ENGLISH

DEUTSCH


Markmið Hagþenkis er að gæta hagsmuna og réttar
félagsmanna og bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita
og kennslugagna og annars sem félagsmenn vinna að.

 

FÉLAGSAÐILD
» Samningar og taxtar  » Leiðbeiningar um útgáfusamninga

Leiðbeiningar um útgáfusamninga

 

Guðmundur J. Guðmundsson tók saman í samvinnu við Ingólf Á. Jóhannesson

Reykjavík, 1993

Breytingar færðar í sept. 1996 vegna breytinga á samningi RSÍ og útgefenda

Vinsamlegast athugið, það á eftir að uppfæra þennan texta og verður það gert innan tíðar.

 

Heilræði

Í þessu plaggi er orðrétt útgáfa af samningseyðublaði því sem almennt er notað hérlendis þegar gerðir eru samningar milli höfunda og útgefenda um útgáfu bókar. Við hverja grein hefur hins vegar verið bætt athugasemdum þar sem bent er á eitt og annað sem betur mætti fara þegar gerðir eru samningar um útgáfu fræðirita og kennslubóka. Hér koma fyrst nokkur almenn atriði sem rétt er að hafa í huga þegar gengið er til samninga við útgefanda.

 1. Notið staðlaðan samning við samningsgerðina. Þótt ýmsir gallar séu á þessu samningsformi er það að mörgu leyti hentugt og heldur bærilega utanum hagsmuni beggja aðila. ýmsir útgefendur hafa notað önnur samningsform, jafnvel heimatilbúna samninga. Reynið að komast hjá því að nota slíka pappíra. Ef útgefandi gefur ekki kost á öðru fáið þá eintak af hinum væntanlega samningi og berið það saman við þessar leiðbeiningar, höfundalög eða farið yfir það með einhverjum sem þekkir vel til samningsgerðar svo sem starfsmanni Hagþenkis.
 2. Það borgar sig að gefa sér nægan tíma til samningsgerðarinnar. Byrjið á því að fá samningseyðublaðið í hendur, kynnið ykkur það vel og fáið síðan að ræða við útgefandann a.m.k. einu sinni áður en gengið er frá samningi og umfram allt verið óhrædd að spyrja. Yfirleitt eru útgefendur reiðubúnir til að útskýra það sem kann að þykja óljóst í samningnum. Ef svör útgefandans eru loðin er ráðlegt að hafa samband við starfsmann Hagþenkis.
 3. Gerið ykkur sem gleggsta grein fyrir því hvaða breytingar það eru á samningnum sem snerta hagsmuni ykkar helst. Ekki reyna að gera of margar breytingar, veljið bara þær sem þið teljið mikilvægastar og reynið að ná þeim fram.
 4. Lítið alls ekki á útgefandann sem andstæðing. Hagsmunir útgefenda og höfunda fara yfirleitt saman og það er mikilvægt að traust ríki milli þeirra. Langoftast gæta útgefendur ekki síður hagsmuna höfunda en sinna eigin.
 5. Skrifið ekki undir neitt nema það sem þið getið staðið við og reynið ávallt að standa við gerða samninga.
 6. Ef gerður er samningur við nýstofnað bókaforlag er rétt að kynna sér eins og hægt er áður en samningur er gerður hver staða forlagsins er, hvort það standi á traustum grunni fjárhagslega, hvernig orð fer af útgefendunum o.s. frv.
 7. Ef ágreiningur kemur upp milli útgefanda og höfundar er skynsamlegast að byrja á því að fara og ræða í bróðerni við útgefandann. Venjulega sprettur slíkur ágreiningur af misskilningi sem hægt er að leiðrétta með stuttu samtali. Ef slíkt samtal nægir ekki til að jafna ágreininginn er rétt að ráðfæra sig við starfsmann Hagþenkis. Leitið ekki til lögfræðings fyrr en önnur ráð hafa verið þrautreynd, lögfræðiþjónusta er dýr.
 8. Munnlegt samkomulag getur skapað vanda, ekki vegna þess að það sé beinlínis ætlunin að brjóta það heldur vegna þess að ágreiningur getur komið upp um hvað í því fólst. Stundum verður þó að láta slíkt samkomulag duga um eitt og annað í útgáfuferlinu. Það er alla vega betra en ekkert, sér í lagi ef vitni eru að samtalinu. En jafnvel þótt höfundurinn sé með skriflegan samning í höndunum verður hann að fylgja honum eftir sjálfur og gera athugasemdir ef honum finnst útgefandi ekki standa við sitt.
 9. Auðvitað er óráðlegt að standa í orðaskaki eða rifrildi komi upp ágreiningur við útgefandann. Yfirveguð framkoma byggð á sanngirni, góðum rökum og þekkingu er vænlegri til árangurs þegar leysa þarf deilu. Reynist svo ekki vera kann að verða tímabært að leita til annars forlags.

Útgáfusamningur

Undirritaðir ... í samningi þessum nefndur höfundurinn og ... í samningi þessum nefndur útgefandinn, gera með sér svofelldan samning:

1. gr. Veitt réttindi

Höfundurinn afsalar sér hér með til útgefandans í þeim mæli og með þeim skilmálum, sem greindir eru hér á eftir einkarétti til að framleiða og gefa út á íslensku í bókarformi eftirgreint ritverk höfundarins:

Afsalið tekur til réttar til að hagnýta verkið í bókarformi í frumútgáfu ( óbundið og / eða innbundið ) og endurútgáfu sem ódýra kilju, sbr. 25 gr. um slíka endurútgáfu.

