ENGLISH

DEUTSCH


Markmið Hagþenkis er að gæta hagsmuna og réttar
félagsmanna og bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita
og kennslugagna og annars sem félagsmenn vinna að.

 

FÉLAGSAÐILD
» Hagþenkir

Hagþenkir


Hagþenkir heitir rit sem Jón Ólafsson frá Grunnavík skrifaði 1737. Það fjallar um „almennt stand á Íslandi", lærdóm og bókiðnir. Eftir þessu handriti, sem gefið var út 1996, nefna höfundar fræðirita og kennslugagna félag sitt.

Markmið félagsins er að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna og bæta skilyrði til samninga og útgáfu fræðirita og kennslugagna og annars sem félagsmenn vinna að. Að markmiðinu skal m. a. vinna með því að :afla upplýsinga og veita leiðbeiningar sem félagsmönnum mega að gagni koma; annast samninga sem félagsfundir ákveða að gerðir skuli fyrir félagsmenn sameiginlega og vera aðili að rétthafasamtökum sem máli skipta í því sambandi og við aðra hagsmunagæslu fyrir félagsmenn úthluta því fé sem greitt er til félagsins samkvæmt slíkum samningum í samræmi við reglur sem samþykktar eru á félagsfundum vinna að því að lög, reglur og reglugerðir, sem í gildi eru á hverjum tíma, þjóni sem best markmiðum félagsins og vinna að sem víðtækastri viðurkenningu á gildi þess að starfsskilyrði höfunda fræðirita og kennslugagna séu sem best.

Félagið var stofnað 1. júlí 1983. Það hlaut löggildingu menntamálaráðuneytisins samkvæmt ákvæðum í höfundalögum 1987. Fjöldi félaga er rétt rúmlega 7000 manns haustið 2019.

Félagar í Hagþenki geta orðið, höfundar útgefinna fræðirita og námsefnis og skyld efnis, er veita félaginu umboð til að annast fyrir sína hönd samninga í samræmi við lög þess. Umsóknir um aðild skal senda stjórn í gegnum heimasíðu Hagþenkis á þar til gerðu inntökueyðublaði. Félagsgjald er kr. 4500.

Stjórn félagsins skipa fimm félagar. Formaður er kosinn sérstaklega en fjórir fulltrúar í stjórn skipta með sér verkum varaformanns, gjaldkera og ritara. Fulltrúaráð félagsins skipa stjórn og fimm fulltrúar sem aðalfundur kýs í fulltrúaráð. Þeir eru varamenn í stjórn og kvaddir til funda til skiptis.

Hagþenkir er aðili að tvenns konar samtökum rétthafa, Fjölís og Innheimtumiðstöð gjalda. Vikið er að hlutverkum þeirra hér á eftir.

Helstu verkefni Hagþenkis hafa verið þessi:
  • Að annast samninga vegna ljósritunar og annarrar fjölföldunar í skólum á útgefnum verkum. Félagið hefur umboð félagsmanna til sameiginlegra samninga fyrir þeirra hönd. Það er aðili að FJÖLÍS, samtökum rétthafa sem annast réttar- og hagsmunagæslu vegna ljósritunar verndaðra, útgefinna verka. Félagið úthlutar árlega styrkjum af því fé sem kemur í hlut þess vegna greiðslna (einkum úr ríkissjóði) fyrir vissa heimild til ljósritunar íslenskra verka í skólum og víðar. Styrkirnir hafa verið í formi þóknana vegna ljósritunar í skólum, starfsstyrkja, menntunar- og ferðastyrkja.
  • Síðan 1987 hefur verið veitt sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi rit. Frá árinu 2006 hafa 10 höfundar verið tilnefndir til Viðurkenningar Hagþenkis en hún er veitt einum höfundi.
  • Að gæta hagsmuna félagsmanna innan Innheimtumiðstöðvar gjalda sem annast innheimtu gjalda af mynd- og hljómböndum skv. heimild í höfundalögum. Tekjur félagsins frá IHM renna til rétthafa að fræðslu- og heimildarmyndum sem hafa verið sýndar í sjónvarpi (þóknanir) og til starfsstyrkja vegna gerðar slíkra mynda.
  • Að annast samninga við Ríkisútvarpið um greiðslur fyrir flutning fræðilegs efnis og þátttöku í umræðum. Fyrsti samningurinn félagsins við stofnunina var gerður 1989 en núgildandi samningur var gerður 1992.
  • Að tryggja sem bestan hlut höfunda fræðirita og kennslugagna innan hins opinbera sjóða- og styrkjakerfis. Það verkefni tengist lagasetningu og framkvæmd laga og eflingar launasjóða fyrir fræðirithöfunda og veitingu starfslauna og úthlutun úr Bókasafnssjóði höfunda.
  • Að beita sér fyrir samningum við útgefendur er tryggi sem best kjör höfunda. Gerður var samningur um kjör námsefnishöfunda við Námsgagnastofnun sem er útrunninn en enn er tekið mið af honum. 
  • Að veita félagsmönnum hagnýtar leiðbeiningar, þar á meðal um samninga, höfundarétt og útgáfu og fleira. Á heimasíðunni eru leiðbeiningar fyrir höfunda um útgáfusamninga.
  • Að gangast fyrir námskeiðum og ráðstefnum um hagsmuna- og áhugamál höfunda fræðirita og kennslugagna.
  • Að beita sér fyrir hækkun á greiðslum fyrir afnot bóka í almenningsbókasöfnum og að greiðslur komi fyrir afnotin í skólabókasöfnum og stofnanabókasöfnum.
  • Að taka þátt í norrænu rithöfundasamstarfi og vinna með Rithöfundasambandi Íslands að sameiginlegum hagsmunamálum rithöfunda.

Hvað er Hagþenkir?  Nefnist grein í Skólavörðunni 2. tbl. 2016, bls 54 eftir Jón Ynga Jóhannson lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og fyrrum formann Hagþenkis. Sjá rafræna útgáfu greinarinna  á slóðinni:
http://skolavardan.is/raddir/Hvad-er-Hagthenkir/

Þurfum alltaf á nýjum bókum og rökum að halda. Nefnis grein í Fréttablaðinu frá 8. febrúar 2018. Viðtal við Friðbjörgu Ingimarsdóttur framkvæmdastýru Hagþenkis. Þórunnartúni 2, annarri hæð.  —  Skrifstofa nr. 7  —  105 Reykjavík  —  Sími: 551 95 99  —  hagthenkir[hja]hagthenkir.is
Umsjón