykjavíkurAkademíunnar, Blaðamannafélags Íslands og PEN á Íslandi vilja að gefnu tilefni minna á eftirfarandi: Einn af hornsteinum stjórnarskrár Íslands er óskoraður réttur borgaranna til þátttöku í opinni samfélagsumræðu á fundum, í dagblöðum, á netsíðum, ljósvakamiðlum eða í bókum.

 

 

Allar tilraunir flokka, stofnanna, fyrirtækja eða einstaklinga til þess að þagga niður í höfundum texta sem birta skoðanir sem þeim eru andstæðar – t.d. með skipulögðum atlögum að velferð höfundar, lögsóknum, hótunum um atvinnumissi eða mannorðsmeiðingum sem grafa undan öryggi hans – eru jafnframt aðför að sjálfu tjáningarfrelsinu.

Þyki hópum eða einstaklingum að sér vegið í ræðu eða riti, þá stendur þeim til boða, nú sem fyrr, að svara fyrir sig með sama hætti. Það kallast skoðanaskipti – jafnvel ritdeilur – og er siðaðra manna háttur í löndum þar sem lýðréttindi ríkja.

 

  • Sjón – Sigurjón Birgir Sigurðsson formaður PEN á Íslandi, sjonorama@gmail.com
  • Kristín Steinsdóttir formaður Rithöfundasambands Íslands, 568 3190, 861 9509
  • Jón Yngvi Jóhannsson formaður Hagþenkis, 820 0871
  • Sölvi Björn Sigurðsson formaður Bandalags þýðenda og túlka, 695 1235
  • Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands, 553 9155/568 3155
  • Sólveig Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Reykjavíkur Akademíunnar, 562 856/892 1215