Um frumútgáfu í bókaklúbbi skal gera sérstakan samning.

Öll önnur réttindi yfir verkinu tilheyra höfundinum sbr. þó 4. gr. og 28. gr.

Athugasemdir: Tilgangur þessa samnings er að selja tiltekinn ráðstöfunarrétt yfir hugverkinu. Hagsmunir höfundarins eru oftast best tryggðir með því að takmarka þennan ráðstöfunarrétt. Rétt er að benda höfundum á að íhuga vandlega hvort ekki sé rétt að leita eftir sérstökum samningi um aðrar útgáfur á bókinni svo sem kiljuútgáfu og að 25 gr. í samningnum falli brott.

2. gr. Eintakafjöldi útgáfu

Útgefandinn hefur rétt til að láta framleiða og gefa verkið út í upplagi sem í fyrstu er ákveðið .... eintök og í nýrri útgáfu / prentun í ákveðnum eintakafjölda í samráði við höfund ef því verður við komið. Ávallt skal höfundi tilkynnt um nýja prentun og stærð upplags strax og hún hefur verið ákveðin. Ef útgefanda þykir henta betur er honum heimilt að prenta upplagið í tvennu lagi en þó skal seinni prentun fara fram innan þriggja mánaða frá útgáfudegi, annars telst það ný útgáfa. Verði um síðari útgáfur að ræða hefur útgefandinn forgangsrétt að þeim sbr., 11 gr. samnings þessa.

Í hverri nýrri útgáfu skal greina um hvaða útgáfu sé að ræða.

Sé byrjað að vinna að nýrri útgáfu meira en ári eftir að næsta útgáfa á undan kom út er útgefandanum skylt að gefa höfundinum kost á að gera breytingar á verkinu sem ekki hafi í för með sér hlutfallslega mikinn kostnað né breyta eðli verksins.

Athugasemdir: Í þessari grein er eitt og annað sem verður að teljast hæpið. Skv. greininni hefur útg. næstum því ótakmarkaðan rétt til að gefa verkið út að nýju, þarf aðeins að hafa samráð við höfundinn „ef því verður við komið". Höfundar ættu að reyna að fá þessari grein breytt, a.m.k. að fá þetta „ef því verður við komið" fellt burt. Samkvæmt þessari grein er endurskoðunarréttur höfundarins takmarkaður enda miðaður við skáldverk þar sem tiltölulega litlar breytingar eru gerðar á verkum eftir að þau koma á prent. Endurskoðunarákvæði eru hins vegar bráðnauðsynleg fyrir höfunda fræðirita og kennslugagna því þau geta úrelst mjög hratt. Höfundar ættu því að reyna að koma inn í samninginn ákvæði þess efnis að þeir hafi rétt á að endurskoða ritverk sitt að ákveðnum tíma liðnum eða ef miklar breytingar verða á þeim forsendum sem verkið byggir á.

3. gr. Gildistími útgáfusamnings

Útgáfusamningurinn gildir til loka 7. árs frá síðustu útgáfu eða - svo sem síðar greinir - þar til samningnum er sagt upp eða útgáfusamningurinn felldur niður vegna þess að verkið selst upp eða er eyðilagt. Heimilt er með sérstöku samkomulagi að framlengja útgáfuréttinn til lengri tíma en greint er í 1. mgr. en þó aldrei lengur en í fimm ár í senn. Þegar útgáfurétturinn fellur niður, falla öll réttindin samkvæmt samningnum aftur til höfundarins eða þess sem á höfundarréttinn. Uppgjörsskylda útgefandans samkvæmt samningi þessum helst án tillits til niðurfalls útgáfuréttarins.

Óski höfundurinn síðan eftir að gefa verkið út á nýjan leik, ber honum fyrst að bjóða útgefandanum það. Hafi útgefandinn ekki gefið svar innan mánaðar fellur tilboðið úr gildi.

Ef útgefandinn lýsir sig ekki vilja gefa verkið út á nýjan leik eða ef tilboð um nýja útgáfu leiðir ekki til nýs útgáfusamnings ber höfundinum ekki lengur skylda til að bjóða síðari útgáfur fyrst til upprunalegs forleggjara.

Athugasemdir: Það hlýtur oft að teljast hæpið að nota svona langt samningstímabil fyrir kennslubækur og í sumum tilvikum einnig fyrir fræðirit. Gildi framlengingar þarf að meta vandlega og tímann sem hún gildir. Í sumum tilfellum getur það verið nauðsynlegt að setja inn í samning heimild til að stytta gildistímann, einkum ef verkið fjallar um efni sem tengt er atburðum líðandi stundar og getur úrelst hratt.

4. gr. Einkaréttur útgefandans

Frá og með dagsetningu samnings þessa til útgáfudags bókarinnar er höfundinum óheimilt að birta eða láta birta á prenti, flytja í útvarpi eða sjónvarpi eða á öðrum vettvangi kafla úr handriti bókarinnar, nema fyrir liggi leyfi útgefandans.

Höfundurinn hefur ekki rétt til að gefa út verkið á íslensku í bókarformi fyrr en hann hefur endurheimt útgáfuréttinn.

Ekki er heimilt án skriflegs leyfis útgefandans að birta verkið í heild eða hluta þess í dagblöðum eða tímaritum á Íslandi fyrstu tvö árin eftir útgáfu ritverksins. Sama gildir um flutning verksins í heild í útvarpi.

Höfundinum er þó heimilt að:

 1. Taka verkið upp í heildarútgáfu eða úrval verka sinna þegar liðin eru tíu ár frá því að fyrsta útgáfa verksins kom út, en þó mega aldrei líða minna en tvö ár frá síðustu útgáfu. Þessi tveggja ára takmörkun tekur ekki til skólaútgáfu. Um ljóð skulu gilda fimm ár frá fyrstu útgáfu.
 2. Gera samning um að hlutar verksins séu teknir upp í safnverk (antologíu) í samræmi við það, sem nánar er kveðið á hér á eftir, sbr. 27. gr.

Athugasemdir: Hér gætu fræðiritahöfundar reynt að koma inn svipuðu ákvæði um stakar greinar og ritgerðir og gilda í 4. grein um ljóð.

5. gr. Framsal útgáfuréttar

Útgefandinn má ekki framselja útgáfuréttinn samkvæmt útgáfusamningnum til annars útgefanda án samþykkis höfundarins nema um sé að ræða framsal eða eigendaskipti á öllu forlaginu eða hluta af því. Við framsal útgáfuréttar er framseljandi áfram ábyrgur fyrir því að staðið sé við samninginn.

Þó getur höfundurinn neitað að samþykkja framsal til útgáfufyrirtækis, sem ekki telst jafn mikils virt og útgáfufyrirtæki það sem hyggst framselja útgáfuréttinn, eða hefur reynst hafa einhverja þá stjórnmála eða trúarlegu tilhneigingu sem höfundurinn getur ekki sætt sig við.

Athugasemdir: Hér ættu höfundar að íhuga hvort ekki sé rétt að reyna að tryggja réttindi sín ef útgefandi yrði gjaldþrota. Er, svo dæmi sé tekið, hægt að koma inn í samninginn ákvæði þess efnis að ef upplagið yrði boðið upp ætti höfundur rétt til að ganga inn í hæsta tilboð? Ekki er ljóst hvort svona ákvæði stæðist gagnvart gjaldþrotalögum en það mætti láta reyna á það.

6. gr. Handrit

Fullgert handrit afhendist við undirskrift samning þessa / skal afhent eigi síðar en ... ( það sem ekki gildir strikast út ) Við afhendingu skal handritið tilbúið til setningar. Það skal vera greinilega vélritað eða tölvuprentað öðru megin á blaði í aðra hverja línu með góðri spássíu á arkarstærð A-4. Ef útgefandi óskar að nýta tölvusetningu höfundar skulu aðilar koma sér saman um þóknun fyrir hana. Handritið skal afhent gegn kvittun eða í ábyrgðarbréfi. Að öðru leyti skal handritið vera þannig að ekki falli aukakostnaður á útgefandann vegna þess að handritið sé ógreinilegt.

Hafi handritið ekki verið afhent fyrir umsaminn tíma og í fyrrgreindu ástandi getur útgefandinn gefið höfundinum frest í minnst fjórtán daga og síðan rift samningnum, hafi handiriti ekki verið skilað að fresti liðnum.

Sé samningi rift af framangreinum ástæðum á útgefandinn rétt á bótum frá hendi höfundar fyrir sannanlega útlagðan kostnað.

Frumhandritið er eign höfundarins og ber að skila höfundinum því, ef ekki er um annað samið, þegar þess er ekki lengur þörf við bókargerðina. Gert er ráð fyrir að afrit af handriti sé varðveitt hjá höfundinum.

Athugasemdir: Í mörgum tilvikum er sá 14 daga frestur sem höfundum er gefinn í 6. gr. fulllítill. Í Noregi og Finnlandi er hann 4 vikur. Í gr. 12 eru ákvæði sem lengja fresti útgefanda til að standa við 9. og 11. gr. samningsins. Ekkert slíkt er að finna í 6. gr. Höfundar ættu að reyna að fá inn sambærileg ákvæði, t. d. varðandi veikindi. Réttur útgefanda til að krefja höfund skaðabóta er mjög víðtækur skv. þessu ákvæði og athugandi að fá hann þrengdan, enda hafa útgefendur yfirleitt ekki framfylgt þessu ákvæði af mikilli hörku.

Þá verður ekki ofbrýnt fyrir höfundum að krefjast greiðslu fyrir tölvusetningu og leitast við að vinna hana þannig að vinnusparnaður í prentsmiðju verði sem mestur. Krafa höfunda um greiðslu fyrir tölvusetningu byggist m.a. á því að setjaravinna sparast. Samhliða samningi um greiðslur ætti höfundur að afla sér upplýsinga hjá útgefanda um hvernig því markmiði skal náð, hvernig haga skal prentskipunum, uppsetningu o.s.frv.. Það er óþarfi að gefa útgefendum tækifæri til að halda því fram að það hafi orðið að breyta tölvusetningu höfundar svo mikið að varla hafi borgað sig að nota hana. Þetta mál ætti að ræða strax við útgefanda og afhanda ekki tölvusetninguna semjist ekki um greiðslur fyrir hana.

Prentsmiðjur hafa brugðist við einkatölvuvæðingunni með því að lækka verð á setningu þannig að hún er nú tiltölulega lítill hluti af kostnaðinum við gerð hverrar bókar. Höfundar ættu því ekki að búast við háum greiðslum fyrir tölvuinnslátt sinn. Það er þó engin ástæða til að gefa hann.

7. gr. Prófarkalestur

Höfundinum er rétt og skylt án sérstaks endurgjalds að lesa fyrstu próförk af hverri útgáfu, sem ekki er prentuð eftir varðveittu sátri, eða á annan sambærilegan hátt. Fari hann fram á að lesa fleiri prófarkir skal honum það heimilt endurgjaldslaust. Að öðru leyti sér útgefandinn um prófarkalestur.

Breyti höfundurinn, eftir að verkið hefur verið sett, verkinu í svo ríkum mæli, að hafi í för með sér meira en 10% aukinn kostnað við setningu getur útgefandi krafist þess að höfundurinn greiði það sem framyfir þau 10% er. Slíka kröfu skal gera eigi síðar en þrem mánuðum eftir að prófarkir hafa verið afhentar ásamt greinargerð frá prentstofunni.

Ef höfundurinn endursendir ekki prófarkir innan þriggja vikna skal líta svo á sem hann samþykki þær og útgefandanum er þá heimilt að láta prenta verkið eftir að setjaravillur hafa verið leiðréttar.

Athugasemdir: Með flestum fræðiritum eru unnar heimildaskrár, atriðisorðaskrár, nafnaskrár og stöku sinnum enn fleiri skrár svo sem skrár um ítarefni sem gjarnan fylgja kennslubókum. Slíkar skrár eru oftast nauðsynlegar til að bókin nýtist lesandanum og verði auðseljanlegri. Langoftast vinnst heimildaskráin sjálfkrafa meðfram vinnslu bókarinnar og er því sjálfsagður hluti af höfundarvinnu en öðru máli gegnir um atriðisorða- og nafnaskrár. Þessar skrár þarf að vinna á síðustu vinnslustigum bókarinnar, rétt áður en hún fer í prentum. Oft eru þessar skrár unnar af höfundum, með ómennskum hraða og undir miklu álagi. Höfundar ættu því að fara fram á sérstaka greiðslu fyrir þetta verk eða sem væri enn betra, óska þess forlagið sæi um þessa vinnslu þó þannig að höfundar hefðu úrslitavald um það hvaða orð færu inn í skránnar.

Í þessu sambandi er einnig rétt að minna á ferðir höfunda í prentsmiðju. Þessar ferðir eru oft bráðnauðsynlegar einkum þegar bækur eru með miklu myndefni eða flóknu umbroti. Prentsmiðjuferðir höfunda auka öryggið í útgáfuferlinu og eru því af hinu góða og ættu höfundar gjarnan að minna útgefendur á þetta í samningaviðræðum við þá.


Það er mat flestra þeirra sem gefið hafa út fræðirit eða kennslubók að það sé bráðnauðsynlegt að höfundur lesi eina próförk eftir að bók hefur verið brotin um, einkum og sér í lagi ef umbrot er flókið eða bókin mikið myndskreytt. Höfundar hafa hingað til gert þetta án þess að taka greiðslu fyrir . Er ekki kominn tími til að breyta því?

8. gr. Breytingar á handriti

Eftir að handrit hefur verið samþykkt til útgáfu getur höfundurinn ekki án samþykkis útgefandans gert slíkar breytingar á verkinu að eðali þess eða stærð breytist verulega við það.

Vilji höfundurinn engu að síður gera slíkar breytingar, á útgefandinn ekki rétt á því að gefa verkið út í óbreyttu ástandi, en getur hins vegar rift samningnum. Sé samningi rift af framangreindum ásæðum á útgefandinn rétt á bótum frá hendi höfundarins fyrir sannanlega útlagðan kostnað við gerð bókarinnar.

Útgefandinn ákveður uppsetningu og útlit bókarinnar í samráði við höfundinn. Hafi höfundurinn sérstakar óskir fram að færa varðandi fyrrgreind atriði skal hann koma þeim á framfæri við útgefandann við undirrituna samnings.

 

Skyldur útgefandans

 

9. gr. Útgáfuskylda

Útgefandinn skuldbindur sig til, ef ekki er um annað samið, að gefa verkið út í síðasta lagi átján mánuðum eftir að höfundurinn afhenti fullgert handrit. Verði á þessu vanefndir hefur höfundurinn rétt til að rifta samningi þessum. Útgáfurétturinn fellur þá aftur til höfundarins sem hefur rétt til að halda þeim greiðslum sem hann hefur fengið sem höfundarlaun fyrir verkið.

Hafi drátturinn valdið höfundinum sannanlegu tjóni, sem ekki er að fullu bætt með þeim höfundarlaunum, er hann hefur þegar fengið greidd, á hann að auki rétt til skaðabóta.

Athugasemdir: Átján mánuðir er langur tími sér í lagi fyrir þá höfunda sem hafa ritstörf að aðalstarfi en á móti kemur að íslensk bókaforlög eru smá og svigrúm lítið. Það er þó allt í lagi að fitja upp á styttingu niður í tólf mánuði í samræðum við útgefanda. Höfundum kennslubóka er einnig bent á að binda útgáfutíma við september eða janúar svo að bækurnar komist í umferð í byrjun annar. Dráttur á útgáfu bóka er allt of algengur og er rétt að hvetja höfunda til að fylgjast vel með hvernig útgáfan á bókum þeirra gengur fyrir sig.

10. gr. Dreifing verksins

Útgefandinn skuldbindur sig til þess að sjá um útbreiðslu verksins og dreifingu á markaði á tíðkanlegan hátt og að öðru leyti með hliðsjón af eðli verksins.

Athugasemdir: Oftast þurfa höfundar ekki að hafa neinar áhyggjur af þessari grein en þó finnast þess dæmi að útgefendur hafi ekki staðið í stykkinu hvað dreifingu varðar. Samráð um söluaðferðir getur verið gagnlegt og höfundur kann að búa yfir ráðum til að auka sölu bóka sinna.

11. gr. Nýjar útgáfur

Þegar verkið er uppselt eða útgefandinn hefur ekki notað rétt sinn til að gefa verkið út í nýrri útgáfu, getur höfundurinn skriflega krafið útgefandann um að taka afstöðu til þess hvort hann hyggst gefa verkið út í nýrri útgáfu.

Hafi útgefandinn ekki undirritað skuldbindingu innan þriggja mánaða um að gefa verkið út í nýrri útgáfu frá því að honum barst ósk um það, er höfundinum heimilt að rifta samningnum.

Verkið telst uppselt þegar í mesta lagi fimmtíu eintök eru eftir í birgðum, óháð því hvar þau liggja.

Athugasemdir: Það er mat margra að þessi tala, fimmtíu, sé of lág og rétt sé að hækka hana einkum hvað varðar kennslubækur.

12. gr. Undanþága frá fresti

Fresti þá sem tilgreindir eru í 9. og 11. gr. má lengja eftir ástæðum ef útgáfa hefur tafist vegna skorts á pappír, verkfalla eða annarra framleiðslu-tæknilegra ástæðna, svo og almennra óviðráðanlegra afla.

Athugasemdir: Það hlýtur að teljast almenn kurteisi að útgefandi láti höfund vita ef til frestunar af þessu tagi kemur en því miður virðist alltof oft vera misbrestur á því.

Fjárhagslegir skilmálar

13. gr. Almenn ákvæði um höfundarlaun

Höfundarlaun skal ákveða sem hundraðshlua af verðlistaverði útgefanda. Með verðlistaverði er átt við það verð, án virðisaukaskatts, sem útgefandi tilkynnir viðskiptamönnum sínum á útgáfutíma bókar.

Verðlistaverð getur verið með tvennum hætti:

a) Þegar um er að ræða bækur sem seldar eru í bókabúðum eða hjá hefðbundnum söluaðilum bóka: Heildsöluverð bóka frá forlagi til endurseljanda án vsk.

b) Þegar um er að ræða bækur seldar í farandsölu eða símasölu á vegum útgefanda: smásöluverð bóka án vsk. að frádregnum 30% sölulaunum.

Heimilt er útgefanda að veita smásölum afslátt af verðlistaverði, enda ráðist afslátturinn af viðskiptalegum sjónarmiðum eingöngu. Höfundarlaun miðast þá við verðlistaverð að frádregnum afslætti.

(Eldra ákvæði: Höfundarlaun skal ákveða sem hundraðshluta af útsöluverði hverrar bókar. Útsöluverð er smásöluverð án söluskatts.)

Útgefandi ákveður verðlistaverð (áður: útsöluverð) bókarinnar. Það er áætlað kr. ... án söluskatts hvert eintak. Útgefandi tilkynnir höfundi um endanlegan fjölda prentaðra eintaka og loka ákvörðun um útsöluverð.

Útgefandi skal tilkynna höfundi sem næst útgáfudegi um endanlegan fjölda prentaðra eintaka og lokaákvörðun um verðlistaverð.

Höfundur getur valið milli höfundarlauna eftir sölu (14. gr. ) eða höfundarlauna eftir framleiddum eintökum ( 15. gr. ).

Í þessum samningi skal fara um höfundarlaun eftir .... gr.

Þegar um er að ræða tvo eða fleiri sem eiga rétt til þóknunar ( t.d. samtalsbók ) skal kveða á um það í samningnum við báða ( alla ) aðila hvert þóknunarhlufall hvers sé.

Þegar um er að ræða myndskreytta útgáfu fyrir fullorðna er heimilt að lækka höfunarlaun í sama hlutfalli og nemur umfangi af prentfleti bókarinnar allt að 50%. Skerðingarákvæði þetta á því aðeins við að umfang myndskreytingar nemi minnst 7% af prentfleti bókar. Ef myndskreyting er meira en 50% af prentfleti bókarinnar skal semja um þóknun sérstaklega.


Athugasemdir: Hér og í 14.og 15 gr. eru færðar inn breytingar sem gerðar voru á samningi Rithöfundasambands Íslands og Félags íslenskra bókaútgefenda sem samþykktar voru á aðalfundi RSÍ í maí 1996. Þær voru gerðar með hliðsjón af breytingum sem hafa orðið á bóksöluháttum á undanförnum árum. Nýja viðmiðunin er talin gefa höfundum tækifæri til að halda sínum hlut þrátt fyrir lækkun sem varð á verði ýmissa bóka, einkum þeirra sem háðar eru jólamarkaði og koma fljótt á útsölu. Stjórn Hagþenkis er sammála því að sú geti einnig orðið raunin þegar um rit almenns eðlis er að ræða.

Skerðingarákvæði þessarar greinar voru í upphafi hugsuð fyrir barnabækur og aðrar bækur þar sem texti er lítill en myndskreytingar miklar. Á síðustu árum er vitað um þó nokkur tilfelli þar sem þeim hefur verið beitt á fræðibækur, til dæmis vegna þess hve myndefni sé dýrt. Við gerð fræði- og kennslubóka er myndskreyting oft á tíðum jafn mikilvæg og sá texti sem í bókinni er. Oft liggur mikil vinna höfundar í öflun og vinnslu myndefnis fyrir utan þau tilvik þar sem myndir eru beinlínis eftir höfundinn. Höfundur sem skilar unnu myndefni með handriti þarf ennfremur að fylgjast með myndvinnslunni í prentsmiðju, hvort myndir séu á réttum stað, snúi rétt o.s.frv. og að síðustu að lesa síðupróförk. Ef útgefandi hyggst beita skerðingarávæðum þessarar greinar ættu höfundar skilyrðislaust að krefjast sérstakrar greiðslu fyrir vinnu sína við myndefni bókarinnar og í prentsmiðju.

14. gr. Höfundarlaun eftir sölu

Höfundarlaun skulu nema minnst 23% af verðlistaverði að teknu tilliti til viðskiptalegra afslátta. (Áður: Höfundarlaun skulu nema minnst 16% (sextán prósent ) af útsöluverði án söluskatts).

Greiðslu höfundarlauna skal hagað þannig að 1/4 hluti ( einn fjórði hluti ) af áætluðum (áður: útreiknuðum) höfundarlaunum fyrir allt upplag frumútgáfunnar greiðist við undirskrift samnings, eða - ef handrit er afhent síðar - við afhendingu þess er skipta má í þrjár jafnar mánaðargreiðslur.

Innan þriggja mánaða frá útgáfudegi skal útgefandinn hafa greitt helming áætlaðra höfundarlauna fyrir útgáfuna.

15. gr. Höfundarlaun eftir framleiddum eintökum

Höfundarlaun eftir framleiddum eintökum eru höfundarlaun sem reiknast eftir fjölda fullunninna eintaka, þó eigi færri en samið er um í 2. gr.

Höfundarlaun eftir framleiddum eintökum skulu nema minnst 16.5% af verðlistaverði bókar að teknu tilliti til viðskiptalegra afslátta. (Áður: 11.5% (ellefu og hálft prósent) af útsöluverði bókarinnar, án söluskatts).

Greiðslur skulu vera:

 1. Við afhendingu handrits greiði útgefandinn höfundi 1/4 hluta ( einn fjórða hluta ) af höfundarlaunum lágmarksupplags samkv. 2. gr.
 2. Eftirstöðvarnar áætlaðra höfundarlauna greiðast (áður: eftirstöðvar skulu greiðast) innan fjögurra mánaða frá útgáfudegi. Fyrir það sem þá kann að verða eftir í örkum greiðast höfundarlaun innan fjögurra mánaða frá því að bækurnar eru fullunnar í bókbandi.

Athugasemdir: Í þessu samningsformi eru engin ákvæði þess efnis að höfundur,sem samið hefur um höfundargreiðslur fyrir fjölda framleiddra eintaka, hafi rétt til að breyta samningi sínum ef verkið selst vel. Eftir að útgefandi hefur náð útlögðum kostnaði má telja sanngjarnt að hlutur höfundar í sölunni aukist. Náist fáist viðurkenning á því má t.d til dæmis breyta 14. gr. á þessa leið eftir því sem um semst. „Höfundarlaun skulu nema minnst 16% án söluskatts fyrir fyrstu ..... eintökin en hækki síðan um 1% fyrir hver .... eintök uns 20% marki er náð.

16. gr. Endurgjaldslaus eintök höfundar o.fl.

Af fyrstu prentun fær höfundur 25 eintök án endurgjalds. Af hverri nýrri útgáfu fær höfundur 10 eintök án endurgjalds. Óski höfundur þar fyrir utan að kaupa eintök af verkinu greiðir hann verð án álagningar bóksala.

17. gr. Yfirlýsing bókagerðaraðila

Útgefandanum er skylt að láta höfundinum í té skriflega yfirlýsingu prentsmiðju og bókbandsstofu, sem annast hefur gerð bókarinnar, um prentaðan, heftaðan og bundinn eintakafjölda.

Athugasemdir: Þetta ákvæði er líklega það ákvæði samningsforms þessa sem hvað oftast er brotið. Þarna væri ekki úr vegi að koma inn tímatakmörkunum því greinin segir ekkert um það hvenær útgefandi þurfi að láta höfund hafa þessa yfirlýsingu.

18. gr. Frjáls eintakanot útgefandans

Af hverri útgáfu hefur útgefandinn rétt til að prenta aukaeintök sem svara 10% ( tíu prósent ) af 1000 eintökum, 8% (átta prósent) af 1500, 7% (sjö prósent) af 2000, og 2% (tvö prósent) af öllum eintökum umfram 2000 en þó aldrei fleiri en 200 eintök allt í allt og ekki færri en 100.

Athugasemdir: Ríflegt hlutfall af upplaginu fellur í hlut forlagsins samkvæmt þessari grein. Frá sjónarmiði fræðiritahöfunda getur verið full ástæða til að takmarka þessa heimild við færri eintök. Höfundar ættu að athuga vandlega hvað telst fullnægjandi í þessu efni, ræða við útgefandann hvernig kynningu á bók hans verði háttað og fylgjast með því að staðið sé við þær ákvarðanir.

Nokkuð öðru máli gegnir um kennslubækur vegna þess að hagkvæmt getur verið að senda kynningareintök af þeim í flesta skóla á því skólastigi sem bókin er ætluð. Þessu fylgir náttúrulega töluverður kostnaður fyrir útgefandann. Höfundur hefur hag af því að bókin sé kynnt eins víða og kostur er á. Kennslubókahöfundar kunna í sumum tilvikum að sjá sér hag í því að bjóða útgefanda fleiri kynningareintök af bók en staðlaði samningurinn kveður á um, e.t.v. gegn tilhliðrunum frá hendi útgefanda í öðrum greinum.

19. gr. Merking

Í öllum eintökum verksins skal vera höfundarréttartákn það, sem lýst er í grein lll. í Alþjóðasamningnum um höfundarrétt ( Genfarsáttmálanum ) ásamt nafni höfundarins og ártali fyrstu útgáfu.

Merkingunni skal þannig fyrir komið og á þeim stað að hún gefi ljóst til kynna hver sé eigandi höfundarréttarins. Einnig skal merking segja til um hver séu réttindi útgefandans sbr. fylgirit 1.

Athugasemdir: Tímabært er orðið að breyta hefðbundinni atðvörun um að óheimilt sé að afrita bók nema að fengnu skriflegu leyfi. Vegna samninga sem Fjölís hefur gert f.h. rétthafa virðist eðlilegra að prenta viðvörun á þessa leið: Óheimilt er að ljósrita efni úr þessari bók eða afrita það með öðrum hætti umfram það sem heimilað er með höfundalögum og samningum sem Fjölís, samtök rétthafa, hafa gert .

Slík viðvörun getur orðið Fjölís til framdráttar.

20. gr. Réttur útgefanda til verðbreytinga

Útgefandi hefur heimild til að hækka og lækka verð bókar eða hluta upplags t.d. með sölu á bókamarkaði þegar liðið er eitt almanaksár frá útkomudegi. Höfundarlaun greiðast af lækkaða verðinu án söluskatts. Þó er útgefanda heimilt að selja bókina í bókaklúbbi þegar hann ákveður. Greiðast höfundarlaun þá af félagsverði í bókaklúbbi að frádregnum söluskatti. Höfundarlaun skulu vera minnst 12% ( tólf prósent ) af fyrrnefndu bókaklúbbsverði. Þó haldast óbreytt ákvæði um höfundarlaun og uppgjör skv. 14 og 15. gr. og miðast við bókarverð fyrir lækkun.

Útgefandi má ekki lækka verð fyrr en uppgjör við höfund hefur farið fram fyrir þau eintök sem selst hafa áður en útgefandi ákveður verðlækkun.

Útgefandi skal tilkynna höfundi verðlækkun með eins mánaðar fyrirvara og skal sérstakt uppgjör fara fram fyrir þau eintök sem seljast á lækkuðu verði.

Athugasemdir: Stundum gæti það borgað sig fyrir höfund að kaupa upplag eða hluta af upplagi fremur en að láta bók á útsölu. Semja má um slíkan forkaupsrétt um leið og samningur er gerður.

21. gr. Uppgjörstímabil

Fyrir hvert almanaksár er útgefandanum skylt í síðasta lagi hinn 1. júní næsta ár á eftir að láta höfundinum í té uppgjör. Í því skulu vera upplýsingar um stærð bókaleifa við upphaf og lok síðasta almanaksárs og um sölu á árinu, svo og greiðsla fyrir höfundarlaun ef um þau er að ræða.

Ef verðbreytingar hafa verið gerðar á árinu skulu fylgja upplýsingar þar um og til hve margra eintaka slík ráðstöfun kann að hafa náð.

Athugasemdir: Höfundar hafa iðulega sýnt óþarfa linkind við að framfylgja þesu ákvæði eða gera það hagkvæmara. Þetta uppgjör skiptir höfunda miklu máli fjárhagslega og þeir ættu að vera vakandi fyrir því að staðið sé við það. Einnig er vert að minna á að kennslubækur seljast einkum í upphafi anna, í september og janúar ár hvert. Höfundar kennslubóka ættu því að reyna að fá hér sérákvæði sem gera ráð fyrir öðru uppgjörstímabili, t.d. miða við þann tíma er bóksalar gera upp við útgefendur.

22. gr. Uppgjörsform

Uppgjör skal vera vélritað, greinilegt, í alla staði auðskilið og undirritað af útgefandanum. Á því skulu koma fram allar birgðabreytingar, upplýsingar um upphaflegan eintakafjölda, verðbreytingar svo og gölluð eintök, sem ekki verða greidd af höfundarlaun, sbr. fylgirit 2.

23. gr. Réttur höfundarins til eftirlits

Ef höfundurinn hefur í síðasta lagi þrem mánuðum eftir móttöku uppgjörs óskað skriflega eftir því, skal útgefandi senda honum staðfestingu sem gerð er af löggiltum endurskoðanda hans, sem sýnir hvort uppgjörið er gert á réttan hátt og í samræmi við bókhald útgefandans, enda beri höfundurinn allan kostnað af ráðstöfun þessari.

24. gr. Lok uppgjörsskyldu

Skyldu útgefandans til að afhenda uppgjör og til að greiða höfundarlaun lýkur frá og með því uppgjörstímabili þegar eintakafjöldi í birgðum er kominn í fimmtíu eintök eða minna. Þetta gildir hvort sem bókaleifar eru lækkaðar í verði eða eyðilagðar.

 

Afnot verksins á annan hátt

25. Endurútgáfa í kiljuformi

Með kiljuútgáfu er hér átt við útgáfu verks sem verðlagt er í mesta lagi á 50% af verði sambærilegrar innbundinnar bókar og kemur út í fyrsta lagi þrem mánuðum eftir frumútgáfu. Um endurútgáfu í kiljuformi gilda eftirfarandi lágmarksákvæði:

 

Söluverð miðað við venjul. útg. Fjöldi sölueintaka Þóknun til höf. %
50% eða minna Allt að 2000 eintök 10%
  2000 til 4000 eintök 12%
  Yfir 4000 eintök 13%
50% eða meira Allt upplagið Full höfundarlaun

Þóknun til höfundar reiknast eins og endranær af útsöluverði að frádregnum söluskatti. Um fyrirframgreiðslur skal fara eftir sömu reglum og um frumútgáfu.


Athugasemdir: Höfundar ættu að reyna að losna við þetta ákvæði og fá heldur sérsamning ef útgáfa í kilju er til umræðu, sbr. athugasemdir með 1. gr.

26. gr. Útgáfur á erlendum málum

Útgefandanum er heimilt að hafa í samráði við höfundinn forgöngu að því að kynna verkið erlendum útgefendum með útgáfu í huga. Í því skyni er honum heimilt að láta þýða einstaka kafla úr bókinni í samráði við höfundinn og senda erlendum forlögum.

Hafi íslenski útgefandinn sýnilega fyrirhöfn og fjárútláta vegna framangreinds og leiði þau til samings við erlenda útgefendur, skal fjórðungur umsaminna ritlauna fyrir verkið renna til hins íslenska útgefanda. Þetta skerðir á engan hátt rétt höfundarins til að koma verki sínu á framfæri við erlenda útgefendur og semja við þá.

27. gr. Safnrit

Óski höfundurinn að taka verkið eða hluta þess upp í safnrit hjá öðrum útgefanda getur hann ef umfang framlagsins í safnritið er ekki meira en ákveðið er í 17. gr. höfundalaga, gert það hvenær sem er að því er varðar safnrit til skólakennslu, en að því er varðar önnur safnrit, þrem árum eftir lok þess árs er fyrsta útgáfa venjulegrar útgáfu kom út.

Óski höfundurinn í öðrum tilvikum eftir því að taka hluta af verki upp í safnrit, skal hann afla samþykkis útgefanda meðan útgáfurétturinn varir.

Útgefandinn má ekki binda samþykki sitt skilyrði um fjárhagslega hagsmuni.

Vilji útgefandinn taka verkið upp í safnrit, skal hann gera sérstakan saming um það við höfundinn.

Athugasemdir: Vert er að benda á að skv. 17. grein höfundalaga getur hver sem er tekið ýmis styttri verk upp í safnrit, líka höfundurinn.

28. gr. Hljóðbönd


Einu ári eftir lok þess árs sem verkið kom út í venjulegri útgáfu, hefur höfundurinn rétt til að gefa það út á hljóðbandi.

Annað

29. gr.

Aðilar koma sér saman um eftirfarandi atriði sem þó á engan hátt skerða fyrri ákvæði þessa samnings.

_____________________________________________________________________________________

_____________________________________________________________________________________

 

30. gr.

Samningur þessi er gerður í tveim samhljóða eintökum og heldur hvor aðili sínu eintaki.

Yfirlýsing gefin við síðustu breytingar:

Eftirfarandi yfirlýsing var gefin við síðustu endurnýjun samnings RSÍ og FÍB:

FÍB lýsir því yfir að félagið mun beita sér fyrir því að félagsmenn fari eftir ákvæðum samninga í öllum atriðum, svo sem um tilkynningar um sérstakar verðlækkanir skv. 20 gr. t.d. vegna útsölu, svo að höfundum gefist kostur á að kaupa upplög að hluta eða öllu leyti á útsöluverðinu.
Þórunnartúni 2, annarri hæð.  —  Skrifstofa nr. 7  —  105 Reykjavík  —  Sími: 551 95 99  —  hagthenkir[hja]hagthenkir.is
Umsjón